Björgun Frá aðgerðum við Álftavatn aðfaranótt laugardags.
Björgun Frá aðgerðum við Álftavatn aðfaranótt laugardags. — Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg
Í fyrstu haustlægðinni, sem gekk yfir landið um helgina, var í ýmsu að snúast hjá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Seint á föstudagskvöld bárust boð frá Neyðarlínu um að hópur fjögurra göngumanna sem var á Laugaveginum þyrfti aðstoð

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Í fyrstu haustlægðinni, sem gekk yfir landið um helgina, var í ýmsu að snúast hjá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Seint á föstudagskvöld bárust boð frá Neyðarlínu um að hópur fjögurra göngumanna sem var á Laugaveginum þyrfti aðstoð. Einn í hópnum hafði örmagnast og treysti sér ekki til að halda áfram för.

Mannskapur úr hálendisvaktinni sem var í Landmannalaugum fór á staðinn og kom að hópnum síðla kvölds nærri Álftavatni. Aðstæður þar voru afar slæmar; mikil rigning og sökum bleytu var afar hált. Aukinn liðstyrkur úr byggð var fenginn til aðgerðanna, sem voru nokkuð umfangsmiklar.

Búið var um hinn máttfarna mann og fjölmennur flokkur bar hann talsvert langa leið í skálann við Álftavatn. Þangað var komið um miðja nótt. Þar fékk viðkomandi aðhlynningu og heita drykki. Hresstist hann af því og hjúkrunarfræðingur sagði viðkomandi ferðafæran. Flutti björgunarliðið manninn þá til byggða og í gistingu á Hellu, en liðið var á öflugum bílum sem flest er fært.

Á laugardagskvöld var björgunarsveitin Sigurvon í Sandgerði kölluð út að Hvalsnesi, þar skammt sunnan við byggðarlagið, vegna mikils ágangs sjávar sem skemmt hafði varnargarð og náði sjórinn langt inn á landið. Afleiðingarnar voru þær að íbúðarhús á svæðinu var umflotið sjó. Í fyrstu var haldið að íbúi hússins væri fastur inni í því en sá hafði, þegar betur var að gáð, komist á þurrt land í tæka tíð.