50 ára Kristín ólst upp í Hafnarfirði en býr nú í Reykjavík. Hún er lektor í japönskum fræðum við Háskóla Íslands. „Ég flutti til Danmerkur strax eftir að ég kláraði MR. Byrjaði á því að vinna þar í eitt ár en fékk fljótt mikinn áhuga á Japan…

50 ára Kristín ólst upp í Hafnarfirði en býr nú í Reykjavík. Hún er lektor í japönskum fræðum við Háskóla Íslands.

„Ég flutti til Danmerkur strax eftir að ég kláraði MR. Byrjaði á því að vinna þar í eitt ár en fékk fljótt mikinn áhuga á Japan og ákvað að fara í nýtt BS-nám í viðskiptafræði við Copenhagen Business School, sem var með fókus á Japan og Austur-Asíu. Að því loknu fékk ég styrk til framhaldsnáms í Japan, þar sem ég tók bæði meistara- og doktorspróf við Hitotsubashi-háskóla. Ég bjó í Tókýó í átta ár og flutti síðan alkomin heim árið 2008 eftir rannsóknardvöl við Columbia-háskóla í New York.“

Kristín hefur gegnt starfi lektors við HÍ í fjögur ár en hafði áður verið stundakennari þar meðfram öðrum störfum, m.a. sem svæðisstjóri fyrir Japan hjá CCP. „Japanska er mjög vinsæl á Íslandi, eins og víða annars staðar, og er meðal þeirra erlendu tungumála við Háskólann, sem flestir nemendur leggja stund á. Ég kenni ekki tungumálið sjálft, við erum með japanska kennara sem sjá um það. Kennslan mín snýst aðallega um japanska sögu og samfélag.

Ég hef brennandi áhuga á starfinu og ver miklum tíma í það, við kennslu, rannsóknir og alþjóðlegt samstarf, sérstaklega við fræðimenn í Japan og á Norðurlöndunum. Þegar ég var yngri var ég á kafi í íþróttum og var í myndlistarskóla, en fjölskyldan og vinnan hefur forgang núna. Ég reyni samt alltaf að finna tíma fyrir útivist, enda fátt betra en að komast í fjallgöngur og á skíði.“

Fjölskylda Eiginmaður Kristínar er Sigurður Magni Benediktsson, f. 1971, verkfræðingur. Synir þeirra eru Ingvar, f. 2009 og Haukur Daði, f. 2012. Foreldrar Kristínar eru hjónin Ingvar Rögnvaldsson, f. 1950, fv. vararíkisskattstjóri og Auður Hauksdóttir, f. 1950, prófessor emerita. Þau eru búsett í Hafnarfirði.