Sr. Bernharður Guðmundsson lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi síðastliðinn föstudag, 1. september. Bernharður fæddist á Kirkjubóli í Valþjófsdal í Önundarfirði 28. janúar 1937, sonur Guðmundar Magnússonar og Svövu Bernharðsdóttur

Sr. Bernharður Guðmundsson lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi síðastliðinn föstudag, 1. september. Bernharður fæddist á Kirkjubóli í Valþjófsdal í Önundarfirði 28. janúar 1937, sonur Guðmundar Magnússonar og Svövu Bernharðsdóttur. Bernharður lauk stúdentsprófi úr MR árið 1956, diplómu í frönsku frá háskólanum í Caen í Frakklandi 1957, guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1962 og meistaraprófi í fjölmiðlun frá Suður-Illinois-háskóla í Bandaríkjunum 1978.

Bernharður vígðist til Súðavíkur 1962 og varð síðan sóknarprestur í Stóra-Núpsprestakalli í Árnessýslu 1965-1970. Síðan starfaði hann sem æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar 1970-1973, yfirmaður almannatengsla við útvarpsstöð Lúterska heimssambandsins í Eþíópíu 1973-1977, fréttafulltrúi og síðar fræðslu- og þjónustustjóri þjóðkirkjunnar 1979-1991, yfirmaður ráðgjafarþjónustu Lúterska heimssambandsins í Genf í Sviss 1991-1999, verkefnisstjóri Kristnihátíðar og Kirkjudaga 1999-2001 og rektor Skálholtskóla 2001-2006. Var prestur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði 1979-1985.

Hann lét að sér kveða í félagsmálum: var formaður Íslandsdeildar Amnesty International 1984-1986, sat í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands 1983-1989, Samtaka um byggingu tónlistarhúss 1983-1987 og Skálholtsfélagsins 1969-1973. Hann sat í barnaverndarráði 1984-1988, kirkjufræðslunefnd 1980-1989 og var fulltrúi þjóðkirkjunnar á heimsþingum Lúterska heimssambandsins, m.a. í Brasilíu, Hong Kong og Simbabve. Hann var ritstjóri Kirkjuritsins 1979-1981 og Víðförla 1981-1991 og sá um fjölmarga útvarpsþætti á RÚV sem tengdust trúmálum og kirkjulegu starfi. Hlaut heiðursmerki hinnar íslensku fálkorðu 2006 fyrir störf í þágu þjóðkirkjunnar og alþjóðlegs kirkjustarfs.

Bernharður lætur eftir sig eiginkonu, Rannveigu Sigurbjörnsdóttur, og þrjú börn, Svövu, Magnús Þorkel og Sigurbjörn, og fimm barnabörn.