Tryggvi Kristjánsson fæddist 31. mars 1931 á bænum Kirkjubæ í Skutulsfirði. Hann lést 24. ágúst 2023. Foreldrar Tryggva voru hjónin Kristján Söebeck Jónsson, f. 28. mars 1906, d. 22. ágúst 1975, og Sigríður Ingibjörg Tryggvadóttir, f. 23. sept. 1900, d. 16. desember 1942.

Alsystkin Tryggva eru Sigurður Steinþór Kristjánsson Söebeck, f. 1927, d. 1997, Kári Söebeck Kristjánson, f. 1928, d. 2013, Kristjana Kristjánsdóttir, f. 1929, d. 2016.

Samfeðra systkin, börn Kristjáns Söebeck Jónssonar og Kristjönu Ágústsdóttur, f. 1920, d. 2004:

Einar Valur, f. 1934, d. 1996, Sigríður Ingibjörg, f. 1943, Guðrún Ágústa, f. 1947, Þröstur, f. 1949, Rakel, f. 1951, Arnfríður, f. 1954, Kristján, f. 1955, Valgerður, f. 1958, Kolbrún, f. 1965, og Ásdís, f. 1967. Eftirlifandi eiginkona Tryggva er Guðrún Bryndís Eggertsdóttir, f. 1932.

Börn þeirra eru Auður, f. 1953, d. 2019, Sigríður, f. 1957 og Tryggvi, f. 1963.

Barnabörnin eru átta og barnabarnabörnin 13.

Tryggvi ólst upp á bænum Kirkjubæ í Skutulsfirði. Fluttist ungur til Reykjavíkur og fór síðan í Garðyrkjuskólann Hveragerði.

Síðan lá leið hans til Noregs þar sem hann stundaði frekara nám í garðyrkju við Tomb Jordbruksskole. Fluttist síðan heim og vann við ýmislegt næstu árin. Einkum við stjórn vinnuvéla svo sem a Keflavikurflugvelli og BM Vallá.

Árið 1972 stofnaði Tryggvi kranafyrirtækið Lyftir ásamt fleirum og vann við það til starfsloka.

Útför Tryggva fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 4. september 2023, kl. 13.

Elsku pabbi, það er tómlegt að koma í Fannafoldina eftir að þú kvaddir.

En ég ég veit að þú ert hvíldinni feginn. Þú varst orðinn þreyttur á kraftleysinu og svimanum sem hrjáðu þig síðustu mánuði. Og ég skil það vel. Þú varst maður framkvæmda og vildir alltaf vera að. Og það átti illa við þig að sitja aðgerðalaus. Þú talaðir um að þetta væri komið gott. En þrátt fyrir háan aldur er alltaf erfitt þegar kveðjustundin kemur.

Það var margt sem þú kenndir mér en eitt af því mikilvægasta sem þú kenndir mér var að gefast aldrei upp og að hafa trú á sjálfri mér. Þú hafðir alltaf trú á mér og það hefur reynst mér vel í lífinu.

Ég var mjög ung þegar þú kenndir mér að segja að ég væri að „vestan“. Ég skildi þá ekkert hvað það þýddi en skynjaði að það væri gott og duglegt fólk sem kæmi að vestan.

Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir að þú skyldir kenna mér á skíði því lengi býr að fyrstu gerð. Og þakklát fyrir allar skíðaferðirnar sem við fórum í saman. Í Jósepsdalinn, Bláfjöllin, til Akureyrar, Austurríkis og Ítalíu. Sem varð til þess að ég kenndi mínum börnum á skíði og núna barnabörnum.

Og þú hafðir óbilandi áhuga á golfi. Allar samræðurnar sem við áttum um golfið í eldhúskróknum heima í Fannafoldinni. Þú varst alltaf áhugasamur um hvernig golfið gengi hjá mér. Og stuttu áður en þú kvaddir lánaðir þú mér golfkylfu sem þú sagðir mér að prófa en ég náði því ekki áður en þú kvaddir.

