Hjónin Elínborg og Benedikt í garðhýsi sínu með hluta af steinasafninu.
Hjónin Elínborg og Benedikt í garðhýsi sínu með hluta af steinasafninu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Elínborg Sædís Pálsdóttir fæddist 3. september 1923 á Böðvarshólum í Vesturhópi og átti því 100 ára afmæli í gær. Hún ólst upp á Böðvarshólum til 1929, en þá varð faðir hennar að bregða búi vegna berklaveiki og flutti fjölskyldan þá til Reykjavíkur

Elínborg Sædís Pálsdóttir fæddist 3. september 1923 á Böðvarshólum í Vesturhópi og átti því 100 ára afmæli í gær.

Hún ólst upp á Böðvarshólum til 1929, en þá varð faðir hennar að bregða búi vegna berklaveiki og flutti fjölskyldan þá til Reykjavíkur. Systkini Elínborgar voru sjö, öll fædd á Böðvarshólum.

Fyrstu árin í Reykjavík bjó fjölskyldan á Vonarlandi í Sogamýri og nokkrum öðrum stöðum til 1935 þegar þau fengu úthlutað íbúð í verkamannabústöðunum við Hofsvallagötu. Þar bjuggu foreldrar Elínborgar allt þar til þeir fluttu á dvalarheimilið Skjólgarð á Höfn í Hornafirði 1976 og bjuggu þar til dánardægurs. Anna móðir Elínborgar náði ríflega 100 ára aldri.

Faðir Elínborgar náði sér smám saman af berklunum og starfaði eftir það á innheimtuskrifstofu Ríkisútvarpsins fram að áttræðu. Móðir Elínborgar var hagmælt og kunni mikið af ljóðum, hafði mjög gott vald á íslensku máli og hafði talsverð samskipti við Orðabók Háskólans. Mörg ljóð eftir hana birtust m.a. í lesbók Morgunblaðsins.

Barnaskóla sótti Elínborg fyrst í Austurbæjarskóla og síðar í Miðbæjarskólanum, en þrjú ár í Gagnfræðaskóla Reykjavíkur (Ingimarsskóla) á unglingastigi. Eftir þetta var ekki um frekari skólagöngu að ræða. Á unglingsárum sínum vann Elínborg á saumastofu og síðar á ljósmyndastofu við að lita ljósmyndir og nýtti þar listræna hæfileika sína sem síðar meir urðu mikilvægur þáttur í lífi hennar. Á stríðsárunum flutti Elínborg til Hafnar í Hornafirði til bróður síns Guðmundar, sem þá var þar símstöðvarstjóri. Á Höfn hitti hún lífsförunaut sinn, Benedikt Steinar Þorsteinsson, sem hún giftist 1945. Keyptu þau ári síðar hús af Höskuldi Björnssyni listmálara, sem kallað var Hlöðutún. Þar bjuggu þau alla sína búskapartíð.

Á upphafsárum búskapar þeirra Elínborgar og Benedikts var vinna stopul, helst í fiski. Síðan tóku við húsmóðurstörf og umönnun barna. Árið 1962 gerðist Elínborg bókavörður við bókasafn Hafnar og sinnti því starfi til ársins 1977. Þá kenndi hún myndmennt um tíma í barnaskóla Hafnar.

Þau hjónin voru mjög samhent og höfðu sömu áhugamál. Þau voru miklir náttúrunnendur og notuðu hvert tækifæri til að njóta hennar. Þau gengu á ótal fjöll um land allt, fóru út á annes og í fjörur, ferðuðust mikið um fáfarnar slóðir, jafnvel með allan búnað á bakinu, þekktu landið frá fjöru til fjalls. Á ferðum sínum söfnuðu þau steinum og áttu mjög fjölbreytt safn. Steinasafn sitt gáfu þau Náttúrugripasafni Austur-Skaftafellssýslu.

Ekki einungis steinasöfnun átti hug þeirra, heldur söfnuðu þau eggjum, áttu uppstoppaða fugla, söfnuðu þurrkuðum blómum og skeljum. Elínborg er mjög fróð um jarðfræði, steinafræði, um gróður og blóm og sérstaklega um skeljar, sem hún safnaði m.a. með því að rannasaka innihald ýsumaga. Í gegnum þessi áhugamál sín voru þau hjónin í miklum samskiptum við annað áhugafólk og vísindamenn, m.a. hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og oft fengu þau heimsóknir fólks sem þau þekktu í gegnum áhugamál sín.

Áhugi á fuglum var þeim sameiginlegur. Þau fylgdust með fuglum í garði sínum á Ránarslóð, héldu skrá um fugla sem þau sáu og gáfu þeim að éta. Félag fuglaáhugamanna á Hornafirði gerði þau hjón að heiðursfélögum árið 1999.

Elínborg hafði stöðugt eitthvað fyrir stafni. Hún er mjög listfeng, sótti fræðslu um teikningu og myndlist í bréfaskóla, þar sem ekki voru tök á annarri menntun. Eftir hana liggja ótal smærri myndverk, m.a. máluð á viðarbúta og steina. Mörg ár voru seld verk eftir hana í Kaupfélaginu á Höfn og margir komu heim til hennar til að kaupa til gjafa. Ef ekki var setið við myndverk, þá voru teknir upp prjónar eða heklunál, jafnvel saumnál. Þá voru ófá handtökin í garði þeirra við Ránarslóð, sem alltaf var vel hirtur og fallegur.

Frá árinu 2021 hefur Elínborg búið við gott atlæti á dvalarheimilinu Skjólgarði.

Fjölskylda

Eiginmaður Elínborgar var Benedikt Steinar Þorsteinsson, verkstjóri, f. 10. nóv. 1915, d. 7. okt. 2001. Þau bjuggu alla sína búskapartíð á Ránarslóð 6, Höfn. Seinustu ár ævi sinnar bjó Benedikt á dvalarheimilinu Skjólgarði. Foreldrar Benedikts voru hjónin Þorsteinn Jónsson, f. 4.4. 1876, d. 15.2. 1947, bóndi á Sléttaleiti í Suðursveit, og Þórunn Þórarinsdóttir, f. 7.1. 1887, d. 13.10. 1958, húsfreyja. Þau voru síðast búsett á Höfn í Hornafirði.

Afkomendur þeirra hjóna eru samtals 61. Börnin eru 1) Anna Birna, leikskólakennari, f. 25.8. 1946, gift Ólafi Eini Einarssyni, f. 22.12. 1943. Þau búa á Höfn. Þau eiga börnin Elínborgu, f. 10.1. 1964, sem býr á Höfn, Ásdísi Erlu, f. 23.1. 1966, býr á Höfn og Önnu, f. 23.12. 1971, en hún býr í Reykjavík. 2) Þóra, f. 2.2. 1947 gift Guðmundi Kristjáni Guðmundssyni, f. 9.7. 1946. Þau búa í Hafnarfirði. Börn þeirra eru Oddný, f. 7.7. 1967, býr í Hamri, Noregi, Guðmundur Kristján, f. 10.7. 1968, en hann býr á Spáni, en starfar á Íslandi. 3) Snæbjörn, húsasmiður, f. 28.1. 1950, kvæntur Auði Garðarsdóttur, f. 2.6. 1953, áður kvæntur Guðbjörgu Friðriksdóttur, f. 6.2. 1954. Börn Snæbjörns og Guðbjargar eru Huldís, f. 28.8. 1977, býr á Eskifirði og Heiðar, f. 15.3. 1981, býr á Egilsstöðum. Dóttir Snæbjörns og Auðar er Rakel Rós, f. 19.6. 1991, býr í Reykjavík. Stjúpbörn Snæbjörns, börn Auðar, eru Garðar, f. 12.7. 1971, býr í Svíþjóð og Ingunn, f. 8.9. 1984, býr í Garðabæ. 4) Vésteinn, viðskiptafræðingur, f. 9.9. 1956, kvæntur Eddu Símonardóttur, f. 15.10. 1961, þau búa í Garðabæ. Börn þeirra eru Símon Óttar, f. 27.4. 1981, býr í Garðabæ, Dagbjört, f. 6.8. 1987, býr í Danmörku, Máney Rún, f. 7.5. 1990, býr í Garðabæ og Elín Eir, f. 28.3. 1999, býr í Garðabæ. 5) Páll, f. 7.2. 1958, kvæntur Grétu Dröfn Þórðardóttur, f. 19.5. 1958, þau búa á Hákonarstöðum á Jökuldal. Þeirra börn eru Sigrún Anna, f. 30.7. 1982, býr á Akureyri, Elínborg Sædís, f. 11.10. 1984, býr á Þrándarstöðum við Egilsstaði og Þórður Steinar, f. 27.6. 1989, býr á Akureyri.

Systkini Elínborgar voru Björn Jónas, f. 2.9. 1917, d. 7.7. 2021; Ingibjörg Soffía, f. 20.8. 1918, d. 25.9. 1999; Guðmundur, f. 8.7. 1919, d. 17.1. 2007; Sigurbjörg, f. 22.7. 1920, d. 1.1. 2011; Kolfinna Gerður, f. 12.8. 1924, d. 6.8. 2020; Snæbjörn, f. 12.8. 1924, d. 18.3. 2015; Halla Valgerður, f. 2.2. 1928, d. 5.3. 2004.

Foreldrar Elínborgar voru hjónin Anna Halldórsdóttir, húsmóðir, f. 21.10. 1886, d. 18.9. 1987, og Páll Guðmundsson, innheimtumaður hjá Ríkisútvarpinu, f. 29.3. 1885, d. 26.5. 1979.