Reykjaréttir Féð í gerði er dregið í dilka og oft er atgangur mikill.
Reykjaréttir Féð í gerði er dregið í dilka og oft er atgangur mikill. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Fólk í sveitum landsins er margt nú farið á afrétt, í göngur og fjallferðir. Ferðir þessar eru einna lengstar á Suðurlandi, þá er farið frá efstu bæjum í uppsveitum Árnessýslu og alveg inn að jöklum

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Fólk í sveitum landsins er margt nú farið á afrétt, í göngur og fjallferðir. Ferðir þessar eru einna lengstar á Suðurlandi, þá er farið frá efstu bæjum í uppsveitum Árnessýslu og alveg inn að jöklum. Lagt var upp fyrir eða um helgina og komið verður aftur til byggða með fjársafnið í vikulokin.

Hrunaréttir í Hrunamannahreppi eru næstkomandi föstudag, 8. september, og Skaftholtsréttir í Gnúpverjahreppi sama dag. Tungnaréttir í Biskupstungum eru á laugardag, 9. september, og Reykjaréttir á Skeiðum sömuleiðis. Þekkt er að í þessum réttum á Suðurlandi er jafnan margmennt, með vinafundum, gleði og víða verður tekið lagið, til dæmis í kjötsúpuboðum á bæjum.

Sé litið til annarra landsvæða þá verður réttað við Fljótstungu á Hvítársíðu nk. laugardag og aftur á sunnudag. Þverárrétt í Þverárhlíð í Borgarfirði er sunnudaginn 17. september og Skarðsrétt á Skarðsströnd í Dölum sama dag. Tvískipt Undirfellsrétt í Vatnsdal í A-Húnavatnssýslu er 8. og 9. september og síðarnefnda daginn er Hrútatungurétt í Hrútafirði og Hlíðarrétt í Mývatnssveit. Listinn er mun lengri, stundum eru réttir aðeins fyrir örfáa bæi en í öðrum tilvikum eru undir afréttir heilla sveita.