Elsku pabbi, um leið og ég kveð þig þakka ég þér fyrir allar góðu samverustundirnar og fallegu minningarnar okkar. Ég vil líka þakka þér fyrir allar dýrmætu samverustundirnar með börunum mínum. Þær eru þeim og mér mjög dýrmætar. Takk fyrir allan stuðninginn og hvatninguna.

Sakna þín, Sirrý (að vestan)

Sigríður Tryggvadóttir.

Í dag kveð ég pabba minn, eftir öll þau góðu ár sem við áttum saman. Margs er að minnast og fallegar minningar koma upp í hugann.

Pabbi fæddist á Kirkjubæ við Skutulsfjörð og ólst þar upp fyrstu árin. Hann missti móður sína ungur að árum og fór snemma að heiman út í lífið. Hann þurfti að læra að bjarga sér og tileinkaði sér snemma sjálfsbjargarviðleitni og dugnað. Hann var sjálfstæður og lausnamiðaður í hverju sem hann tók sér fyrir hendur. Að alast upp við kröpp kjör kenndi föður mínum margt. Að gefast upp var ekki til í hans orðabók.

Pabbi vann ýmis störf eftir að hann útskrifaðist úr Garðyrkjuskólanum Hveragerði. Um miðjan aldur stofnaði hann fyrirtækið Lyftir hf. ásamt öðrum og byggði upp af elju og dugnaði. Langur var vinnudagurinn á þeim árum og þótti ekki tiltölumál að vinna um kvöld og helgar. Hann hugsaði vel um fyrirtækið og starfrækti það af ástríðu. Það var honum mikilvægt að hafa vinnuvélarnar í góðu ástandi og viðskiptavinina ánægða. Hreinlæti og snyrtimennska voru honum í blóð borin. Hann starfrækti fyrirtækið fram að starfslokum og varð ég þess heiðurs aðnjótandi að starfa með honum síðustu starfsárin hans.

Pabbi var mikill fjölskyldumaður og elskaði að fá fólkið sitt í heimsókn, börn og barnabörn. Við pabbi áttum góðar stundir í Fannafoldinni, spjölluðum mikið saman. Húmorinn var aldrei langt undan. Hann hafði sterkar skoðanir á hlutunum og lífið hafði kennt honum margt. Fátt var okkur óviðkomandi, og ræddum við helst efnahagsmál, stjórnmál og íþróttir. Pabbi var mikill sjálfstæðismaður og var annt um sjálfstæði þjóðarinnar. Honum var annt um frelsi einstaklinga til að njóta sín í leik og starfi. Hann hafði sterka réttlætiskennd og samúð með þeim sem áttu undir högg að sækja.

Pabbi hafði gaman af golfi og spiluðum við saman golf í mörg ár. Þær voru skemmtilegar golfferðirnar erlendis, þar sem hann gaf okkur yngri mönnunum ekkert eftir. Það voru honum mikil vonbrigði undir lokin að geta ekki spilað golf lengur vegna heilsuleysis. Einnig stunduðum við skíði saman en pabbi var mikill skíðamaður og skíðaði hann mikið fyrir vestan á yngri árum. Ófáar voru ferðirnar um helgar í Bláfjöll, Skálafell og einnig eru skíðaferðirnar með fjölskyldunni til Austurríkis og Ítalíu minnisstæðar. Við veiddum mikið saman og minnist ég veiðiferðanna sem fjölskyldan fór í saman í Stóru-Laxá og Hrútafjarðará til fjölda ára.

Fjölskyldan átti samastað í sumarbústaðnum í Kjósinni til fjölda ára. Þar ræktaði pabbi upp landið með gróðursetningu trjáa, sem varð öðrum hvatning. Breyttust berir melar í Norðurnesi í gróðursælt land á nokkrum árum.

Þrátt fyrir heilsubrest síðustu ár kveinkaði pabbi sér aldrei. Aðspurður hvernig hann hefði það svaraði hann alltaf: Ég hef það bara fínt! Hann fann hins vegar að hans tími var kominn og kvaddi okkur eins og hann óskaði, í faðmi fjölskyldunnar í Fannafoldinni.

