Fagn Declan Rice fagnar marki sínu í uppbótartíma í gær.
Fagn Declan Rice fagnar marki sínu í uppbótartíma í gær. — AFP/Glynn Kirk
Það vantaði ekki dramatíkina í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta er gömlu erkifjendurnir í Arsenal og Manchester United mættust á Emirates-vellinum í Lundúnum í gær. Hafði Arsenal að lokum betur, 3:1, en staðan var 1:1 þegar komið var á fimmtu mínútu uppbótartímans

Það vantaði ekki dramatíkina í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta er gömlu erkifjendurnir í Arsenal og Manchester United mættust á Emirates-vellinum í Lundúnum í gær. Hafði Arsenal að lokum betur, 3:1, en staðan var 1:1 þegar komið var á fimmtu mínútu uppbótartímans.

Alejandro Garnacho hélt að hann væri að koma United yfir á 89. mínútu, en mark hans var dæmt af vegna rangstöðu. Arsenal nýtti sér það og Declan Rice og Gabriel Jesus skoruðu báðir í uppbótartíma og allt varð vitlaust í Norður-Lundúnum.

Fyrr um daginn vann Liverpool sinn þriðja sigur í röð er liðið vann sannfærandi 3:0-sigur á Aston Villa á Anfield. Ungverjinn Dominik Szoboszlai skoraði sitt fyrsta mark fyrir Liverpool og Mo Salah var enn og aftur á skotskónum.

Manchester City er enn eina liðið með fullt hús stiga, en meistararnir fóru illa með Fulham á heimavelli sínum, 5:1. Erling Haaland stal senunni eins og svo oft áður og skoraði þrennu. Á eftir City koma Tottenham, Liverpool, West Ham og Arsenal með tíu stig, en rétt eins og Liverpool hafa Tottenham og West Ham nú unnið þrjá leiki í röð.

Tottenham vann 5:2-útisigur á Burnley, þar sem Son Heung-min skoraði þrennu. Hefur Tottenham-liðið sýnt að það er líf eftir Harry Kane.

Þrjár þrennur litu dagsins ljós í deildinni um helgina, því hinn 18 ára gamli Evan Ferguson skoraði öll þrjú mörk Brighton í sannfærandi 3:1-heimasigri á Newcastle.