Maður fannst látinn í hlíðum Hagárdals innarlega í Eyjafirði á laugardagskvöldið samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Mun maðurinn hafa verið að smala fé en björgunarsveitir voru kallaðar út klukkan 15 þegar fréttir bárust af því að hann hefði slasast

Maður fannst látinn í hlíðum Hagárdals innarlega í Eyjafirði á laugardagskvöldið samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Mun maðurinn hafa verið að smala fé en björgunarsveitir voru kallaðar út klukkan 15 þegar fréttir bárust af því að hann hefði slasast.

Erfiðlega gekk að komast til mannsins og ekki var hægt að notast við þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem komin var norður, vegna misvinda í dalnum og mikils uppstreymis.

Þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn seint um kvöldið var maðurinn látinn. Tók þá við flókin fjallabjörgunaraðgerð sem krafðist aðstoðar björgunarsveita úr Skagafirði og Þingeyjarsýslu og var hinn látni fluttur niður bratta hlíð um 500 metra og borinn tæplega þrjá kílómetra niður dalinn.