Það er með sorg í hjarta sem ég kveð pabba. Söknuðurinn er mikill en góðar minningar lifa.

Tryggvi.

Elsku afi.

Ég er svo leið að kveðja þig en reyni að vera meira þakklát.

Þakklát fyrir að hafa átt besta afa sem hugsast getur. Þú hafðir meiri áhrif á mig en flestir og átt stóran þátt í því hvernig ég er.

Það er svo dýrmætt að eiga mikinn stuðningsmann. Alveg frá því ég var lítil þá einhvern veginn smullum við. Þú komst heim í Fannafoldina í hádeginu í heitan mat og við borðuðum aspassúpu sem amma gerði. Eftir mat fórum við undir borð í voffaleik og borðuðum snakk, og svo fórst þú aftur í vinnuna. Mér fannst það svo eðlilegt – við vinirnir. Þegar ég varð svo stærri þá fylgdist þú með öllu mínu og gafst mér góð ráð. Fannafoldin var alltaf eins og mitt annað heimili og það skipti mig svo miklu máli að standa mig fyrir þig, því þú spurðir alltaf hvernig mér gekk í öllu. Þú kenndir mér að vera dugleg.

Á þriðjudögum keyrðir þú mig í ballett í mörg ár og ég man, þegar ég var óðamála að segja þér eitthvað alla leiðina, hvernig þú varst að kenna mér að það væri gaman að segja frá en að það skipti líka máli að tala ekki hratt og kunna sig, eitthvað sem ég hef oft hugsað um. Ég get ekki talið upp allt okkar en allar skíðaferðirnar þar sem við vorum herbergisfélagar er ég þakklát fyrir. Göngurnar þar sem ég hjólaði og þú labbaðir Voginn. Sumarbústaðarferðirnar í Kjósina og bátasmíðin. Þegar þú dróst mig í kassanum pínulitla. Þegar ég gisti í Fannafoldinni og þú hélst í höndina mína þar til ég sofnaði. Öll rommíin (meira að segja gerðir þú undantekningu fyrir mig og spilaðir í mánuði sem innihélt ekki r). Hvað þú passaðir upp á að ég drykki ekki of sterkt og of mikið kaffi þegar ég var að lesa hjá þér í tannlæknadeild. Öll púrtvínsskálin í desember. Allur tíminn sem þú gafst mér. Ég átti besta afa í heimi og þó ég hafi vitað að einhvern tímann myndi ég líklega þurfa að setjast niður og minnast þín þá finnst mér svo erfitt að þessum kafla lífsins sé lokið, að fá að vera stelpan hans afa.

Þú sagðir mér það samt að þetta væri komið gott, þú værir ungur í höfðinu en í gömlum líkama sem væri hættur að gegna þér. Og ég er svo glöð að hafa sagt þér hvað þú skiptir mig miklu máli, hvað mér þótti vænt um þig og að enginn kemur í þinn stað.

Við sjáumstum elsku afi.

Þín

Hafdís.

Elsku besti afi Diddi.

Ég er svo þakklát að hafa átt afa og vin eins og þig. Maðurinn duglegi, með fína garðinn og flotta golfbílinn, það var afi minn. Þú varst ótrúlegur afi, lést ekkert fram hjá þér fara, gafst mér góð ráð og vissir alltaf hvað var að gerast hjá mér í útlöndum. Ég á svo margar minningar með þér en mér er efst í huga þegar þú sóttir mig svo oft í skólann þrátt fyrir að ég ætti að labba til þín, og við stoppuðum í Hagkaup og keyptum hjúplakkrís og tókum með í Kjósina. Við áttum svo góðar stundir í Kjósinni þegar við ræktuðum kartöflur, smíðuðum báta og toppurinn á tilverunni var þegar þú keyrðir mig um í hjólbörum eða spilaðir við mig krikket. Þú varst dugnaðarforkur og kenndir manni svo vel að gefast aldrei upp. Mér fannst svo gaman þegar þú sagðir mér sögur síðan þú varst lítill og frá tímunum í Noregi. Rétt áður en þú kvaddir áttum við svo gott spjall um Hamar í Noregi og þú sagðir mér að þar væri frábært að búa, mikið vildi ég að ég gæti hringt í þig frá Hamar núna og sagt þér sögur frá bænum. Í staðinn ætla ég að fara í næsta bæjarfélag (Gjovik) þar sem þú bjóst og fá mér kaffibolla og brúna tertu með Vidda mínum og þú verður með okkur í anda.

