Stefanía fæddist 25. maí 1942. Hún lést 9. ágúst 2023. Útför fór fram 22. ágúst 2023.

Ég kynntist ömmu Stebbu fyrir um 15 árum þegar við Skúli, barnabarnið hennar, byrjuðum að hittast. Hlýrri og yndislegri konu er erfitt að finna og við Stebba náðum vel saman frá fyrstu kynnum. Stebba og Skúli voru mjög náin og var því mikill samgangur á milli okkar. Hún hikaði ekki við að hringja út af alls konar tölvu- og tæknivandræðum og auðvitað kom maður hlaupandi vitandi að móttökurnar fælu í sér endalaust þakklæti, knús og kaffi. Það var alltaf passað upp á að maður fengi nóg að borða og drekka og það var alltaf eitthvað heimabakað á boðstólum. Stebba var ein af þeim sem gata hent upp veislu á núll einni með engri fyrirhöfn, því hún vissi ekkert skemmtilegra en að fá fólkið sitt til sín.

Stebba var dugleg að hrósa og hlustaði innilega á það sem maður hafði að segja. Hún settist niður með okkur Skúla í hverri heimsókn og vildi heyra allt um hvað væri í gangi í lífi okkar og samgladdist svo innilega þegar vel gekk. Hún var alltaf glöð þegar við Skúli og Sindri Þór, langömmustrákurinn hennar, komum í heimsókn. Sindri Þór hefur verið frá fæðingu stór og mikill og algjör grallari, hún hafði svo gaman af að fylgjast með honum brasa. Hann fær sko að heyra sögur af langömmu Stebbu þegar hann stækkar.

Það er gott að vita af þér á betri stað en á sama tíma svo sárt að kveðja.

Hvíl í friði, elsku amma Stebba. Ég sakna þín.

Þín Gunna,

Guðrún
Steindórsdóttir.

Elsku amma Stebba er fallin frá. Við amma vorum mjög náin og stór hluti af mínum æskuminningum er frá hennar fallega heimili í Neðstaleitinu. Amma kenndi mér svo margt en hún var alveg yfirburða góð manneskja. Hún kenndi mér hvað kurteisi, virðing, góð heilsa og umgengni skiptir miklu máli í lífinu og hennar hugmyndir hafa haft mikil áhrif á mig í mínu lífi.

Það var alltaf notalegt að koma til ömmu Stebbu. Hún spurði yfirleitt tveggja spurninga, hvort ég og allir í kringum mig hefðum það ekki gott og hvort ég væri ekki svangur. Yfirleitt var hún búin að svara seinni spurningunni sjálf og var búin að leggja á borð eins og á fínum veitingastað þó að ekkert stæði til. Dúkur og servíettur í stíl ásamt kertaljósi. Umbúðir voru bannaðar við matarborðið hjá henni ömmu og maður vogaði sér ekki að ögra þeirri reglu. Veitingarnar komu yfirleitt á færibandi og voru þær allra jafna heimalagaðar. Það skipti engu máli hvað stóð til, hún vildi alltaf gera sitt allra besta við sína og setti sjálfa sig alltaf í annað sæti. Ef brauðið var að klárast þá fékk hún sér ekkert að borða fyrr en hún væri viss um að allir væru orðnir saddir. Mér finnst mjög leiðinlegt að Sindri Þór, sonur minn, fái ekki að eyða meiri tíma með þér og fá kennslu um hvernig skuli brjóta saman lak, flysja epli, leggja á borð, sitja beinn í baki svo eitthvað sé nefnt. En ég mun sannarlega miðla þeim fróðleik áfram.

Þegar amma byrjaði að veikjast þurfti hún smátt og smátt meiri aðstoð við heimilisreksturinn. Ég var með föst ábyrgðarhlutverk á heimilinu hennar ömmu. Ég sá um að bóna bílinn, ryksuga bækur, pússa silfur, laga tölvuna og teppaleggja svalirnar á vorin. Ég þurfti aldrei að hugsa mig um ef ömmu vantaði aðstoð, þar sem hún var ávallt ríkulega launuð með ást og umhyggju. Í hvert skipti sem ég tók að mér verkefni lét amma mér líða eins og ég væri heimsmeistari í faginu og velti gjarnan fyrir sér hvaðan ég hefði þessi miklu hæfileika. Mér fannst ég svo sem ekki vera að gera þetta neitt óvenju vel. En svona var amma, alltaf að upphefja og hrósa öðrum.

Amma saknaði afa Skúla alveg gríðarlega mikið og hún talaði oft um hann við mig og hvað henni fannst leiðinlegt að ég hefði ekki fengið að kynnast honum á meðan hann var heilbrigður. Því er ég hjartanlega sammála, en ég hef oft velt fyrir mér hvernig hlutirnir væru ef hann hefði ekki veikst. En nú eru þið loksins sameinuð á ný, sem var þín hinsta ósk.

Elsku amma, takk kærlega fyrir allt saman.

Þinn ömmustrákur,

Skúli Þór.

