Samvinna Hjónin Ármann og Bjarnveig Jónsdóttir og Helgi sonur þeirra við færibandið með nýjar kartöflur.
Samvinna Hjónin Ármann og Bjarnveig Jónsdóttir og Helgi sonur þeirra við færibandið með nýjar kartöflur. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Uppskerutíðin er hafin á Suðurlandi. Annir eru og langur vinnudagur hjá búandfólki og nú þarf að ná feng sumarsins í hús. Fólk er líka yfirleitt sátt við útkomuna. Vel hafi ræst úr öllu og gróskan verið mikil þegar leið á sumarið, eftir kulda og þrálátt votviðri í maí og júní

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Uppskerutíðin er hafin á Suðurlandi. Annir eru og langur vinnudagur hjá búandfólki og nú þarf að ná feng sumarsins í hús. Fólk er líka yfirleitt sátt við útkomuna. Vel hafi ræst úr öllu og gróskan verið mikil þegar leið á sumarið, eftir kulda og þrálátt votviðri í maí og júní. „Sprettan hefur verið mikil og góð nú á síðari hluta sumars og engu er líkara en slíkt sé endurgreiðsla frá veðurguðunum fyrir rigningarnar í vor,“ segir Ármann Ólafsson kartöflubóndi í Vesturholtum í Þykkvabæ.

Tólf bændur stunda ræktun

Þykkvibær í Rangárþingi ytra er helsta kartöfluræktarsvæði landsins. Alls stunda tólf bændur þar í sveit slíka ræktun og umsvif sumra þeirra eru mikil. Ármann í Vesturholtum er með ræktun á alls 46 hekturum. Þennan búskap stundar hann með Bjarnveigu Jónsdóttur konu sinni og sonum þeirra tveimur, Helga og Birki.

„Strákarnir eru orðnir bændur hér í sveit, hvor með sína jörðina, en ræktun hér í Vesturholtum er samvinnuverkefni okkar. Við byrjuðum að taka upp hinn 15. júlí, það er kartöflur sem voru undir plastdúk. Þetta var mjög óverulegt magn en dugði til þess að búðirnar fengju nýjar kartöflur eins og alltaf er kallað eftir. Svo má segja að síðan í júlí höfum við tekið upp eitthvað af kartöflum flesta daga vikunnar,“ segir Ármann. „Enn hefur ekki komið næturfrost og sprettan heldur áfram. Núna erum við raunar byrjuð að slá grösin í görðunum, sem bæði er ætlað að draga úr sprettu og styrkja kartöflurnar betur til geymslu.“

Kartöflugarðarnir í Vesturholti eru skammt fyrir ofan byggðina þar. Þar ekur Ármann dráttarvél hverja ferðina eftir aðra um garðana með upptökuvél. Sú tekur upp úr moldinni kartöflurnar sem renna í gegn á færibandi og rúlla ofan í stóra sekki. Þeir pokar eru svo hífðir af vélinni yfir á flatvagn og ekið í geymslu.

Ragað og flokkað

„Við erum að raga í kartöflum og flokka allan veturinn. Þetta er heilmikið stúss en þetta starf er miklu auðveldara en var. Áður þurfti hóp fólks á upptökuvélarnar, sem nú eru orðnar mjög fullkomnar svo þar þarf ekki nema einn eða tvo í áhöfn,“ segir Ármann, sem verið hefur kartöflubóndi í 53 ár.