Sigurmark Víkingar fagna dramatísku sigurmarki Danijels Dejans Djuric í sigri liðsins í lokaumferð Bestu deildarinnar fyrir tvískiptingu í gær.
Sigurmark Víkingar fagna dramatísku sigurmarki Danijels Dejans Djuric í sigri liðsins í lokaumferð Bestu deildarinnar fyrir tvískiptingu í gær. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Víkingur úr Reykjavík styrkti stöðu sína á toppnum með dramatískum útisigri á Fram, 3:2, þegar liðin áttust við í lokaumferð Bestu deildar karla í knattspyrnu fyrir tvískiptingu hennar í gær. Leikurinn var einkar fjörugur þar sem staðan var orðin 2:2 snemma í síðari hálfleik

Besta deildin

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Víkingur úr Reykjavík styrkti stöðu sína á toppnum með dramatískum útisigri á Fram, 3:2, þegar liðin áttust við í lokaumferð Bestu deildar karla í knattspyrnu fyrir tvískiptingu hennar í gær.

Leikurinn var einkar fjörugur þar sem staðan var orðin 2:2 snemma í síðari hálfleik. Reyndist Danijel Dejan Djuric svo hetja Víkings þegar hann skoraði sigurmarkið með skoti beint úr aukaspyrnu fjórum mínútum fyrir leikslok.

Danijel hefur nú skorað níu mörk í 21 leik í deildinni á tímabilinu.

Víkingur er nú með 59 stig og heldur því 14 stiga forskoti sínu á Val, sem er með 45 stig í öðru sæti, áður en efri hlutinn fer í hönd eftir landsleikjahlé með fimm umferðum.

Fram er í tíunda sæti með 19 stig, jafnmörg og ÍBV sæti neðar en með betri markatölu.

Valur vann á sama tíma þægilegan 4:1-sigur á HK á Hlíðarenda þar sem sigurinn var aldrei í hættu.

HK siglir lygnan sjó í sjöunda sæti og er sex stigum fyrir ofan fallsæti.

KA í neðri hlutanum

Fyrir lokaumferðina í gær átti KA smávegis möguleika á því að smeygja sér upp í efri hlutann en þurfti þá að vinna Fylki í Árbænum og treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum.

Svo fór að Fylkir og KA skildu jöfn, 1:1, og hafnaði KA því í sjöunda sæti með 29 stig áður en neðri hlutinn hefst. Akureyringar eru efstir í neðri hlutanum með 29 stig, tíu stigum fyrir ofan ÍBV í næstneðsta sæti.

Fylkir er áfram í níunda sæti en nú með 21 stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.

Dramatík í Vestmannaeyjum

ÍBV fékk KR í heimsókn til Vestmannaeyja og bjargaði stigi með dramatískum hætti þegar Richard King jafnaði metin í 2:2 í uppbótartíma. Reyndust það lokatölur.

KR er því í sjötta sæti efri hlutans með 32 stig. ÍBV er áfram í fallsæti, með jafnmörg stig en lakari markatölu en Fram.

Emil heldur áfram að skora

Stjarnan fékk Keflavík í heimsókn og vann geysilega öruggan sigur, 3:0. Emil Atlason var einu sinni sem oftar á skotskónum og er markahæstur í deildinni með 14 mörk.

Með sigrinum tryggði Stjarnan sæti sitt í efri hlutanum endanlega. Garðbæingar eru í fjórða sæti með 34 stig, jafnmörg og FH en umtalsvert betri markatölu. Vont verður hins vegar verra hjá Keflavík þar sem liðið er sem fyrr á botninum með 12 stig, sjö stigum frá öruggu sæti.

FH lagði Íslandsmeistarana

FH gerði frábæra ferð í Kópavoginn og lagði ríkjandi Íslandsmeistara Breiðabliks að velli, 2:0, á Kópavogsvelli. Kjartan Henry Finnbogason hélt áfram að minna á sig og skoraði sitt níunda deildarmark í sínum 19. leik í sumar.

Var um fyrsta sigur FH-inga á gervigrasi að ræða í að verða tvö ár.

Sem áður segir er FH í fimmta sæti með 34 stig. Breiðablik er áfram í þriðja sæti með 38 stig, 21 stigi á eftir toppliði Víkings.

Tvískipt deild eftir hlé

Þar með er ljóst að Víkingur, Valur, Breiðablik, Stjarnan, FH og KR leika í efri hluta Bestu deildarinnar í haust.

KA, HK, Fylkir, Fram, ÍBV og Keflavík mætast í neðri hlutanum. Keppni í efri og neðri hluta hefst um miðjan mánuðinn að loknu landsleikjahléi.

Nánari umfjöllun um leikina ásamt við viðtölum við leikmenn og/eða þjálfara liðanna má lesa á mbl.is/sport/efstadeild.