Sandpokavíti Dantes Þessi jógahópur í Kænugarði sinnti morgunæfingunum í gær í skugga styttu af ítalska miðaldaskáldinu Dante Alighieri. Er styttan vafin í sandpoka til þess að verja hana fyrir loftárásum Rússa.
Sandpokavíti Dantes Þessi jógahópur í Kænugarði sinnti morgunæfingunum í gær í skugga styttu af ítalska miðaldaskáldinu Dante Alighieri. Er styttan vafin í sandpoka til þess að verja hana fyrir loftárásum Rússa. — AFP/Roman Pilipey
Rússar gerðu drónaárásir á hafnarborgina Rení í Ódessa-héraði í gærmorgun. Náðu loftvarnir Úkraínu að skjóta niður 22 af 25 sjálfseyðingardrónum af íranskri gerð sem Rússar sendu til árásarinnar, en hinir þrír náðu að skotmörkum sínum

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Rússar gerðu drónaárásir á hafnarborgina Rení í Ódessa-héraði í gærmorgun. Náðu loftvarnir Úkraínu að skjóta niður 22 af 25 sjálfseyðingardrónum af íranskri gerð sem Rússar sendu til árásarinnar, en hinir þrír náðu að skotmörkum sínum. Tveir særðust í árásinni.

Úkraínumenn sökuðu Rússa um að hafa ráðist að borgaralegum innviðum sem tengdust kornútflutningi Úkraínu, en talsmenn rússneska hersins sögðust hafa ráðist á olíubirgðageymslur í hafnarborginni.

Rení liggur við Dóná, en áin markar landamæri Rúmeníu og Úkraínu. Rúmensk stjórnvöld fordæmdu árásina í gær harðlega, og sagði varnarmálaráðuneyti landsins að ítrekaðar árásir Rússa á skotmörk svo nærri landamærum sínum væru algjörlega tilhæfulausar, og að þær stríddu gegn alþjóðalögum. Þá fordæmdu Moldóvar einnig árásina, og sögðu hana grimmilega.

Rússar hafa beint spjótum sínum að hafnarborgunum Rení og Ísmaíl síðustu vikur, eða frá því að rússnesk stjórnvöld tilkynntu að þau vildu ekki framlengja kornsamninginn sem gerður var með milligöngu Tyrkja og Sameinuðu þjóðanna.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, mun í dag funda með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Sotsjí, og munu forsetarnir tveir þar ræða möguleikana á því að Rússar samþykki að fylgja skilyrðum kornsamkomulagsins á nýjan leik.

Resníkov látinn fara

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti tilkynnti í kvöldávarpi sínu í gærkvöldi að hann hefði ákveðið að skipta um varnarmálaráðherra. Oleksí Resníkov, sem skipaður var þremur mánuðum fyrir innrás Rússa, mun þá víkja fyrir Rústem Úmerov.

Ráðherraskiptin koma í kjölfar hneykslismála, þar sem embættismenn sem sinntu herkvaðningu reyndust hafa þegið mútur í skiptum fyrir að lýsa menn óhæfa til herþjónustu. Selenskí sagði hins vegar í ávarpi sínu að hann teldi að ráðuneytið þyrfti nýja sýn á hvernig ætti að nálgast úrlausnarefni sín.