Takk fyrir öll ráðin í gegnum lífið, fyrir að gefa mér meiri sykur á kornflexið en amma, fyrir að hlæja að ómerkilegum bröndurum sem ég sagði þér í símann, fyrir afmælisferðirnar til Kanarí, fyrir allar stundirnar í Fannafoldinni og fyrir að vera svona skemmtilegur og góður afi minn og langafi barnanna minna. Okkur öllum þykir ótrúlega vænt um þig og stundirnar með þér sem eru orðnar að minningum.

Ég, Viddi, Jakob og Heiða munum sakna afa tiktok og bakstursins frá þér í Fannafoldinni. Elska þig!

Þín afastelpa,

Arna Jónsdóttir.

Tryggvi Kristjánsson er fallinn frá 92 ára að aldri. Hann var giftur systur/mágkonu okkar, Guðrúnu B. Eggertsdóttur. Tryggvi var ættaður vestan af fjörðum, frá Kirkjubæ í Skutulsfirði.

Við sögðum oft að þaðan kæmi vestfirska þrautseigjan og þrjóskan sem entist honum allt lífið. Tryggvi lærði garðyrkju á Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi og fór einnig til Noregs þar sem hann vann við garðyrkju. Eftir að heim var komið fór hann að vinna við þungavinnuvélar og endaði í þeim „bransa“. Hann var mikið á kranabílum og eignaðist fyrirtækið Lyftir sem gekk vel og hann rak það þar til hann settist í helgan stein.

Tryggvi kom inn í fjölskylduna á sjötta áratugnum og voru kynnin því orðin löng og góð. Fyrstu árin okkar bjuggum við í nálægð við þau Gunnu og Tryggva í Vogahverfinu í Reykjavík og nutum hjálpar og vináttu þeirra. Á þessum árum var farið í veiðiferðir og ferðalög sem allir höfðu gaman af. Einnig var oft farið til Gunnu og Tryggva til að horfa á „Flintstone“ í sjónvarpinu áður en við eignuðumst sjálf sjónvarp. Við höfum haldið ættarmót seinustu árin sem hafa verið kölluð „Flintstone“ og í seinni tíð hefur hátíðin hafist með golfmóti. Tryggvi hafði mjög gaman af að spila golf og má segja að eftir að hann hætti að geta farið út á golfvöll hafi farið að halla undan fæti hjá honum. Hann var mikið snyrtimenni og umhugað um að garðurinn liti vel út. Til marks um það bað hann okkur fyrir stuttu að koma með sér austur í Laugarás til að kaupa plöntur í hekkið sem farið var að láta á sjá. Hann fékk svo menn til verksins því ekki vildi hann skilja við þetta í órækt.

Við viljum þakka Tryggva fyrir góðar samverustundir og vináttu. Ekki síst fyrir góðu stundirnar í eldhúskróknum í hádeginu. Þá var oft hlegið og sagðar sögur frá gömlum dögum.

Við vottum Gunnu og fjölskyldu okkar dýpstu samúð.

Takk fyrir allt, minning þín lifir.

Jón H. Eggertsson
og Inga Dóra
Jóhannesdóttir.

hinsta kveðja

Elsku afi Diddi.

Okkur fannst svo gaman að spila við þig Svarta-Pétur í kaffikróknum. Og við söknum þess að hafa þig ekki í Fannafold þar sem þú tókst alltaf hlæjandi á móti okkur. Takk fyrir að kenna okkur að hugsa vel um fuglana og allt spjallið inni í stofu. Vonandi passar þú okkur frá himnum.

Þín

Jón Tryggvi og Mjöll.