Sveinn Sigurjónsson fæddist á heimili sínu Galtalæk í Landsveit 1. október 1947. Hann lést á Dvalar- og hjúkrunarheimili aldraða, Kirkjuhvoli á Hvolsvelli, þann 25. ágúst 2023.

Foreldrar Sveins voru Sigurjón Pálsson, f. 09.09.1911, d. 30.03.1997, og Sigríður Sveinsdóttir, f. 24.01.1914, d. 20.3.2005. þau voru bændur á Galtalæk.

Sveinn var þriðji elstur í hópi 8 systkina. Á uppvaxtarárum gekk Sveinn í skóla á Hellum og Laugalandsskóla. Hann stundaði nám við Bændaskólann á Hvanneyri og útskrifaðist sem búfræðingur árið 1967. Hann kláraði vinnuvéla- og meiraprófið, vann mikið á vélum, meðal annars í Búrfellsvirkjun, Sigölduvirkjun og við alls kyns verkefni í sveitinni. Hestfoss í Þjórsá væri ekki í þeirri mynd sem hann er í dag ef Sveinn hefði ekki mótað hann ungur að árum. Einnig bjó hann til foss í Galtalæknum sem heitir Steinboginn. Sveinn fór á sjó frá Grindavík í nokkur ár og á haustin vann hann í Sláturhúsi Suðurlands sem fláningarmaður. Árið 1976 kvæntist hann Sigurbjörgu Elimarsdóttur og ári seinna byggðu þau sér einbýlishús og fékk það heitið Galtalækur 2. Saman áttu þau 5 drengi, Elimar Helga, f. 1973, Pál, f. 1977, Sigurjón, f. 1979, Birni, f. 1984 og Víði, f. 1987. Sveinn vann í mörg ár í fiskeldisstöðinni í Fellsmúla og þau hjónin ráku ferðaþjónustu á bænum. Sveinn lét nú ekki þar við sitja heldur var hann líka með gröfur og vörubíla sem hann keyrði út og vann mikið fyrir sveitunga sína og Vegagerðina. Sveinn var alltaf með græna fingur og uppgræðslu og trjárækt á Galtalæk stundaði hann stíft alla ævi og plantaði nokkur þúsund stykkjum hvert einasta ár.

Útförin fer fram frá Selfosskirkju í dag, 4. september 2023, klukkan 15.

Pabbi var alltaf snöggur til og gerði hlutina vel. Hann hafði þann hæfileika að vera ekki eltast við hlutina í smáatriðum þar sem þeir skiptu ekki máli. Gleymi því seint að þegar var komið að matmálstímum og þegar var búið að leggja á borð og gera allt tilbúið þá var maður varla sestur við borðið þegar gamli lagði diskinn frá sér og sagði, takk fyrir mig. Þetta var svolítið lýsandi fyrir hans karakter. Hann var ekkert að drolla við hlutina heldur lét verkin tala. Ég var ekki orðinn 6 ára þegar ég var í girðingavinnu norður á heiði með pabba og bræðrum mínum, þegar hann skellir mér undir stýri, setur í lágadrifið og segir mér að keyra bara beint áfram. Á meðan traktorinn fór eflaust lúshægt, en í mínum augum var veröldin önnur. Þar sem ég tók pabba auðvitað á orðinu að keyra bara beint áfram, þá var ég nú ekki að spá í smá hengju fram undan heldur keyrði fram af henni. Gleymi seint svipnum á pabba þegar traktorinn var að hverfa niður brekkuna, því honum fannst þetta nú fulldjarft en stuttu seinna birtist traktorinn. Þegar hann spurði mig: af hverju stoppaðirðu ekki! var svarið mjög einfalt „náði ekki niður á kúplinguna“.

