Helgi Laxdal
Helgi Laxdal
Öll þurfum við að sofna sátt að kvöldi og hafa eitthvað sem við hlökkum til að takast á við að morgni, í stað þess að kvíða morgundeginum.

Helgi Laxdal

Fyrir nokkrum árum var töluverð umræða um vöntun á fagfólki til starfa í fangelsum landsins. Oftast voru sálfræðingar nefndir til sögunnar og síðan líklega félagsfræðingar og fleiri sérfræðingar með háskólagráður. Í framhaldinu var rætt við fangelsisprest að mig minnir starfandi við fangelsið á Hólmsheiði og hann inntur eftir því hvort vandinn væri ekki mikill í fangelsunum ef allt þetta fagfólk vantaði til starfa.

Hann kvað svo vera en þegar allt kæmi til alls þá vantaði fyrst og fremst vel gert fólk til starfa, fólk sem væri tilbúið að tala við fangana og hlusta, þar lægi brýnasta þörfin, fangarnir hefðu líkt og allir aðrir ríka þörf fyrir að segja sögu sína, ekki bara einhverjum heldur manneskju sem væri tilbúin að hlusta af athygli án þess að grípa fram í eða vera með dóma um líf þeirra, vera bara það sem kallað er góður hlustandi.

Það eiga fleiri erfitt en fangar

Síðan hélt hann áfram og sagði: Það eru ekki bara fangarnir sem búið er að dæma úr leik í okkar samfélagi, það eru svo fjölmargir aðrir sem svipað er ástatt um. Tökum til dæmis allt unga fólkið í dag sem vantar tilhlökkun til morgundagsins, hefur flosnað upp úr skóla er jafnvel komið í eiturlyf. Þetta fólk vantar allt einhvern til þess að segja sína sögu, einhvern sem er bara tilbúinn að hlusta án þess að dæma eða vera með aðfinnslur af nokkru tagi. Það vantar einfaldlega góðan hlustanda, líkan því sem amman og afinn voru á tímum stórfjölskyldunnar.

Þegar mamman og pabbinn voru búin að vinna langan vinnudag og höfðu hvorki tíma né þrek til þess að hlusta á börnin sín þá var það hlutverk ömmunnar og afans að gera það. Þau höfðu bæði eigin reynslu og þolinmæðina til þess að hlusta á vandamál unglinganna, oft á tíðum vandamál sem þau höfðu sjálf glímt við í eigin uppvexti og þekktu allar hliðar þeirra á eigin skinni. Gátu frekar en foreldrarnir sett sig í spor þeirra, sem leiddi til þess að unglingarnir opnuðu sig og trúðu ömmu og afa fyrir öllu því sem olli angri. Staðreyndin er að það eitt að geta talað við einhvern sem treyst er fyrir vandamálunum er hluti af lausninni og sá sem hlustar þarf ekki endilega að vera sálfræðingur, hann þarf fyrst og fremst að vera góð manneskja sem kann að hlusta og nær trúnaði þess sem á í vanda.

Heimurinn er fullur af gáfumönnum

Í dag lifum við í heimi sem er fullur af gáfumönnum, þ.e. einstaklingum sem eru með mörg próf frá virtum universitetum; einstaklingum sem búið er að segja að það eitt að vera með þetta eða hitt prófið muni opna leið að velgengni og frama.

Staðreyndin er að við erum með marga sérfræðinga með hina ýmsu bevísa á gráður af öllum stærðum og gerðum en því miður stundum einstaklinga sem rísa ekki alveg undir þeim væntingum sem til þeirra eru gerðar. Stundum var viðkomandi ýtt í nám sem hann hafði engan áhuga á af því að einhver nákominn hafði stundað það og náð árangri í starfi en hvorki námið né starfið lá innan hans áhugasviðs.

Af hafa gaman í vinnunni

Mín skoðun, og sennilega margra annarra, er einfaldlega sú að það nái enginn árangri í starfi nema hafa brennandi áhuga á viðfangsefninu. Gott dæmi eru aflasælir skipstjórar. Hugarheimur þeirra flestra náði varla annað en til veiðanna en á þeim vettvangi kom þeim fátt á óvart, voru svokölluð fagidjót.

Sagt er að Binni í Gröf, sá mikli aflamaður, hafi alltaf vitað hvar hann var staddur á sjó á miðunum við suðurströndina ef hann hafði landsýn og vissi hvert dýpið var. Hann stúderaði þessi mið og vissi nákvæmlega að ef þorskgangan var þarna klukkan þetta á þessum degi á vorin þegar þorskurinn var að ganga inn á grynningarnar þá yrði hann nákvæmlega þarna á sama tíma daginn eftir. Þetta var fyrir daga allra tækjanna sem eru að gera skipstjórnina að leiðinlegri rútínu þar sem tækin ráða meiru en frjór hugur alvörufiskimanns sem lifir í heimi veiðanna bæði í vöku og svefni, annars náðist ekki árangur að nokkru marki. Í dag er liðinn tími afburðamannanna sem urðu miklir fiskimenn vegna árvekni og þekkingar á lífríkinu þar sem m.a. hegðun sjófuglanna skipti miklu máli.

Veröld sérfræðinnar

Í dag lifum við á tímum sérfræðinganna sem leitað er til af öllu tilefni. Fyrir nokkru var leitað til Sigurðar Líndal um álit á öllu mögulegu, jafnvel ef fugl flaug um himininn af engu tilefni að mati einhverra. Í dag er það Eiríkur Bergmann sem upplýsir okkur um breyskleika mannsins á hinu pólitíska sviði ásamt væntanlegri hegðun þeirra sem hafa innvols af því tagi.

Svo langt erum við komin frá sjálfstæðu mati á sjálfum okkur og umhverfinu að við þurfum jarðeðlisfræðing, helst með doktorsgráðu, til að segja okkur hvort enn gjósi við Litla-Hrút, þótt fátt í þessum heimi sé einfaldara þeim sem hafa bæði sjón og talanda í lagi en að sjá og meta hvort enn bulli upp kvika úr iðrum jarðar. Nei, það verður að vera a.m.k. doktor sem kunngerir tíðindi af því tagi.

Höfundur er vélfræðingur og fyrrverandi yfirvélstjóri.