Alexandra Chernyshova
Alexandra Chernyshova
Á þessu ári í tónskóla Mýrdalshrepps er boðið upp á nýtt tónlistarnámskeið: Syngjandi fjölskylda, fyrir börn frá fimm mánaða til þriggja ára.

Alexandra Chernyshova

Á þessu ári er boðið upp á nýtt tónlistarnámskeið í tónskóla Mýrdalshrepps fyrir börn frá fimm mánaða til þriggja ára og foreldra þeirra sem heitir Syngjandi fjölskylda. Höfundur og kennari Alexandra Chernyshova.

Tónlistaruppeldi ungbarna er mikilvægara en nokkru sinni í tónlistarmenntunarkerfi. Ræktun á ást og skilningi á tónlistarmenningu byrjar í barnæsku. Rannsóknir benda til þess að tónlistarnám fyrir yngstu börnin geti stuðlað að góðmennsku og samhygð í gegnum tilfinningavitund sem tónlist vekur. Tónlistartímar í Syngjandi fjölskyldu bjóða börnum upp á möguleika til að umgangast jafningja sína á skapandi hátt. Syngjandi fjölskylda er hópnámskeið og með því að vera í samvinnuverkefni læra börn virðingu fyrir samstarfi, samvinnu og stuðning hvert við annað. Síðast en ekki síst er tónlist algilt tungumál sem spannar menningarþjóðir og opnar börnunum skilning á fjölbreytileika í menningu.

Undanfarin fimm ár hefur höfundur, óperusöngkonan Alexandra Chernyshova, með óperusöngvaranum Jóni Svavari Jósefssyni kynnt leikskólabörnum hvað ópera er og opnað dyr fyrir yngstu börnin inn í töfraheim óperunnar. Um þrjú þúsund börn á aldrinum tveggja til fimm ára í þrjátíu og fjórum leikskólum sáu hina skemmtilegu óperusýningu „Ópera fyrir leikskólabörn“. Endurgjöf barnanna og kennara á þessari sýningu var til fyrirmyndar. Leikskólabörn voru glöð að fá að hlusta á óperutónlist og óperusöngva og syngja og dansa með. Það er mjög mikilvægt að ungbörn fái fjölbreytt tónlistaruppeldi og kynnist tónlistarmenningu.

Í Vík eru um sextíu prósent íbúa af erlendum uppruna og því mjög nauðsynlegt að opna dyr fyrir íslenska tónlistarmenningu. Syngjandi fjölskylda er tónlistarnámskeið á vegum tónlistarskólans sem er opið fyrir fjölskyldur með ungbörn. Sungið er á íslensku og kennsla fer fram bæði á íslensku og ensku eftir þörfum. Sveitungar og sveitarstjórn tóku vel í þróun tónlistarkennslu í Vík og í vetur verða keypt hljóðfæri sem ná til yngri barna. Kynning og skráning í Syngjandi fjölskyldu-tónlistarnámskeiðið gekk mjög vel og því verður í boði að skrá sig í annan hóp og bæta nokkrum áhugasömum fjölskyldum með ung börn við. Tónskólinn er mjög spenntur að byrja með Syngjandi fjölskyldur.

Dyr tónskólans í Vík eru opnar öllum sem vilja kynnast íslenskri tónlistarmenningu.

Höfundur er skólastjóri tónskólans í Vík.