Þegar ég var að hjálpa pabba í fiskeldinu fyrir austan bæ þá var hópur af fólki að fara að taka seiði úr kerjunum. Ég var ekki mikið eldri en 7 ára þegar stór minkur birtist við kerin og uppi varð fótur og fit að reyna að ná kauða. Náðum að króa hann af, en þá stekkur hann upp og hleypur yfir mig í áttina að læknum, en pabbi náði honum svo með kústskafti og sú mynd af minknum er til uppi í sveit. Pabbi kemur svo að mér þar sem ég ligg ennþá á jörðinni alveg stífur því mér brá svo mikið og spyr hvort sé ekki í lagi með mig. Jú, það var það en þessu átti ég ekki von á, sagði ég.

Það var aldrei dauð stund í sveitinni og verkefnin voru aldrei búin. Hvert einasta ár á uppvaxtarárum mínum var eitthvað verkefni fyrir stafni. Byggt við húsið nokkrum sinnum og ekki talandi um öll viðbótarhúsin sem bættust við í seinni tíð.

Pabbi var alltaf styðjandi í því sem maður tók sér fyrir hendur og var mjög ánægður þegar ég tók á stefnuna á húsasmíði í lok grunnskóla.

Pabbi var alltaf mjög klár í vísnagerð og hnyttinn. Örugglega brot af því sem hann samdi sem komst í dagbækurnar hennar mömmu. Hann var alltaf að semja og skrifa á pínulitla miða. Oftast nær var hann samt að þylja upp vísur í kaffitímum eftir minni þegar hann kom inn. (baukasmíði og hnífasmíði). Pabbi átti sér samt mörg áhugamál utan þess að græða upp landið. Hann málaði mikið og fannst einstaklega gaman að því að mála inn á myndirnar alls konar fornaldarverur. Baukasmíði úr silfri og hornum fyrir neftóbak stundaði hann og var orðinn vel þekktur fyrir það. Það skipti engu máli hvað hann tók sér fyrir hendur eða þurfti að gera, hann reddaði því bara.

Kallinn kenndi okkur margt

kúnstir margar kunni

fór í hausa furðumargt

fimman sem hann unni.

Gæfa og góðvild fylgdi þér

gjafmildi þú gafst af vér

gangur lífsins tekur hér

góðan mann með sér.

Víðir Sveinsson.

Elsku pabbi minn, takk fyrir allar góðar stundir sem við höfum átt saman. Húmor var alltaf undirliggjandi í okkar sambandi og traustið milli okkar var mikið. Nú er komið að mjög erfiðri kveðjustund og mig langar að þakka þér fyrir samveruna í lífinu og allt sem þú hefur gert fyrir mig. Það sem einkenndi þig fyrst og fremst var umburðarlyndi, heiðarleiki og góðmennska. Þú varst alltaf til í að aðstoða vini og kunningja og hljópst til við hvert símtal sem barst. Þú áttir mjög erfitt með að sitja kyrr og gera ekki neitt, enda alltaf verið gríðarleg orka í þér. Þessi sjúkdómur sem þú fékkst í byrjun árs dró þig mikið niður, þér fór að líða mjög illa að geta ekki verið á fullu í að aðstoða fólk og sinna öllu sem þurfti að sinna í sveitinni, en aldrei kvartaðirðu. Þú varst bjartsýnn á það að komast aftur á Galtalæk til að geta unnið í nýju skemmunni og klárað öll þau verkefni sem voru búin að hrannast upp í veikindum þínum. Ég á eftir að sakna þess gríðarlega að geta ekki tekið upp símann og heyrt í þér hljóðið, enda voru símtölin ófá hjá okkur. Ég heyrði oft nokkrum sinnum á dag í þér, sérstaklega núna þetta síðasta ár, sem reyndist svo vera það síðasta með okkur öllum. Vísurnar sem þú hefur samið í gegnum tíðina má telja í þúsundum og alltaf var partur af símtölum og hittingum að hlusta á þær nýjustu sem voru hver annarri betri. Neftóbakið sem var alltaf úti um öll gólf heima, þú sagðir alltaf að þetta væri sandur en ekki tóbak og hafðir gaman af því að espa hana mömmu upp með sóðaskapnum sem gat fylgt þessu hjá þér. Hún var aldrei ánægð með þau þrif sem fylgdu því, en þú hafðir gaman af því að stríða henni örlítið. Þú varst alltaf til staðar og passaðir vel upp á mig í kringum veikindi hennar Elínar. Ég er gríðarlega þakklátur fyrir að hafa haft þig með mér í brúðkaupinu mínu og þakklátur fyrir að hafa ákveðið með stuttum fyrirvara að ganga í það heilaga, því ekki bjóst ég við að árið myndi byrja á svona fréttum um þig. Þú varst góður afi og krakkarnir héldu mikið upp á afa Svein, eins og Baldvin segir alltaf. Þið strákarnir voruð mikið í að knúsast og púsla þau ófáu skipti sem þú komst í mat þegar þú varst í geislameðferðinni í bænum. Þú varst vinur vina þinna, frábær pabbi og yndislegur afi. Minningarnar um þig mun ég ávallt varðveita í hjarta mínu og þér mun ég aldrei gleyma.

Ég er ekki þekktur fyrir að semja vísur, eins og þú veist, en ákvað að reyna þér til heiðurs.

Nú ertu á góðum stað

elsku besti pabbi.

Vona að hamingjan

sé á góðum stalli.

og hér er önnur vegna vegna mikils ofnæmis sem þú hafðir á vinstri grænum.

Það mikla vinstra græna hret

bullið og vitleysan kemur.

Sem getur ekki farið vel

eins og djöfullinn semur.

Hvíldu í friði, elsku pabbi,

þinn sonur,

Birnir Sveinsson.

Elsku tengdapabbi og afi.

Minningin um þig lifir áfram í hjörtum okkar, maðurinn með rauða tóbaksklútinn og stríðnisglampa í augum.

Frá því ég kynntist Sveini fyrst var hann svo léttur á sér, iðinn og alltaf með mörg járn í eldinum. Hvort sem það voru fallegu hlutirnir sem hann var að smíða, eins og tóbakshorn, silfursmíði og rennismíði, eða verkefni á vegum Landgræðslunnar, bústörfin og fiskeldið, það var nóg að gera hjá honum og aldrei sló hann slöku við. Hann hafði einhvern tímann orð á því að verkefnin væru endalaus og þau voru það. Hann hafði ekki endilega tíma til að sitja lengi og spjalla en hann var stoltur af jörðinni sinni og öllu því sem hann hafði afrekað og hafði alltaf tíma til að hjálpa til. Sveinn var fyrstur til að mæta þegar voru flutningar hjá okkur eða þegar byggja átti sumarhús. Þegar hann sagði okkur að hann væri byrjaður á nýju stöðuvatni hélt ég að hann væri að grínast. Það var sko ekki raunin, hann bjó sér til stórt stöðuvatn með eyjum og hólmum sem við hjónin og barnabörnin notum óspart til að róa á kajökum og bátum. Ekkert verkefni var of stórt fyrir hann, það var bara tíminn sem var naumur, og þegar hann greindist með krabbamein var hann staðráðinn í því að sigrast á því eins og hverju öðru verkefni. Fuglalífið blómstraði í kringum hann Svein og jafnt trén sem hann var óþreytandi við að setja niður.

Hann vissi nafnið á flestum plöntum, fuglum og hverri hraunnibbu í landi sínu. Hann samdi ljóð og vísur sem því miður voru ekki öll skrifuð niður. Stríðinn var hann og glettinn en alltaf ljúfur og góður. Barnabörnunum bauð hann úr bauknum sem þau auðvitað fussuðu yfir. Hann hafði afar sérstaka lund gagnvart kjúklingum og lenti stundum í heljarinnar rökræðum við barnabörn sín um ágæti þess matar, en hann hafði nú lúmskt gaman af því að hræra aðeins í krökkunum með það.

