Höfundurinn Catherine Belton er fyrrverandi fréttaritari Financial Times í Moskvu og rannsóknarblaðamaður.
Höfundurinn Catherine Belton er fyrrverandi fréttaritari Financial Times í Moskvu og rannsóknarblaðamaður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í fyrsta hluta bókarinnar er sagt frá því er Pútín var sendur til Dresden í Austur-Þýskalandi. Aðgerð Lútsj [...] Á meðan Pútín starfaði með leynd á bak við tjöldin var jörðin farin að skjálfa undir fótum hans

Í fyrsta hluta bókarinnar er sagt frá því er Pútín var sendur til Dresden í Austur-Þýskalandi.

Aðgerð Lútsj

[...] Á meðan Pútín starfaði með leynd á bak við tjöldin var jörðin farin að skjálfa undir fótum hans. Sumir í leiðtogahópi KGB voru farnir að átta sig æ betur á hnignandi stöðu Sovétríkjanna í baráttunni við Vesturlönd og höfðu með leynd verið að undirbúa nýja leið fram á við. Fjárhirslur Sovétríkjanna voru að tæmast og þrátt fyrir tilraunir KGB og Stasi stóðu Sovétríkin alltaf höllum fæti í baráttunni við að komast yfir vestræna tækni, voru alltaf langt á eftir og drógust sífellt meira aftur úr. [...] Mótmælaalda var að byrja að rísa í allri austurblokkinni gegn kúgun kommúnistaleiðtoganna og Gorbatsjov þrýsti á aðra leiðtoga ríkja Varsjárbandalagsins um að taka upp svipaðar umbætur sem væru eina leiðin til að lifa af og bregðast við reiðiöldum og andófi. En nokkrir framsýnir KGB-menn vissu að þrátt fyrir þetta væri hrun yfirvofandi og fóru að búa sig undir það.

[...]

KGB varð æ sannfærðara um að hrun kommúnismans væri yfirvofandi og um miðjan níunda áratuginn hleypti það af stokkunum Aðgerð Lútsj til að undirbúa hugsanleg stjórnarskipti. Wolf fékk að fylgjast með þessu en eftirmaður hans í utanríkisleyniþjónustunni fékk ekki að gera það. Í ágúst 1988 sendi KGB háttsettan foringja, Borís Laptev, í hið glæsilega sendiráð Sovétríkjanna í Austur-Berlín til að hafa umsjón með aðgerðinni. Opinberlega var verkefni Laptevs að koma upp hópi manna sem áttu ásamt KGB að lauma sér inn í austur-þýska andófshópa. „Við þurftum að safna upplýsingum um andófshópana, stöðva þróun andófsins og koma í veg fyrir þreifingar í átt að sameiningu Þýskalands,“ sagði hann síðar. En staðreyndin var sú að eftir því sem mótmælin gegn kommúnistum færðust í aukana varð verkefni hans næstum að hinu gagnstæða. Hópurinn fór þess í stað að einbeita sér að því að stofna nýtt net leyniþjónustumanna sem átti að teygja sig djúpt inn í annað og þriðja lag pólitískra arma í Alþýðulýðveldinu. Þeir áttu að leita að mönnum sem gætu haldið áfram að vinna með leynd fyrir Sovétríkin, jafnvel í sameinuðu Þýskalandi. Mönnum sem ekki höfðu verið bendlaðir við neitt forystuhlutverk fyrir hrunið.

Ýmislegt bendir til þess að Pútín hafi verið fenginn til að taka þátt í þessu ferli. Á þessum tíma þjónaði hann sem flokksritari, í stöðu sem ætti að hafa komið honum í tíð tengsl við Hans Modrow, formann Sósíalíska einingarflokksins í Dresden. KGB virðist hafa vonað að þeir gætu búið Modrow undir að verða hugsanlegur arftaki Erichs Honecker, hins þaulsætna leiðtoga Austur-Þýskalands, og virðast jafnvel hafa haldið að hann myndi geta leitt þjóðina í gegnum hinar vægu perestrojka-legu umbætur. Vladímír Krjútsjkov, yfirmaður utanríkisleyniþjónustu KGB, heimsótti Modrow sérstaklega í Dresden árið 1986.

