Barátta Keflvíkingurinn Anita Lind Daníelsdóttir skallar boltann frá í baráttu við Murielle Tiernan sóknarmann Tindastóls í gær.
Barátta Keflvíkingurinn Anita Lind Daníelsdóttir skallar boltann frá í baráttu við Murielle Tiernan sóknarmann Tindastóls í gær. — Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson
Tindastóll og Keflavík gerðu jafntefli, 1:1, í fyrsta leik neðri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Sauðárkróksvelli í gær. Það blés byrlega fyrir gestina af Suðurnesjum þegar Kristrún Ýr Holm fyrirliði Keflavíkur kom liðinu í forystu eftir aðeins tíu mínútna leik

Besta deildin

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Tindastóll og Keflavík gerðu jafntefli, 1:1, í fyrsta leik neðri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Sauðárkróksvelli í gær.

Það blés byrlega fyrir gestina af Suðurnesjum þegar Kristrún Ýr Holm fyrirliði Keflavíkur kom liðinu í forystu eftir aðeins tíu mínútna leik.

Hún skoraði þá með skoti á lofti eftir hnitmiðaða sendingu Melanie Rendeiro úr aukaspyrnu utan af vinstri kanti. Skotið fór undir Monicu Wilhelm í marki Tindastóls, sem hefði átt að gera betur. Sjaldséð mistök hjá leikmanni ágústmánaðar hjá Morgunblaðinu.

Eftir rétt rúmlega klukkutíma leik jafnaði Beatriz Parra metin fyrir Tindastól.

Margrét Lea Gísladóttir varnarmaður Keflavíkur átti þá ögn tæpa sendingu til baka á Veru Varis í marki Keflavíkur, hún hreinsaði frá en beint á Parra sem tók við boltanum og náði laglegu skoti er boltinn skoppaði fyrir utan teig, sem reyndist Veru um megn að verja. Fleiri urðu mörkin ekki og sættust liðin því á jafnan hlut eftir baráttuleik.

Þrjú lið í einum hnapp

Jafnteflið þýðir að staðan er lítið breytt í neðri hlutanum, þar sem aðeins fjögur lið etja kappi í þremur umferðum. Hvert einasta stig er því sérstaklega dýrmætt.

Tindastóll er sem fyrr efst í neðri hlutanum, nú með 20 stig. Keflavík heldur kyrru fyrir í næstneðsta sæti en er nú með 18 stig, jafnmörg og ÍBV í sætinu fyrir ofan, en með lakari markatölu.

ÍBV getur fellt Selfoss

ÍBV á auk þess leik til góða en liðið mætir botnliði Selfoss í Vestmannaeyjum á morgun. Þar geta Eyjakonur fellt nágranna sína með sigri, sem kæmi liðinu um leið í efsta sæti neðri hlutans.

Selfyssingar þurfa á hinn bóginn bráðnauðsynlega á þremur stigum að halda ætli liðið að eiga minnstu von um að halda sæti sínu á meðal þeirra bestu. Jafntefli myndi duga Selfossi skammt en héldi þó veikri von á lofti.

Tindastóll – Keflavík 1:1

0:1 Kristrún Ýr Holm 10.

1:1 Beatriz Parra 61.

m

Beatriz Parra (Tindastóli)

Laufey H. Halldórsdóttir (Tindastóli)

Melissa Garcia (Tindastóli)

Kristrún Ýr Holm (Keflavík)

Madison Wolfbauer (Keflavík)

Dómari: Sveinn Arnarsson – 8.

Áhorfendur: 150

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson