Sigríður Bjarney Björnsdóttir fæddist á Siglufirði 17. ágúst 1934. Hún lést á Landakoti 12. ágúst 2023.

Foreldrar hennar voru Björn Zophanías Sigurðsson skipstjóri frá Vatnsenda í Héðinsfirði, f. 1892, d. 1974, og Eiríksína Kristbjörg Ásgrímsdóttir frá Hólakoti í Fljótum f. 1897, d. 1960. Systkini: Sigurður, f. 1917, d. 1944, Ásbjörg Una, f. 1919, d. 1972, Halldóra Guðrún, f. 1921, d. 2009, Sveinn Pétur, f. 1924, d. 1998, Ásgrímur Guðmundur, f. 1927, d. 1999, Þorsteinn Helgi, f. 1929, d. 2000, Björn, f. 1930, d. 2016, María Stefanía, f. 1931, d. 2010, og Svava Kristín, f. 1932, d. 2007.

Eiginmaður Sigríðar var Garðar Júlíusson rafvirkjameistari frá Vestmannaeyjum, f. 10. nóvember 1932, d. 26. ágúst 1988. Foreldrar Garðars voru Sigurveig Björnsdóttir, f. 1891, d. 1934 og Gunnlaugur Júlíus Jónsson múrarameistari í Vestmannaeyjum, f. 1895, d. 1978.

Synir Sigríðar og Garðars eru: 1) Björn Zophonías, f. 23.5. 1955. Maki Fjóla Ingólfsdóttir, f. 31.1. 1955. Synir þeirra eru: a) Ingólfur, f. 1975, maki Sanna Svenson, f. 1975, börn: Arvid Freyr, f. 2009, og Herman, f. 2011. b) Garðar Elliði, f. 1983, maki Ellen Rova, f. 1983, börn Esther Eyja, f. 2014, og Harriet, f. 2017. 2) Kristinn, f. 11.6. 1964. Maki Sigrún Kristín Barkardóttir, f. 23.9. 1964. Synir þeirra eru: a) Börkur Smári, f. 1990, maki Sara Björk Lárusdóttir, f. 1990, börn: Breki Freyr, f. 2016, Ylfa Dögg, f. 2017, Atli Snær, f. 2020. b) Sigurður, f. 1994, maki Sunneva Rán Pétursdóttir, f. 1994, börn: Yrja Katrín, f. 2017, og Tindur Huginn, f. 2021. c) Björn Rúnar, f. 2000, unnusta Fanney Elfa Einarsdóttir, f. 2001.

Sigríður ólst upp á Siglufirði og gekk þar í barna- og gagnfræðaskóla. Hún tengdist Vestmannaeyjum ung þar sem tvær systur hennar bjuggu og kynntist eiginmanni sínum þar. Þau Garðar giftu sig á Siglufirði 27. júlí 1954 en bjuggu í Vestmannaeyjum og byggðu sér þar hús á Bakkastíg 18. Húsið fór undir hraun í eldgosinu í Heimaey 1973 og settust þau þá að í Kópavogi. Síðasta hluta ævinnar bjó hún í Engihjalla 25 í Kópavogi.

Í Vestmannaeyjum starfaði Sigríður við fiskvinnslu og afgreiðslustörf, en eftir gos vann hún lengst á skrifstofu BYKO. Hún bar hag heimabæjarins, Siglufjarðar, fyrir brjósti og var meðlimur í Siglfirðingafélaginu en einnig í Kvenfélaginu Heimaey.

Útför Sigríðar fer fram í Kópavogskirkju í dag, 4. september 2023, og hefst athöfnin kl. 13.

Mamma kom úr stórum systkinahópi á Siglufirði þar sem glaðværð og kærleikur réði ríkjum og tók hún það veganesti með sér út í lífið. Hún mátti ekkert aumt sjá og var stokkin til hjálpar þeim sem minna máttu sín og setti náungann framar sjálfri sér. Hún tók á móti gestum með sömu glaðværðinni og hjartahlýjunni. Skipti þá engu hvort þar færi fullorðið fólk, börn eða misskildir unglingar. Allir fengu sama viðmót.

Samband okkar mömmu var afar náið og minningabrotin mörg. Í eldgosinu í Eyjum 1973 vorum við vakin fyrri part nætur við hamfarirnar sem allir þekkja. Ekki minnist ég þess 8 ára gamall að hafa fundið til hræðslu. Mamma og pabbi tóku þessu með stóískri ró og minningin er um mömmu að hella upp á kaffi um miðja nótt og færa á borð jólaköku og mjólk fyrir drenginn, með drunurnar frá eldgosinu við húsgaflinn. Svo var tekið það helsta með til eins dags, farið úr húsinu og endað í Reykjavík og síðar Kópavogi. Fyrir barn hefði þetta auðveldlega verið mikið áfall en með ómældri mildi, kærleika og ákveðni í bland sigldum við í gegnum þetta saman. Ekki skemmdi fyrir að eiga einstaklega samheldna og skemmtilega stórfjölskyldu í bænum – það skipti máli.