Ég var alin upp á mörkum þeirra tveggja heima sem mættust á Íslandi á 8. áratugnum. Öðrum megin, í Asparlundi 19, bjuggum við fjölskyldan. Þar var nútíminn, var mér sagt, og þar ól mamma okkur systur á Cheerios, Sanasol, djúsi og bakarískeyptu brauði. Hún var í námi, klæddist mussum, reykti, drakk og átti ekkert snyrtidót. Í hinum heiminum mínum, á númer 21, bjuggu Stefanía og Skúli með börnunum þremur, í fortíðinni víst. Stefanía var alltaf heima, hún ól sín börn á hafragraut, lýsi, nýmjólk, heimabökuðum bollum og kvöldbænum. Stefanía notaði orð eins og lekkert, hún fór í lagningu og átti silkislæður. Hún átti líka skærbleikan varalit frá Ellen Betrix og Lily of the valley-ilmvatn sem ég laumaðist ítrekað í og mun alltaf minna mig á hana. Þótt kært hafi verið á milli þeirra voru mæðurnar tvær eins ólíkar og hugsast gat. Þær fóru ekki í felur með gagnkvæmar efasemdir sínar um uppeldisaðferðir hinnar, sem var ruglingslegt fyrir lítið barn. Mín megin var Kvennalistinn í undirbúningi og þar fékk ég aldeilis að heyra að ekki þætti par fínt að vera heimavinnandi húsmóðir, hlýja væri væmni, kvenleiki væri gamaldags og áhugi á eldhússtörfum væri metnaðarleysi. En spyrjum að leikslokum! Besta prófið á kosti fólks er mótlæti. Þegar Skúli veiktist sneri Stefanía styrkleikum sínum í starfsferil á aðdáunarverðan hátt. Á bak við bleika varalitinn leyndist nefnilega þrautseigur námsmaður. Stefanía endaði á því að klára tvær háskólagráður og upp úr aldamótum vorum við Stefanía orðnar kollegar við kennslu í Háskóla Íslands. Ég var orðin vel fullorðin þegar ég áttaði mig á því að hinn furðulegi femínismi sem ég ólst upp við var ekkert annað en argasta kvenfyrirlitning. Í gegnum vinskap minn við Guðrúnu tengdist ég fjölskyldunni á númer 21 ævilöngum vinaböndum og eftir því sem árin liðu – og Guðrún ílengdist í útlöndum – styrktist samband mitt við Stefaníu. Hún var hin mamman mín og kallaði mig aðra dóttur sína. Hún var sú trúnaðarvinkona sem mamma mín naut ekki heilsu til að vera. Yfir tebolla eða steiktri ýsu í óaðfinnanlega eldhúsinu í Neðstaleiti deildum við raunum okkar af yfirlestri lokaverkefna og ég sagði henni frá sigrum mínum og sorgum. Stefanía hafði sannan áhuga á starfi mínu og hún var sú eina sem alltaf hringdi til að hrósa mér og ræða málin ef hún heyrði mig tala í útvarpi eða sjónvarpi. Hún var með mér í liði og var stolt af mér og það er ómetanleg gjöf. Ég vona að ég hafi komið henni eitthvað að gagni líka í lífinu. Ég fékk þann heiður að hjálpa henni aðeins við meistararitgerðina og síðar við gerð matreiðslubókar. Það bliknar þó samanborið við allt sem Stefanía hjálpaði mér við og kenndi í gegnum tíðina, allt frá gerbakstri yfir í ráð um að betra sé autt rúm en illa skipað. Heimsóknum mínum í Neðstaleitið lauk alltaf með löngu faðmlagi og orðunum „Guð veri með þér, þótt þú trúir ekki á hann“. Ég kveð þig því í bili elsku Stefanía mín með sömu orðum. Guð veri með þér, takk fyrir allt og við verðum í bandi.

Ragna Benedikta Garðarsdóttir.

Það er gæfa lífs míns að hafa eignast góða vini í æsku sem urðu mín leiðarljós bæði heima og heiman. Stefanía Valdís Stefánsdóttir kennari var í þeim vinahópi. Ég kynntist Stefaníu austur á Eiðum sumarið 1958 en ég var þar í stuttri heimsókn hjá bekkjarsystur minni, Valgerði Jónsdóttur, og ég man enn hvað geislaði af þessari ungu stúlku í ljósbláum sumarkjól með svo hlýtt bros að manni hlýnaði alveg ofan í tær. Stefanía var bekk á eftir mér í Menntaskólanum á Akureyri og giftist síðar bekkjarbróður mínum, Skúla Johnsen lækni, og þau hjón eignuðust þrjú mannvænleg börn, Baldur, Valdimar og Guðrúnu.

Vináttuböndin styrktust með árunum með gagnkvæmum heimsóknum á milli Íslands og Bandaríkjanna, og aldrei kom ég heim til Íslands án þess að hitta þau og oft var skólafélögum smalað saman á glæsilegu heimili þeirra. Skúli lést í september 2001 eftir langvarandi veikindi.

Stefanía kenndi lengi unglingum matreiðslu og næringarfræði og tveir frændur mínir nutu góðs af og eru báðir góðir áhugamatreiðslumenn síðan. Stefanía gaf út mjög fína og gagnlega matreiðslubók, Eldað í dagsins önn, árið 2007.

Á seinni árum höfum við Stefanía ferðast saman um Ísland, ekið landshornanna á milli og farið í ferðalög með bekkjarfélögum okkar Skúla. Í mörg ár höfum við skrifast á og það var unun að lesa bréf frá Stefaníu því að hún sagði svo vel frá og hafði sérlega fallega og læsilega rithönd. Þad var allt fallegt í kringum hana og hún sjálf glæsileg kona. Ég sá hana síðast í júní og þétt handtak minnti á Stefaníu eins og ég þekkti hana, en hún átti erfitt með að tjá sig.

Ég kveð vinkonu mína með sárum söknuði og þakka henni samfylgdina og ótal gleðistundir. Ástvinum hennar færi ég innilegar samúðarkveðjur.

Laufey Vilhjálmsdóttir Bustany, Morristown, New Jersey.