Rannsakandinn Terje Thorsnes, haffræðingur við Norsku landfræðirannsóknarstofnunina NGU, kveður gasleka úr hafsbotni mun algengari en fræðimenn töldu fyrir tíu til tólf árum. Þar sé náttúruleg mengun olíu og gass.
Rannsakandinn Terje Thorsnes, haffræðingur við Norsku landfræðirannsóknarstofnunina NGU, kveður gasleka úr hafsbotni mun algengari en fræðimenn töldu fyrir tíu til tólf árum. Þar sé náttúruleg mengun olíu og gass.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Atli Steinn Guðmundsson atlisteinn@mbl.is Ég hef aldrei lesið greinar sem fjalla um svo háar gas-súlur. Þúsund metra háar súlur teljast verulega háar. Við erum 95 prósent sannfærð um að hér sé komin hæsta náttúrulega gas-súla heims.“

Sviðsljós

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Ég hef aldrei lesið greinar sem fjalla um svo háar gas-súlur. Þúsund metra háar súlur teljast verulega háar. Við erum 95 prósent sannfærð um að hér sé komin hæsta náttúrulega gas-súla heims.“

Þetta hefur norska ríkisútvarpið NRK eftir Terje Thorsnes, yfirrannsakanda og haffræðingi við Norsku landfræðirannsóknarstofnunina NGU, og vísar hann þar til uppgötvunar rannsakenda þar í Mollo-djúpinu vestur af Svalbarða.

Algengari en talið var

Þar leynist gasuppstreymi á um það bil 3.900 metra dýpi og myndar gas-súlu svokallaða sem er sú hæsta sem fundist hefur í víðri veröld, um það bil 3.355 metrar. Hafsbotninn er hriplekur eins og NRK orðar það, gasið streymir stöðugt upp í gegnum hann úr lindum langt undir botninum.

Að sögn Thorsnes eru slíkir gaslekar mun algengari en fræðimenn töldu fyrir aðeins tíu til tólf árum og finnast, svo dæmi sé tekið, allvíða um Barentshafið. Greinir hann frá því að súlurnar komi gjarnan fram sem svokallaðir „kyndlar“, aðgreinanlegir og flokkunarhæfir.

Í tengslum við Mareano-áætlunina svokölluðu, verkefni sem snýr að kortlagningu hafsbotnsins umhverfis Noreg, hafa rúmlega 5.000 gasuppstreymissvæði verið kortlögð í Barentshafi, Noregshafi og á landgrunninu úti fyrir Mið-Noregi sem svæðið kallast er markar miðhluta þeirrar lengju sem Noregur er frá norðri til suðurs.

Meðal þeirra lofttegunda sem geta sloppið út í andrúmsloftið frá gas-súlunum er metan en auk þess geta súlurnar veitt vísbendingar um hættu á skriðuföllum á hafsbotni. Fyrrnefnda atriðið, metangasið, getur að sögn Thorsnes aukið magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu og skapað þar það sem hann kallar náttúrulega mengun.

Þurfum að lifa með

„Í Hopen-dýpinu í Barentshafi hafa Olíumálastofnun og Háskólinn í Tromsø sýnt fram á þunna olíuslikju sem sést á yfirborði sjávar,“ segir Thorsnes, „þar er því á ferð olía sem fer í sjóinn af náttúrulegum orsökum og við gerum ráð fyrir að hafi neikvæð áhrif.“

Thorsnes útskýrir að drifkrafturinn á bak við þessa náttúrulegu losun séu bergtegundir sem flytja með sér kolefni og norski olíuiðnaðurinn nýti sér raunar sömu flutningsleið við vinnslu olíu og gass úr hafsbotninum.

„Þetta er bara eitthvað sem við þurfum að lifa með, hefur staðið yfir í milljónir ára og mun standa yfir um milljónir ára til viðbótar,“ segir hann við NRK. Áður hafi vísindamenn ekki haft á því trú að hafsbotninn tæki breytingum en nú sé öldin önnur og ljóst að þar eiga sér stað sífelldar breytingar.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson