Stefán Geir Karlsson fæddist 15. janúar 1945. Hann lést 11. ágúst 2023.

Útför hans fór fram 25. ágúst 2023.

Ég var u.þ.b. 5-6 ára þegar ég kynntist honum, og hef því þekkt hann næstum því alla mína ævi. Hann var langur, grannur og með sítt hár og mikið skegg, eins og hippar voru gjarnan. Hann var brosleitur og bjó yfir ótrúlega háværum en fyndnum hlátri, sem skar í eyrun en hafði smitandi áhrif á lítinn strák, síðar ungling og svo ungan mann. Hláturinn var einhvers konar aðalsmerki Geira, algerlega samtvinnaður honum, og hann sleppti hlátrinum óspart lausum við öll gefin tækifæri. Það var einfaldlega alltaf gaman að hitta Geira, og ótrúlega nærandi fyrir sálina að umgangast hann. Með augnaráði sínu staðfesti hann, að hann ekki bara sá mann, og með hlustun sinni ekki bara að hann heyrði mann, eða með snertingu sinni að hann fyndi mann, heldur að hann samþykkti mann. Í því er mikill kærleikur. Fyrir ungan mann í leit að samþykki lífsins var það dýrmætt. Ég kynntist honum í æsku sem plötu- og ketilsmið, skipasmið, einhvers konar verkfræðingi, og síðan listamanni. Magnaðar andstæður í einum manni, allt í ramma öðrum megin, en hinum megin fékk hugurinn að reika frjálst í allar áttir. Ég kynntist honum samt fyrst og fremst sem pabba vinkvenna minna, Helenu og Immu, þar sem þessar andstæður kristölluðust í hreinni ást. Í gegnum öll ungdómsár mín voru þau öll og Maddý stór og mikilvægur hluti fjölskyldu minnar, án þess að um blóðtengsl væri að ræða, en sterk tengsl engu að síður. Árin og lífið komu svo einhvern veginn á milli okkar allra, og leiðir okkar skárust, eins og gerist. Við Geiri urðum oft á vegi hvor annars síðar á lífsleiðinni, ýmist þegar hann var orðinn áfengisráðgjafi og síðan heilari, og svo þegar ég var orðinn lögmaður. Það var fallegt móment, sem ég geymi í hjarta mínu, þegar listamaðurinn og lögmaðurinn áttu fund á Mokkakaffi til að ræða réttarstöðu listamannsins gagnvart listaverkum hans. Það var þá sem ég sá að með árunum hafði hann ekkert elst, heldur var hann unglegri þá en rúmlega 45 árum áður.

Ég sagði við hann sem svo að hann væri kannski skýrasta núlifandi dæmið um The Curious Case of Benjamin Button, sem fæddist gamall og dó ungur. Geira fannst þetta fyndið, og hló hátt, svo undir tók í öllu Mokkakaffi, bæði fasteign og fylgifé, og allir viðstaddir litu í átt til okkar, með bros á vör yfir þessum mikla hlátri, sem ennþá hafði sömu smitandi áhrifin. Sami hlátur og þegar ég sá hann fyrst. Ég held að Geira hafi þótt það forréttindi að fá að kveðja ungur, þótt hann væri að nálgast áttrætt. Ég kveð þennan kæra vin minn með þökkum fyrir allt og allt, varðveiti öll minningabrot um hann sem ég á, og votta öllum hlutaðeigandi mína dýpstu samúð, sérstaklega Helenu og Immu og fjölskyldum þeirra.

Gísli Kr.