En Honecker neitaði alveg fram undir endalokin að segja af sér og neyddi KGB til að leita annað eftir njósnurum sem myndu halda áfram að vinna fyrir þá eftir fall austurblokkarinnar. Krjútsjkov neitaði því alltaf að hafa hitt Pútín á þessum tíma og því að Pútín hefði leikið eitthvert hlutverk í Aðgerð Lútsj, og það gerði Markus Wolf líka. [...]

Aðrar deildir Stasi fóru líka að undirbúa sig með leynd. [...]

Dresden Pútíns var miðdepill þessa undirbúnings. Herbert Kohler, yfirmaður HVA í Dresden, átti mikinn þátt í að stofna þessi sýndarfyrirtæki – hin svokölluðu „virku fyrirtæki“ – sem áttu að fela tengslin við Stasi og geyma „svarta peninga“ sem áttu að gera Stasi kleift að starfa áfram eftir hrunið. Kohler vann náið með austurrískum kaupsýslumanni sem hét Martin Schlaff, manni sem Stasi hafði fengið til að njósna fyrir sig snemma á níunda áratugnum. Schlaff var falið að smygla hlutum til að nota í verksmiðju sem reisa átti í Thüringen nálægt Dresden, en í henni átti að framleiða harða diska í tölvur. Frá árslokum 1986 til loka ársins 1988 fengu fyrirtæki Schlaffs meira en 130 milljónir marka frá ríkisstjórn Austur-Þýskalands fyrir þetta háleynilega verkefni sem var eitt af því umfangsmesta sem Stasi stjórnaði. En verksmiðjan varð aldrei tilbúin. Margir af hlutunum bárust aldrei en hundruð milljóna marka sem áttu að fara í verksmiðjuna og annað ólöglegt ráðabrugg hurfu inn í sýndarfyrirtæki Schlaffs í Liechtenstein, Sviss og Singapore.

Þessir fjármagnsflutningar áttu sér stað á meðan Pútín þjónaði sem aðaltengslaforingi á milli KGB og Stasi í Dresden, en tengsl KGB voru aðallega við HVA Kohlers. Ekki er ljóst hvort Pútín kom eitthvað að þeim. En mörgum árum síðar urðu tengsl Schlaffs og Pútíns ljós þegar austurríski kaupsýslumaðurinn skaut aftur upp kollinum í neti fyrirtækja í Evrópu sem voru miðlæg tannhjól í áhrifavaldandi aðgerðum ríkisstjórnar Pútíns. Schlaff hafði farið að minnsta kosti einu sinni til Moskvu á níunda áratugnum til að ræða við sovéska utanríkisviðskiptafulltrúa.

Mest af því sem Pútín gerði í Dresden er sveipað hulu, að hluta vegna þess að KGB var miklu skilvirkara en Stasi við að eyða gögnum eða flytja þau á brott fyrir hrunið. „Við erum í vanda með Rússana,“ sagði Sven Scharl, rannsóknarmaður í skjalasöfnum Stasi í Dresden. „Þeir eyddu næstum öllu.“ Í þeim skjölum sem komu frá Stasi er aðeins að finna nokkur brot sem varða störf Pútíns í Dresden. Mappa hans er þunn og hefur greinilega margsinnis verið meðhöndluð. Þar eru fyrirmæli frá yfirmanni Stasi, Erich Mielke, frá 8. febrúar 1988 sem segja að majór Vladímír Vladímírovítsj Pútín hafi hlotið bronsorðu hersins. Þar eru líka bréf frá Horst Böhm, yfirmanni Stasi í Dresden, og í þeim er félaga Pútín óskað til hamingju með afmælið. Þar er einnig sætaröðun í kvöldverðarboði 24. janúar 1989 í tilefni sjötíu og fimm ára afmælis Tsjekunnar, eins og sovéska öryggislögreglan hét upphaflega. Og þar eru ljósmyndir sem teknar voru í tilefni heimsóknar meira en fjörutíu Stasimanna, KGB-manna og herforingja í safn fyrsta skriðdrekahers Rússa. (Pútín kíkir þar út á milli gráleits massa af óþekkjanlegum andlitum.) [...]

Einu ummerkin um virkar njósnir sem tengjast Pútín er bréf frá honum til Böhm þar sem hann biður yfirmann Stasi í Dresden að koma aftur á símasambandi fyrir njósnara í þýsku lögreglunni sem „styður okkur“. Bréfið er stutt og ekki er farið út í nein smáatriði en sú staðreynd að Pútín skyldi hafa beint samband við Böhm virðist gefa til kynna að hann hafi leikið mikilvægt hlutverk. Jehmlich staðfesti síðar að Pútín hefði orðið aðaltengiliður KGB við Stasi fyrir hönd yfirmanns KGB, Vladímírs Shírokov. Á meðal þess sem nýlega fannst var annað skjal sem sagði sína sögu: Stasi-skilríki Pútíns sem opnuðu honum leið beint inn í byggingar Stasi og gerðu honum hægar um vik að ráða njósnara vegna þess að hann hefði ekki þurft að geta tengsla sinna við KGB.

Mörgum árum síðar, þegar Pútín varð forseti, gættu Markus Wolf og fyrrverandi samstarfsmenn Pútíns í KGB þess að leggja áherslu á að hann hefði verið lítilvægur þegar hann var í Dresden. Pútín var „einhvers staðar á hliðarlínunni“, sagði Wolf eitt sinn við þýskt tímarit og hann sagði að jafnvel „ræstingakonurnar“ hefðu fengið bronsorðu á borð við þá sem Pútín fékk. KGB-maðurinn sem Pútín deildi skrifstofu með þegar hann kom til Dresden, Vladímír Úsoltsev, sem af einhverjum ástæðum var leyft að skrifa bók um þennan tíma, gætti þess vandlega að leggja áherslu á lítilvægi starfa þeirra og sagði ekki frá einu einasta smáatriði þar að lútandi. Þrátt fyrir að hann viðurkenndi að þeir Pútín hefðu unnið með „ólöglegum“ eins og leynilegir svefnnjósnarar (e. „sleepers agents“) voru kallaðir, hefði sjötíu prósent af vinnutíma þeirra farið í að skrifa „tilgangslausar skýrslur“. Hann sagði að Pútín hefði aðeins tekist að finna tvo nýja njósnara á þeim fimm árum sem hann var í Dresden og að komið hefði að því að hann hætti að leita að þeim vegna þess að hann taldi það tímasóun. [...]

En ein heimild frá fyrstu hendi gefur í skyn að það að gera svona lítið úr starfi Pútíns í Dresden hafi verið gert til að draga hulu yfir annað verkefni – sem ekki hafi verið innan ramma laganna. Þessi heimild gefur í skyn að Pútín hafi verið sendur til Dresden einmitt vegna þess að borgin var krummaskuð, langt frá forvitnum augum í Austur-Berlín þar sem Frakkar, Bandaríkjamenn og Vestur-Þjóðverjar fylgdust grannt með. Að sögn fyrrverandi meðlims hinnar öfgavinstrisinnuðu Rauðu herdeildar sem sagðist hafa hitt Pútín í Dresden, vann Pútín við að styðja við meðlimi öfgahópsins sem framdi hryðjuverk í Vestur-Þýskalandi á áttunda og níunda áratugnum: „Það var ekkert í Dresden, alls ekkert, nema öfgasinnaðir vinstrimenn. Enginn hafði augun á Dresden, hvorki Bandaríkjamenn né Vestur-Þjóðverjar. Þar var ekkert. Nema eitt: fundirnir með þessum félögum.“

Tilvísunum er sleppt.