Mamma og systur hennar höfðu næmt auga fyrir hönnun hvers konar og birtist það helst í saumaskap og fatahönnun. Á unglingsárum voru saumuð á mig tískuföt af ýmsu tagi og voru þær systur mamma og Mæsa þar í essinu sínu. Við frændur, Hafsteinssynir, bárum þar örugglega af í klæðaburði.

Pabbi fékk á unglingsaldri sykursýki sem hafði mikil áhrif á líf hans. Dæmigert fyrir mömmu þá gerði hún eins gott úr öllu og hægt var. Hún þróaði og bakaði sykurlausar kökur og brauð fyrir hann og sá til þess að maturinn væri hollur og með réttum hitaeiningafjölda. Ég var að sjálfsögðu á sama fæði og t.d. fannst mér allur sykraður matur (ekki kökur) vondur þegar mér var boðinn hann – en það hefur reyndar breyst.

Síðar þegar barnabörnin fóru að koma var hún ávallt boðin og búin að aðstoða og tók árum saman á móti strákunum okkar þegar þeir komu heim úr skóla, yfirleitt með eitthvað nýbakað í svanga kroppa.

Mamma hafði oft orð á því að hún elskaði að lifa og það fleytti henni langt. Hún átti við heilsubrest að stríða síðustu árin, en með jákvæðni og brosmildi tók hún einn dag í einu og naut hverrar mínútu. Söknuðurinn er sár, en minningin lifir.

Kristinn Garðarsson.

Sigga móðursystir mín er farin, sú yngsta í tíu systkina hópi. Ég naut þess sem barn og unglingur að eiga bæði heimili í Vestmannaeyjum og annað á Siglufirði hjá ömmu og afa mörg sumur á bernsku- og æskuárum. Fyrstu árin þar voru yngstu systkini mömmu enn í heimahúsum. Þetta var á síldarárunum og bjartsýni ríkti. Heimilið var líflegt og góð samstaða milli systkinanna. Afi var farsæll skipstjóri og amma einstök atorkukona, framsýn og hugmikil. Ýmsir góðir kostir voru í hávegum hafðir og þar á meðal ábyrgðarkennd og samkennd með öllu lifandi, sem einkenndu Siggu frænku alla tíð. Sigga hafði áhuga á samfélagsmálum og sterka réttlætiskennd og engin var tryggari eða umhyggjusamari, þó að hún þætti ákveðin þegar þess þurfti.

Þegar Sigga fór að koma til Vestmannaeyja til að passa börn á sumrin var undirrituð sú fyrsta sem naut barnfóstruhæfileikanna, og síðar yngri systkini mín. Í Eyjum kynntist hún svo mannsefni sínu, Garðari, en María systir hennar giftist bróður hans svo að þrjár systranna urðu þar búsettar, þótt mislengi væri.

Ég naut þess alltaf að skreppa í heimsókn til Siggu. Á fyrstu búskaparárum hennar, þegar ég hef verið 11-12 ára, man ég eftir að hafa setið á kolli á miðju eldhúsgólfinu hjá henni á Bakkastígnum og hrært fyrir hana smjörlíki í bakstur, enda var engin hrærivélin. Smjörlíkið átti að hrærast þar til það yrði létt og ljóst, helst rjómakennt, og vel var hægt að spjalla á meðan. Eitthvað var rætt um að helst ætti að hræra réttsælis. Á Bakkastígnum voru líka ræddir atburðir liðinna tíma í Eyjum, enda var Garðar mikill sögumaður.

Umhverfið við Bakkastíg austast á Heimaey var stórbrotið með nálægð við innsiglinguna, brimasama strönd og Heimaklett gnæfandi yfir. Eldgosið 1973 rústaði þessum hluta bæjarins. Þetta svæði með sinni náttúrufegurð hvarf og nýtt landsvæði með hinu hrikalega hrauni kom í staðinn. Þetta var ekki síst áfall fyrir þá sem höfðu búið þar og Sigga og Garðar fluttu ekki til baka út í Eyjar eftir gosið.

Vináttan við Siggu einkenndist alla tíð af ómetanlegum samskiptum þar sem hægt var að ræða heimsmálin, þjóðmál, bera saman bækur um það sem var verið að lesa og líka bara að vera. Það sem núorðið kallast núvitund þurfti ekki að ræða, það bara var með í samskiptunum. Sigga sýndi alltaf mikinn áhuga á því sem var um að vera hjá yngra frændfólki, hvort sem það voru tónleikar, heimspekifyrirlestrar eða annað, og samgladdist þegar vel gekk. Það er minningafjársjóður að hafa fengið að njóta vináttu Siggu.

