Bílalest Umferð á Sæbrautinni á virkum degi í síðustu viku.
Bílalest Umferð á Sæbrautinni á virkum degi í síðustu viku. — Morgunblaðið/Eggert
Kristján Jónsson kris@mbl.is Samgöngusáttmálinn verður til umræðu á fundi borgarstjórnar á morgun en Marta Guðjónsdóttir óskaði eftir því fyrir hönd borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Samgöngusáttmálinn verður til umræðu á fundi borgarstjórnar á morgun en Marta Guðjónsdóttir óskaði eftir því fyrir hönd borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins.

„Við borgarfulltrúar berum skýlausa ábyrgð á því að umferðin í borginni gangi upp. Umferðarvandinn er orðinn slíkur að tafatími er alltaf að aukast í borginni. Okkur ber að tryggja að farið verði í nauðsynlegar samgöngubætur eins og snjallljósastýringar og að farið verði strax í framkvæmdir á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar. Þeim framkvæmdum átti að vera lokið 2021 og voru í raun forsenda þess að Alþingi samþykkti sáttmálann á sínum tíma. Enn bólar ekkert á þeim framkvæmdum þótt þær hafi verið forgangsatriði þegar sáttmálinn var samþykktur. Reykjavíkurborg hefur ekki staðið við samkomulagið,“ segir Marta í samtali við Morgunblaðið.

Hún segist vera þeirrar skoðunar að heppilegast sé að falla frá upphaflegum hugmyndum um borgarlínuverkefnið í ljósi aðstæðna og fara í hagkvæmari lausnir.

„Rannsóknir sýna að tíðni almenningssamgangna skiptir mestu máli fyrir nýtingu þeirra og slíkar framkvæmdir er hægt að fara í strax. Snjallljósastýring gæti haft veruleg áhrif á að auka tíðnina í almenningssamgöngum. Ég tel að við eigum að efla núverandi strætisvagnakerfi frekar en að halda áfram með borgarlínuverkefnið sem ekkert bólar á. Ég er sannfærð um að við myndum ná gríðarlegum árangri í almenningssamgöngum með snjallljósastýringu og með því að bæta forgangsakreinum við gatnakerfið en ekki taka akreinar frá annarri umferð. Mikilvægt er því að skipta strax út þessu löngu úrelta klukkustýrða ljósakerfi fyrir nútímalega snjallljósastýringu sem tekur alla umferð með í reikninginn, hvort sem það er akandi, hjólandi eða gangandi. Slík stýring getur haft veruleg áhrif á að greiða fyrir umferð og leysa alls kyns umferðarhnúta.“

Marta telur að nú þurfi að staldra við varðandi Fossvogsbrú. „Ég mun leggja til við endurskoðun sáttmálans að fresta framkvæmdum við Fossvogsbrú og skoða hagkvæmari kosti enda er kostnaðaraukningin óverjandi og hefur farið úr 2,25 milljörðum í 7,5 milljarða. Það er því margt að ræða á fundinum.“ Spurð hvort samstaða sé um þessi mál í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna segist Marta vita að allir fulltrúar flokksins vilji endurskoðun á samgöngusáttmálanum því hópurinn lagði fram tillögu þess efnis 21. febrúar 2023 sem hafi verið hafnað af meirihlutanum.

Höf.: Kristján Jónsson