Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir
Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir
Slagorðin „Er allt í gulu?“ og „Er allt í gulu á þínum vinnustað?“ voru kynnt til sögunnar á föstudaginn þegar verkefninu Gulum september var ýtt úr vör eins og fram kom í blaðinu á laugardaginn

Slagorðin „Er allt í gulu?“ og „Er allt í gulu á þínum vinnustað?“ voru kynnt til sögunnar á föstudaginn þegar verkefninu Gulum september var ýtt úr vör eins og fram kom í blaðinu á laugardaginn.

„Tilgangurinn er að gefa geðræktinni gaum. Á haustin setja flestir hreyfingu á dagskrá eða einhvers konar líkamsrækt. En sjaldan sinnum við geðræktinni meðvitað eins og að passa upp á streituna eða gæta jafnvægis milli vinnu og einkalífs. Þar setjum við okkur ekki markmið en geðheilbrigði er forsenda heilbrigðis. Þannig getur maður stundað líkamsrækt,“ segir Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna hjá Landlæknisembættinu.

Verkefnið Gulur september er nýtt af nálinni og vonast Guðlaug Jóna til þess að það sé komið til að vera.

„Slagorðið „Er allt í gulu?“ vísar í spurninguna er allt í góðu? Þetta snýst um að taka samtalið eins og þegar fólk spyr hvernig einhver hafi það. Við ættum að hlúa hvert að öðru enda getur fyrsta skrefið í vanlíðan verið að segja einhverjum frá því. Einnig viljum við skoða í september hvort verið sé að huga að geðrækt á vinnustöðum. Hvort álagið sé hæfilegt og hvort sveigjanleiki sé í boði. Þetta snýst um samtal milli starfsmanns og stjórnenda því einstaklingurinn getur ekki ætlast til þess að stjórnendur láti viðkomandi líða vel í vinnunni. Fólk verður að finna hjá sér sjálft hvort það sé í verkefnum sem því finnst áhugaverð.“

Sé horft á fimm ára tímabil falla 39 fyrir eigin hendi á ári að meðaltali hér á landi. Að sögn Guðrúnar Jónu liggja tölurnar fyrir árið 2022 ekki fyrir.

 Hjálparsími Rauða krossins, 1717, er ávallt opinn, trúnaði og nafnleynd er heitið.