Afrek þín lifa þig og við munum ávallt minnast þín.

Þín tengdadóttir og barnabörn,

Anna Rósa, Ísar Máni, Aþena Rós, Adríana Dís og Atlas Eldur.

Elsku Sveinn.

Þegar ég kynntist honum Birni syni þínum fyrir rúmlega 13 árum tókstu mér opnum örmum ásamt allri fjölskyldunni ykkar. Það var gríðarlega erfitt að horfa upp á hvernig heilsu þinni hrakaði síðustu mánuðina en alltaf varstu staðráðinn í því að ná heilsu og komast aftur upp á Galtalæk. Ég veit að þú ert kominn á betri stað núna, laus við veikindin og með eitt tóbakshorn í hendi. Þú varst dásamlegur maður, stríðinn, handlaginn, húmoristi og vinstrisinnaður fram í fingurgóma. Það lýsir vel persónuleikanum þínum hvað þú varst einstaklega glaðlyndur, hjálpsamur og góður. Vildir alltaf hafa nóg að gera og nóg af verkefnum fyrir stafni. Við Birnir vörðum ófáum helgunum með ykkur uppi á Galtalæk og þá var alltaf mikið hlegið og mikið spilað. Ég gleymi því aldrei þegar þú varst svo tapsár að þú stóðst upp og raukst út á hlað af því hún Sigurbjörg setti út vitlaust spil, ég get hlegið að því enn þann dag í dag. Þið Birnir voruð líka duglegir að finna ykkur einhver verkefni þessar helgar og voruð mikið í að gera við og laga eða sinna þeim verkefnum sem átti eftir að sinna í sveitinni þann daginn. Þú varst yndislegur afi og alltaf til í að sýna krökkunum vinnuvélarnar þínar og fara með þau á rúntinn. Þau spenntust alltaf upp við að sjá stóru gröfurnar þínar og elskuðu að koma í sveitina og kíkja á ömmu og afa, enda alltaf tekið svo ótrúlega vel á móti okkur. Krökkunum leiddist heldur ekki að stríða afa sínum og knúsa, enda þið bæði miklir knúsarar. Við komum ófá skipti í heimsókn til þín á Hvolsvöll og þau höfðu jafn gaman af því að sjá þig eins og þú þau.

Ég ylja mér við allar góðu minningarnar sem við eigum um þig og væntumþykjuna sem þú hefur sýnt mér frá fyrsta degi.

Þó að kveðjustundin sé sár núna eru minningarnar hlýjar.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Blessuð sé minning þín.

Þín tengdadóttir,

Elín Rut Elíasdóttir.

Genginn er nú höfðinginn Sveinn frá Galtalæk. Alltof snemma hrifinn á brott. Kynni okkar af Sveini hófust fyrir 30 árum þegar við hófum undirbúning að byggingu á sumarhúsi í landi Litla-Klofa. Við fórum og fengum að renna fyrir fisk í vatninu, sem Sveinn hafði listilega útbúið í landi Galtalækjar. Móttökurnar sem við fengum hjá þessum sómahjónum, Sveini og Sigurbjörgu, voru dásamlegar og gáfu tóninn um það sem koma skyldi. Alla tíð hafa verið höfðinglegar móttökur á þeim bænum og þau hjónin komu sömuleiðis í margar skemmtilegar heimsóknir niður á Litla-Klofa. Sveinn var einstakur öðlingur og af þeirri tegund manna sem hafði djúpa þekkingu á svo ótalmörgu. Það var sama hvort rætt var um rafmagnsverkfræði, jarðfræði, hagfræði eða bara landsins gagn og nauðsynjar, aldrei var komið að tómum kofunum hjá Sveini og á sinn rólega hátt útskýrði hann það sem málið snerist um. Hann var mjög sposkur og alltaf stutt í glettni og með ógleymanlegt stríðnisblik í augunum. Sveinn var hagyrðingur af guðs náð og eftir hann liggja ótal kvæði og vísur og vald hans á íslenskri tungu var aðdáunarvert. Sveinn var líka hagur til handanna og frábær verkmaður og kom það okkur til góða í ýmsu sem þurfti að gera við jarðvinnu og vegalagningu í bústöðunum okkar í Litla-Klofa ásamt svo ótal mörgu öðru. Sveinn var einstaklega hjálpsamur og alltaf boðinn og búinn að aðstoða þegar þurfti eða eitthvað bjátaði á. Hans er sárt saknað og minning um góðan og einstakan dreng lifir. Elsku Sigurbjörg og fjölskylda, missir ykkar er mikill og við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Ómar, Guðný Ásgeir og Aðalheiður.

Það er skrýtið að hugsa til þess að vinur okkar og nágranni, Sveinn bóndi, sé farinn. Sveinn bóndi var og er einstakur í okkar huga. Mikill náttúruunnandi með græna fingur, sem elskaði að vera úti í móa að planta trjám og fylgjast með fuglalífinu. Sveinn bóndi var mikill áhugamaður um fugla og fuglalíf. Þekkti allar þær tegundir sem héldu til á hans landi en Sveinn hefur í gegnum fjölda ára unnið markvisst í því að skapa einstaka fuglaparadís við bæði Tangavatn og Skógarárlón, en það eru hvort tveggja falleg vötn sem hann gróf út og skapaði með þrotlausri vinnu og útsjónarsemi.

Maður kom aldrei að tómum kofunum hjá Sveini bónda. Hann var fróður maður sem hægt var að ræða við um nánast allt er tengdist mannlífi, þjóðmálum, skógrækt og auðvitað vegagerð. Þær eru orðnar ófáar stundirnar sem við hjónin höfum setið við matarborðið á Galtalæk II með þeim hjónum, þar sem landsmálin voru rædd í þaula og þau í raun leyst, þótt ekki hafi þær lausnir náð til ráðamanna. Við eigum eftir að sakna þessara stunda okkar og samtala.

Eitt af mörgu sem Sveinn hafði unun af var að yrkja vísur. Hann var mikill hagyrðingur og með ólíkindum hvað hann gat verið snöggur að skella fram stöku í takti við það sem var að gerast. Við skildum aldrei hvernig hann fór að þessu og hvernig hann man þær, jafnvel löngu seinna. Ein stakan er mér minnisstæð, en sú varð til í buggy-ferð sem við félagarnir fórum í saman. Sveinn steig út úr tryllitækinu, tók af sér hjálminn og kvað:

Nú hefur kjarkinn niðursett

nötrar eins og fis

skeiðaði yfir landið létt

ljúft á Polaris.

Við Sigurlaug erum þakklát fyrir að hafa kynnst Sveini bónda og Sigurbjörgu og átt með þeim þessar góðu stundir. Sveinn var mikill öðlingur og mun lifa áfram í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina.

Skúli K. og Sigurlaug.

Látinn er Sveinn Sigurjónsson eða Sveinn á Galtalæk eins og hann var ætíð kallaður af okkur sem unnum með honum að uppgræðslu og skógrækt síðustu áratugi. Þau Sigurbjörg kona hans voru frumkvöðlar í uppgræðslu og skógrækt á örfoka landi. Sveinn bjó yfir margs konar hæfileikum. Sveinn var laginn og útsjónarsamur verktaki, smiður, og kom að vegagerð og öðrum jarðvegsframkvæmdum fyrir ýmsa aðila. Hann hafði næmt auga fyrir náttúru landsins, eldvirkni, jarðfræði, lífríki og gróðurfari. Gott var að leita til hans ef upplýsingar vantaði um sögu lands, örnefni, landamerki eða eyðibýli, sér í lagi í Landsveit og afréttum. Sveinn þekkti sögu landeyðingar og uppgræðslu enda hafði hann lifað og hrærst á einu af verstu uppblásturssvæðum landsins og tekist að græða upp stór svæði, ekki síst með aðstoð lúpínunnar, sem hann þakkaði hversu vel hefði tekist að græða land og stöðva sandfokið. Sveinn bjó yfir fróðleik um menn og málefni langt aftur í tímann. Það voru ekki margir sem bjuggu yfir viðlíka þekkingu og hann. Sveinn var ræktunarmaður, hann ræktaði landið, stundaði fiskirækt, bæði uppeldi á seiðum í stöðinni á Galtalæk II og víðar. Hann bjó sér til stöðuvötn á landi sínu þar sem hann ól upp fiskistofna og seldi veiðileyfi. Sveinn var bóngóður og lausnamiðaður og leituðu margir til hans um aðstoð ef eitthvað bilaði og yfirleitt fann Sveinn lausn á vandamálinu.

Við fjölskyldan kynntumst þeim hjónum upp úr aldamótum bæði í gegnum skógræktarfélag Rangæinga og í undirbúningsvinnu við Hekluskógaverkefnið. Sveinn var fenginn til liðs við verkefnishóp um Hekluskóga og starfaði með honum um árabil. Þau Sigurbjörg tóku að sér að sjá um dreifingarstöð fyrir birkiplöntur Hekluskóga og unnu mikið starf af hugsjón og elju. Þau unnu mun meira starf en þau fengu greitt fyrir, en töldu það ekki eftir sér. Voru vakin og sofin að afgreiða plöntur til verktaka, sjálfboðaliðahópa og landeigenda á Hekluskógasvæðinu. Þau tóku á móti hópum og einstaklingum og leiðbeindu. Það þótti ekki tiltökumál að vaka frameftir ef einhverjir voru seinir fyrir. Þeirra framlag til Hekluskóga er ómetanlegt og birtist í blómlegum skógum sem vaxa nú víða um Rangárvelli og Landsveit, þar sem áður var örfoka land. Það voru góðar stundir að koma í kaffi til Sveins og Sigurbjargar í Galtalæk II og var þar vel veitt bæði af kaffi, bakkelsi og neftóbaki. Var þar oft gestkvæmt. Þar var farið yfir heimsmálin, uppgræðslu og árangur. Las Sveinn gjarnan nokkrar vísur upp í hverri heimsókn, bæði pólitískar og um náttúru landsins. Síðust mánuðir voru Sveini erfiðir vegna veikinda, en hugurinn var enn styrkur og okkar síðustu samtöl snerust um uppgræðslu lands og að sá trjágróðri í uppgræðslusvæðin.

Við sendum Sigurbjörgu og fjölskyldu Sveins innilegar samúðarkveðjur.

Hreinn, Guðbjörg og börn.

Fífilbrekka, gróin grund,

grösug hlíð með berjalautum,

flóatetur, fífusund,

fífilbrekka, smáragrund,

yður hjá ég alla stund

uni best í sæld og þrautum,

fífilbrekka, gróin grund,

grösug hlíð með berjalautum.

(JH)

Haustið er á næsta leiti. Gróður sölnar og farfuglarnir huga að brottför einn af öðrum. Þá kveður vinur okkar Sveinn á Galtalæk og leggur sjálfur af stað í langferð. Það fer vel á því, enda maður vorsins, ljóssins og gróandans.

Það reyndist okkur hjónunum og dætrum einstakt happ, þegar við fyrir nær tveimur áratugum hófum að byggja upp á þeim stað sem við seinna kölluðum að Hrauni á Landi, að kynnast þeim sómahjónum, nágrönnum okkar Sveini og Sigurbjörgu á Galtalæk. Með okkur tókst vinátta sem varði þar til yfir lauk og við nutum hjálpsemi og greiðvikni þeirra í stóru sem smáu. Sveinn var einhver náttúrulæsasti maður sem við höfum kynnst. Það var sama hvort það snerist um fuglalíf, gróður eða skýjafar á Heklu. Hann var fæddur á þessari torfu, Galtalæk, og helgaði henni líf sitt. Gjörþekkti landið. Í skógrækt og uppgræðslu verðugur arftaki þess stórhuga fólks sem í upphafi síðustu aldar bjargaði Landsveitinni frá því að falla í auðn vegna sandfoks og uppblásturs. Hann reyndist okkur ómetanlegur, hvort sem var í orði eða verki, við að græða landið okkar. Allt stóðst sem hann sagði í því sambandi, svo sem hvaða plöntur mundu þrífast, við hvaða aðstæður o.s.frv. Dýrmætar voru líka stundirnar í eldhúsinu á Galtalæk þar sem boðið var upp á kaffi, bakkelsi, neftóbak og rökræður um þjóðmálin og mannlífið sjálft.

En allt hefur sinn tíma. Á liðnum vetri vitjaði hans vágestur sá sem nú hefur haft betur. Maðurinn með ljáinn linaði svo þrautir þessa athafnasama og verkglaða manns sem dæmdur hafði verið til þess að sitja með hendur í skauti og sviptur flestum lífsgæðum. Þeir hafa reynst honum vel á lokasprettinum drengirnir þeirra Sigurbjargar. Af engum var hann stoltari en þeim, þeirra afkomendum og fólki. Ekki það að hann hreykti sér nokkurn tíma, en það sást í augunum hans.

Á kveðjustund er okkur efst í huga þakklæti fyrir samfylgd sem skilur okkur eftir ríkari en en ella. Hugurinn er hjá Sigurbjörgu og fjölskyldunni allri. Gleymum því samt ekki að það vorar á ný. Í dýrðarsöng lóunnar, tísti maríuerlunnar og spóa að vella graut mun Sveinn birtast okkur. Og í austri mun Hekla enn á ný taka feimnislega ofan skýjahuluna til heiðurs þessum vini sínum sem þekkti hana og dynti hennar öðrum betur. Blessuð sé minning Sveins Sigurjónssonar.

Margrét Reynisdóttir og Karl Axelsson.

Kveðja úr hinum bænum.

Þegar við létum drauminn um að eignast skógræktarjörð rætast grunaði okkur ekki að í kaupbæti myndu fylgja heimsins bestu nágrannar. Nágrannar sem síðan á undraskjótan hátt urðu kærir og góðir vinir. Það voru auðvitað heiðurshjónin Sveinn og Sigurbjörg, sem samstundis tóku okkur upp á sína arma. Það leið varla sveitaferð öðruvísi en að kíkt væri í kaffi og spjall og stundum dugði ekki eitt kaffispjall sama daginn.

Sveinn var fróður og víðlesinn og gat sagt sögur um allt á milli himins og jarðar. Hann var óþreytandi að miðla fróðleik um sveitina og Galtalækjarjarðirnar. Til hans var líka mjög gott að leita með ýmsar spurningar sem lutu að vélavinnu, uppgræðslu, skógrækt og öðru sem upp kom í amstri dagsins, enda lék allt í höndunum á honum. Sveinn var sannkallaður öðlingur sem alltaf var boðinn og búinn að hjálpa náunganum.

Okkur líður eins og þessi stuttu kynni hafi í raun verið miklu lengri og Sveinn skilur eftir sig stórt skarð í sveitinni og í hjörtum þeirra sem hann þekktu.

Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Sveini. Lífið í sveitinni verður ekki samt.

Vottum Sigurbjörgu, sonum þeirra hjóna og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð, minning um góðan mann lifir.

Kári Steinar og
Ragnheiður, Galtalæk.