Lærdómur „Í stað þess að banna síma í skólanum ættu tækifærin sem þar birtast að vera nýtt,“ segir Bergþóra Þórhallsdóttir hér í viðtalinu.
Lærdómur „Í stað þess að banna síma í skólanum ættu tækifærin sem þar birtast að vera nýtt,“ segir Bergþóra Þórhallsdóttir hér í viðtalinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ef grunnskólarnir taka ekki nýjustu tækni gilda í sínu starfi eru þeir fjarri þeim heimi sem börn lifa í. Í öllu skólastarfi er mikilvægt að nýta tæknina. Hér þarf að finna jafnvægi og skynsamlegar leiðir til notkunar,“ segir Bergþóra…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Ef grunnskólarnir taka ekki nýjustu tækni gilda í sínu starfi eru þeir fjarri þeim heimi sem börn lifa í. Í öllu skólastarfi er mikilvægt að nýta tæknina. Hér þarf að finna jafnvægi og skynsamlegar leiðir til notkunar,“ segir Bergþóra Þórhallsdóttir, verkefnastjóri upplýsingatækni í grunnskólum Kópavogs.

Símabann í grunnskólum hefur verið mál málanna að undanförnu og er mikið rætt meðal barna, foreldra og skólafólks. Slíkt bann gildir nú til dæmis í Laugalækjarskóla og Réttarholtsskóla í Reykjavík, Öldutúnsskóla í Hafnarfirði, grunnskólanum í Vestmannaeyjum og Sunnulækjarskóla á Selfossi svo einhverjir staðir séu nefndir. Í Brekkubæjarskóla á Akranesi gilda sérstakar reglur um málið: hver nemandi á sitt merkta hólf á símahóteli svo fljótt sést ef síma vantar eða ef einhver er gripinn með síma í buxnavasa eða leynihólfi á skólatösku.

Skert einbeiting

Viðbáran í skólum þar sem símabann eða takmörk gilda er að símanotkun sé stundum óhófleg og skerði einbeitingu við nám. Einnig komi þetta niður á félagslegum tengslum, samanber að maður sé manns gaman.

Á dögunum kynnti Ásmundur Einar Daðason menntamálaráðherra að setja ætti reglur um farsímanotkun í grunnskólum. Reglurnar verða unnar með víðtæku samráði og verða leiðbeinandi viðmið. Meginstefið er að tryggja fræðslu um símanotkun og vinna gegn neikvæðum áhrifum. Nær öll íslensk börn í grunnskólum eiga síma og um ¾ nema á unglingastigi nota símana til að leysa skólaverkefni. Rannsóknir segja, segir á vef menntamálaráðuneytis, að mikil aukning sé í skjátíma hjá börnum, sem hafi neikvæð áhrif á svefn og heilsu. Þá hafa rannsóknir sýnt að takmarkanir á notkun farsíma í skólum auki námsárangur. „Snjallsímar eru órjúfanlegur hluti af lífi nemenda okkar,“ segir Bergþóra Þórhallsdóttir, sem á að baki áratugalangan feril sem kennari og skólastjórnandi. Í Kópavogi eru slíkar ákvarðanir um símanotkun nemenda á valdi stjórnenda grunnskóla bæjarins, sem eru alls tíu. Lögð er áhersla á að skólar kenni stafræna borgaravitund markvisst og taki samræðu um notkun tækni. Fyrst og síðast er þess þó vænst að hver námshópur ræði væntingar sínar um notkun síma og hvaða reglur gildi. Geri svo með sér sáttmála um það hvernig tækni þessi er notuð í skólastarfinu.

Samþætta tækni og skólastarf

„Nú er hvarvetna verið að samþætta upplýsingatækni við skólastarf og greina hvernig hægt er að gera slíkt á áhrifaríkan hátt. Áherslur eru mismunandi eftir skólastigum og eftir þroska og þörfum nemenda. Skólar eru misjafnlega vel búnir tækjum og vissulega sitja nemendur ekki við sama borð. Að banna síma í skólum sem ekki eru vel tækjum búnir mætti því segja að kalli á enn meira ójafnræði, þar sem símar eru öðrum þræði tölvur með fjölbreytta möguleika,“ segir Bergþóra. Bætir við að þótt nemendur fái tölvur í eigu skólans verði líka að kenna þeim rétta notkun utan skólastofunnar og styðja þá til þekkingarleitar og í athöfnum daglegs lífs.

Námsforrit styðja við ýmis viðfangsefni sum eru ætluð til þjálfunar og enn önnur styðja við persónulega námsaðlögun.

„Skólar og einstaka kennarar sem nýta ekki tæknibúnað með nemendum sínum og banna um leið snjallsíma firra sig ábyrgð á að búa nemendur undir raunverulegt líf. Ef símar eru bannaðir á skólatíma með þeim rökum að nemendur ættu heldur að eiga í samskiptum augliti til auglitis, en leyfa á sama tíma tækni í kennslustofunni, segir slíkt okkur að hægt er að leiðbeina nemendum um að nýta tæknina. Þar með talið símana, hvernig nota skal þá skynsamlega innan sem utan kennslustofu.“

Bann er ekki lausn

Bergþóra bendir á að rétt eins og nemendum sé í skólanum leiðbeint um hvernig þau eiga að vera ábyrgir borgarar í daglegu lífi eigi slíkt einnig að ná til hins stafræna lífs, sem er orðinn hliðarveruleiki margra. Umræða um siðareglur á netinu, friðhelgi einkalífs og hugsanlegar afleiðingar óviðeigandi tækninotkunar kalli á að börnum sé kennd þessi færni. Þörf á slíku aukist sífellt.

„Í stað þess að banna síma í skólanum ættu tækifærin sem þar birtast að vera nýtt. Veita á nemendum leiðbeiningu í þessari vegferð. Leitað verði leiða til að forðast boð og bönn, eltingaleiki við fullorðna fólkið, pukur, árekstra og afleiðingar þessara áskorana sem samfélagið stendur frammi fyrir,“ segir Bergþóra og að síðustu:

„Ég legg til að við snúum við þeirri umræðu í fjölmiðlum sem hefur verið. Beinum henni í átt að því hvernig við getum öll verið betur upplýst og meðvituð um áhrif síma- og netnotkunar. Snjallsímanotkun í skólum er áskorun en það að fjarlægja síma allra nemenda úr skólaumhverfi er ekki endilega svar. Ekki lausn á knýjandi þörf á leiðbeiningu í lífsleikni nútímans. Þörf fyrir þjálfun í stafrænni hæfni er mikil. Við eigum að leiðbeina nemendum og undirbúa þá fyrir samfélagið utan skólans, staðinn þar sem unga fólkið lærir að undirbúa sig fyrir lífið.“

Hver er hún?

Bergþóra Þórhallsdóttir er Vestmannaeyingur, fædd 1964. Er með meistarapróf í stjórnun menntastofnana þar sem hún lagði áherslu á upplýsingatækni í skólastarfi auk þess að vera með diplómu í opinberri stjórnsýslu. Hún hefur starfað sem kennari og stjórnandi í skóla frá árinu 1986. Í dag vinnur hún sem verkefnisstjóri í upplýsingatækni á menntasviði Kópavogsbæjar og hóf þar störf í ársbyrjun 2020.

Bergþóra hefur í gegnum tíðina leitt ýmis þróunarverkefni í störfum sínum sem snúa einkum að menntun, lífsleikni, stjórnun og upplýsingatækni. Í dag vinnur hún að þróunarverkefni um stafræna borgaravitund.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson