Umferð Stærsti þátturinn í losun árið 2022 voru vegasamgöngur.
Umferð Stærsti þátturinn í losun árið 2022 voru vegasamgöngur. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Bráðabirgðagögn um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi sýna að losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands stóð í stað milli áranna 2021 og 2022. Losun sem fellur undir staðbundinn iðnað innan viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir (e

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Bráðabirgðagögn um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi sýna að losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands stóð í stað milli áranna 2021 og 2022. Losun sem fellur undir staðbundinn iðnað innan viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir (e. ETS) jókst hins vegar um 2% á sama tímabili. Þá jókst losun frá alþjóðasamgöngum umtalsvert en sú losun fellur að hluta til innan ETS-kerfisins. Þetta kemur fram í umfjöllun á vef Umhverfisstofnunar. Þar segir jafnframt að bráðabirgðaniðurstöður um losun vegna landnotkunar (e. LULUCF) árið 2022 liggi ekki fyrir.

Á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands árið 2022 hafi verið 2.803 þús. tonn koldíoxíðígildi eða CO2-íg. Losunin hefur dregist saman um 12% frá árinu 2005 en stóð í stað milli áranna 2021 og 2022.

Eins og komið hefur fram hefur ríkisstjórnin sett fram metnaðarfull markmið um að losun á beinni ábyrgð Íslands hafi dregist saman um 55% árið 2030, miðað við losun árins 2005. Eins og sjá má á meðfylgjandi skýringarmynd er nokkuð langt í land með að þau markmið náist.

Þegar rýnt er í einstaka losunarflokka má sjá hvaða breytingar hafa orðið milli áranna 2021 og 2022. Mesta aukningin í losun var hjá fiskimjölsverksmiðjum eða um 485%. Losun af þeirra völdum var 57 þúsund tonn CO2-íg en þessi aukning skýrist af skerðingu á raforku að því er fram kemur í gögnum Umhverfisstofnunar. Um 230% aukning varð í losun vegna rafmagns og húshitunar vegna notkunar varaaflsstöðva á tímabilinu. Þá varð 8% aukning í losun vegna vegasamgangna sökum aukinnar umferðar og eldsneytiskaupa. Alls var losun vegna vegasamgangna 66 þúsund CO2-íg. Þá jókst losun frá jarðvarmavirkjunum um 6% en ástæðan er rakin til „náttúrulegs breytileika“ eins og það er orðað.

Aftur á móti varð lítilsháttar samdráttur í losun frá landbúnaði vegna fækkunar sauðfjár. Um 16% samdráttur varð á losun frá fiskiskipum vegna minni eldsneytiskaupa hérlendis.

Stærsti þátturinn í losun sem var á beinni ábyrgð Íslands árið 2022 voru vegasamgöngur, 33% af heildarlosun, 22% vegna landbúnaðar, 17% voru af völdum fiskiskipa og 7% vegna urðunar úrgangs.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon