Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
Aldrei áður hef ég séð jafnmargt bersýnilega fárveikt fólk, líkamlega og andlega, á vergangi. Á öðru hverju götuhorni var fólk í bullandi geðrofi.

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Þegar ég heimsótti Portland í Oregonríki fyrst árið 2019 fannst mér heimilisleysið ögn meira áberandi þar en annars staðar í Bandaríkjunum en mér krossbrá við endurkomu nú í ágúst í ferð á vegum Reykjavíkurborgar. Aldrei áður hef ég séð jafnmargt bersýnilega fárveikt fólk, líkamlega og andlega, á vergangi. Á öðru hverju götuhorni var fólk í bullandi geðrofi, ýmist öskrandi hástöfum og ógnandi öðrum eða spígsporandi milli gangstéttarinnar og götunnar í hrókasamræðum við sjálft sig. Margir hópa sig saman á gangstéttunum, sumir sofandi en aðrir dópandi fyrir allra augum og alls staðar er tjaldað. Portlandbúar sem ég talaði við hófu allir mál sitt á að telja sig umburðarlynda og hafa samkennd með fólki en þetta væri farið úr böndunum. „Oh, so you’re staying in ground zero“ svaraði einn borgarfulltrúinn þegar við sögðum honum að hótelið okkar væri í miðborginni því þar er vandinn hvað verstur. Það væri eins og að vera lentur í bíómynd um afturgöngur og uppvakninga; „it’s Zombieland“ eins og annar viðmælandi orðaði það.

Markaði afglæpavæðingin upphaf endalokanna?

Aðspurð um ástæðurnar nefndu öll fentanýlfaraldurinn í Bandaríkjunum og að Portland væri ákjósanlega staðsett á helstu verslunarleið mexíkóskra glæpasamtaka í gegnum Bandaríkin. Kínversk lyfjafyrirtæki selja þeim uppistöðuefni fentanýls fyrir slikk og því er framleiðslukostnaðurinn afar lágur, sem lækkar götuverð lyfjanna. Faraldurinn er þó engin nýjung heldur hefur hann geisað í tæpan áratug en áður skók heróínfaraldur Bandaríkin. Borgarfulltrúanum og borgarstjóra Portland þótti dapurlegt að viðurkenna að fólk saknaði heróíntímans, því það sljóvgaði fólk og skemmdi hægar en fentanýlið, sem gerir fólk árásargjarnara og illilega geðveikt.

Fram til þessa hef ég verið áhugasöm um portúgölsku leiðina svonefndu, sem kjarnast í afglæpavæðingu neysluskammta samhliða fjölgun meðferðarúrræða. „Það var skilyrðið sem kjósendur settu á kjörseðilinn,“ útskýrði borgarfulltrúinn. Í nóvember 2020 urðu Oregonbúar fyrstir allra Bandaríkjamanna til að kjósa með afglæpavæðingu neysluskammta harðari efna eins og heróíns og kókaíns. Samhliða var kannabissala skattlögð til að fjármagna uppbyggingu meðferðarúrræða en ekkert ríki hefur jafn fá meðferðarúrræði og Oregon. Í kjölfarið var eins og stífla brysti. Aðgengi og framboð fentanýls varð á við kaffibolla frá Starbucks nema hann kostar fjóra dollara að meðaltali en hægt var að fá eina fentanýltöflu á tvo dollara eða 260 krónur. Til að setja þetta í samhengi er áætlað að um 1.500 manns muni láta lífið vegna of stórra skammta í Portland í ár en sú tala var rétt undir 200 manns árið fyrir afglæpavæðinguna. (Íbúar borgarinnar eru tæp 650 þúsund og yfirfært á Ísland samsvarar þetta meira en 900 manns. Í fyrra létust samtals tæplega 2.700 á Íslandi.) Í ofanálag hafði borgarstjórn Portland skorið niður fjármagn til lögreglunnar um rúmar 25 milljónir dollara eða 3,2 milljarða króna í júní 2020 og Covid-19 var nýskollið á heimsbyggðinni með tilheyrandi samkomutakmörkunum, víðtækum lokunum og álagi á heilbrigðisstofnanir. Það er því ólíklegt að afglæpavæðingu neysluskammtanna sé alfarið að kenna um þetta hörmungarástand í Portland en segja má að þar með hafi síðasta vígið fallið.

Létum leitina að fullkomnun standa í vegi fyrir því sem dugar

„Við gleymdum að það tekur enga stund að rífa niður en mörg ár að byggja upp,“ útskýrði borgarfulltrúinn og átti þar við úrræðaskortinn sem tók við eftir afglæpavæðinguna. Ekki bætti úr að þrætur um fyrirkomulag úrræðanna töfðu uppbygginguna enn frekar: „We’ve let perfection get in the way of good,“ orðaði borgarfulltrúinn það. Kannabisskattlagningin hefur þó leitt til fjölgunar úrræða vegna heimilisleysis, meðferða og tengdri heilbrigðisþjónustu í Oregon, en um margra áratuga skeið hafði þetta rótgróna demókrataríki safnað svo mikilli innviðaskuld að þjónustuframboðið mætir aðeins um 50% af þjónustuþörfinni í málaflokknum samkvæmt nýjustu rannsóknum.

Við heimsóttum smáhýsaþorp sem var tiltölulega nýbúið að opna og gaf góða raun, ólíkt hér heima var það afgirt og með sólarhringsstuðningi við íbúa, auk samkomusalar og eldhúss. Spurður um kosti og galla við fyrirkomulag þessara mála sagði verkefnisstjóri þorpsins að nýja fjárveitingin gerði fleirum kleift að leggja hönd á plóg og því fylgdu fjölbreyttari úrræði og þjónusta. Aftur á móti væri mikil samkeppni um fjármagnið sem bitnaði á samvinnu á milli þjónustuaðila, þeir væru tregir til að deila þekkingu og upplýsingum sín á milli af ótta við að gefa frá sér samkeppnisforskotið.

Öruggt er að segja að ég kom heim með mun meiri þekkingu og skilning á þessum málaflokki en áður. Ég lýk þessari frásögn á varnarorðum Teds Wheelers borgarstjóra Portland sem sagði: „Ef fentanýlið er ekki komið til Íslands ennþá skuluð þið nýta tímann til að undirbúa ykkur.“

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.