Herjólfur siglir milli lands og Eyja.
Herjólfur siglir milli lands og Eyja.
Tap Herjólfs ohf., sem rekur samnefnda ferju sem siglir til Vestmannaeyja, nam í fyrra 56 milljónum króna, en árið áður hagnaðist félagið um 262 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi Herjólfs ohf

Tap Herjólfs ohf., sem rekur samnefnda ferju sem siglir til Vestmannaeyja, nam í fyrra 56 milljónum króna, en árið áður hagnaðist félagið um 262 milljónir króna.

Þetta kemur fram í ársreikningi Herjólfs ohf. fyrir síðasta ár. Félagið er í fullri eigu Vestmannaeyjabæjar.

Meginástæðu neikvæðrar afkomu félagsins má rekja til nokkurra liða að því er fram kemur í ársreikningi. Herjólfur IV fór á árinu í slipptöku sem var kostnaðarsöm, miklar verðhækkanir höfðu veruleg áhrif á rekstur félagsins og sigla þurfti oftar til Þorlákshafnar en væntingar stóðu til vegna óhagstæðra skilyrða við Landeyjahöfn.

Rekstrartekjur félagsins námu tæpum 1,9 milljörðum króna, en 1,7 milljörðum árið áður. Námu framlög ríkissjóðs 766 milljónum króna og seld þjónusta 986 milljónum króna. Þjónustusamningur Herjólfs og íslenska ríkisins rennur út í október og hefur Vestmannaeyjabær óskað eftir viðræðum við innviðaráðherra um endurnýjun samningsins. Rekstrargjöld námu 1,9 milljörðum króna en námu 1,4 milljörðum árið áður.

Eigið fé félagsins var 201 milljón króna í árslok og námu eignir 332 milljónum. Eiginfjárhlutfall félagsins var 60,5% í lok síðasta árs.