Njáll Ragnarsson
Njáll Ragnarsson
Vegna hærra verðs á rafmagni og olíu ætla HS-veitur að grípa til þess ráðs, krefjist aðstæður þess, að setja vatn inn á hitaveituna í Vestmannaeyjum á lægra hitastigi en verið hefur. Búast má við að hitastig frá kyndistöð verði 0-4°C lægra en nú er, eftir árstímum

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Vegna hærra verðs á rafmagni og olíu ætla HS-veitur að grípa til þess ráðs, krefjist aðstæður þess, að setja vatn inn á hitaveituna í Vestmannaeyjum á lægra hitastigi en verið hefur. Búast má við að hitastig frá kyndistöð verði 0-4°C lægra en nú er, eftir árstímum.

Til stendur að láta sjóvarmadælustöð stýra framrásarhita heita vatnsins sem fer inn á veitukerfi Vestmannaeyja. Með því verður upphitun á vatninu ekki í þeim mæli sem verið hefur háð rafmagni og olíu og þar með umhverfisvænni. Áhrif til hækkunar hafa sömuleiðis bilanir á sæstreng Landsnets frá fastalandinu yfir til Eyja.

Nú um mánaðamótin hækkaði gjaldská hitaveitu HS-veitna um 7,39%. Samhliða því verða fyrrnefndar tæknibreytingar gerðar sem lýst er á vef fyrirtækisins sem viðbragði við sívaxandi kostnaði vegna orkukaupa. Íbúar í Vestmannaeyjum eru vegna þess hvattir til þess af orkusalanum að yfirfara hitakerfi húsa sinna og reyna með því að halda kostnaði niðri.

„Gjaldskráin verður heitari en vatnið verður kaldara. Þetta er svolítið merkilegt,“ segir Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs Vestmannaeyja, í samtali við Morgunblaðið. Hann telur líklegt að á næstu dögum verði af hálfu fulltrúa Vestmannaeyjabæjar óskað skýringar frá stjórnendum HS-veitna á þessum ráðstöfunum. Meira sé lítið hægt að segja í málinu og bæjaryfirvöld geti lítið gert, enda sé hækkunin ráðstöfun einkafyrirtækis.

„Við mótmælum þessum ráðstöfunum, annað er ekki hægt. Hækkun upp í 7,4% er aðeins hálf saga málsins. Með kaldara vatni borgum við í raun meira en verið hefur,“ segir Njáll.