Jóhanna Bogadóttir (Hanna Sigga).

Sigríður Björnsdóttir móðursystir okkar okkar kvaddi þann 12. ágúst síðastliðinn.

Sigga var yngst í stórum hópi systkina sem nú hafa öll kvatt. Sigga hafði alltaf viðurnefnið systir í okkar fjölskyldu og stóð sannarlega undir því nafni. Hún var yngsta systir mömmu og giftist Garðari yngsta bróður pabba. Foreldrar okkar sögðu jafnan stolt frá því að þau hefðu stuðlað að hjónabandi þeirra.

Samgangur var alltaf mikill á milli fjölskyldnanna enda þær systur einstaklega samrýmdar. Skyldleikinn er því mikill og má segja að við systkinin séum nánast hálfsystkini þeirra bræðra Bjössa og Kidda.

Við eigum margar góðar minningar af systrunum fimm saman sem allar voru þvílíkar pjattrófur og nutu þess að máta föt og skó og bara punta sig. Já, þá var gjarnan slegið á létta strengi og hlegið svo undir tók í húsinu. Systraþelið sem ríkti á milli þeirra er dýrmæt minning sem yljar okkur.

Sigga var afar glæsileg kona, falleg og brosmild og hún bar sig líka einstaklega vel. Hún var líka réttsýn og stóð ávallt með þeim sem minna máttu sín. Hún var fróðleiksfús og hafði sterkar skoðanir á málefnum

líðandi stundar. Sigga var virk á samfélagsmiðlum og fylgdist vel með sínu fólki og raunar öllum ættboganum. Hún var líka minnug og góður sögumaður og kunni margar sögur bæði af ömmu og afa og af alls konar uppátækjum systkina sinna.

Sigga var stór persónuleiki, glaðvær, kærleiksrík og umhyggjusöm og einstaklega jákvæð. Hún var einstaklega góð heim að sækja og hafði mjög gaman af að fá gesti og nutum við þess að hverfa aftur í tímann með henni og hlusta á litríkar frásagnir um lífið í Eyjum og á Sigló yfir góðum kaffibolla.

Samheldni systkinanna tíu var alltaf einstök og einkenndist af virðingu og væntumþykju. Í veikindum þeirra var Sigga alltaf til staðar, hún heimsótti þau reglulega og sýndi þeim mikla umhyggju og kærleik sem verður seint fullþakkað.

Í veikindum hennar sjálfrar síðustu misseri skein jákvæðnin og æðruleysið alltaf í gegn.

Eins og áður sagði voru mamma og Sigga afar samrýmdar og milli þeirra var einstakt samband. Nú eru þær saman aftur í sumarlandinu góða, Mæsurnar, eins og þær voru svo oft kallaðar á Siglufirði í gamla daga.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Við kveðjum mæta konu, hana Siggu systur, með hlýju og þakklæti í hjarta.

Mæsu og Hafsteinsbörn,

Sigurveig, Eiríksína, Guðný, Sigurður, Júlíus og Þröstur.

Elsku Sigga mín.

Þá er komið að kveðjustund eftir 68 ára góða og sanna vináttu.

Við kynntumst á sjúkrahúsinu í Eyjum þegar við eignuðumst fyrstu börnin okkar, þú Bjössa 23. maí og ég Hönnu 24. maí 1955. Við urðum sannar vinkonur og aldrei bar skugga á þá vináttu og örlögin höguðu því þannig að við bjuggum alltaf nálægt hvor annarri þar til ég flutti með minni fjölskyldu aftur til Eyja 1975 eftir gosið. Við pössuðum að halda sambandi í síma og þegar ég kom í borgina og þú til Eyja.

Þú gafst mér svo mikið, þú komst frá stóru heimili, áttir foreldra og tíu systkini og allir mjög virkir. Ég missti mömmu mína tíu ára gömul og fór ung að búa. Þú kenndir mér svo margt og ég kom alltaf glöð af þínum fundi, fyrir það þakka ég af heilum hug.

1964 kom Gugga mín í heiminn og í júní Kiddi þinn og urðu þau góðir vinir eins og Bjössi og Hanna.

Ég hlakkaði alltaf til þegar ég skrapp í höfuðborgina að hitta þig og við fórum saman í búðir og á kaffihús á eftir og nutum samverunnar í gleði. Þér fylgdi alltaf gleði, góðmennska og umhyggja fyrir öðrum sem þú gafst af fúsum vilja og kærleika til náungans. Það líkaði öllum vel við þig sem á annað borð kynntust þér og þú varst elskuð alls staðar.

Með hjartans þakklæti kveð ég þig elsku vinkona og bið Guð að vernda þig og varðveita.

Ég og dætur mínar sendum fólkinu þínu innilegar samúðarkveðjur með þakklæti fyrir liðnar ljúfar stundir.

Blessuð sé minning þín.

Þín vinkona,

Hrönn.