Vinátta Svava kveðst þakklát fyrir þann mikla vinskap sem myndaðist innan hópsins meðan á náminu stóð.
Vinátta Svava kveðst þakklát fyrir þann mikla vinskap sem myndaðist innan hópsins meðan á náminu stóð. — Ljósmynd/Svava Þóra Árnadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Norður-Atlantshafsbekkurinn er vestnorrænt samstarfsverkefni sem gerir framhaldsskólanemendum á Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og í Danmörku kleift að stunda nám við fjóra framhaldsskóla á þremur árum

Mist Þ. Grönvold

mist@mbl.is

Norður-Atlantshafsbekkurinn er vestnorrænt samstarfsverkefni sem gerir framhaldsskólanemendum á Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og í Danmörku kleift að stunda nám við fjóra framhaldsskóla á þremur árum. Svava Þóra Árnadóttir, sem var í fyrsta hópnum sem lauk námi á vegum verkefnisins, ber því vel söguna og segist þakklát fyrir að hafa haldið á vit ævintýranna strax að loknum grunnskóla.

Svava var einungis fimmtán ára þegar hún ákvað að leggja land undir fót og halda til Danmerkur þar sem fyrsta ár námsins fer fram. „Ég sá auglýsingu á netinu um að þetta verkefni væri að fara af stað og ákvað í kjölfarið að skella mér á kynningarfund í Verzló stuttu síðar. Mér fannst þetta hljóma ótrúlega spennandi og varð að grípa tækifærið,“ segir Svava.

Í Danmörku fékk Svava að hitta bekkinn sinn í fyrsta sinn, en næstu þrjú ár átti hópurinn eftir að stunda nám saman við framhaldsskóla í fjórum ólíkum löndum: Gribskov Gymnasium í Helsinge í Danmörku, miðnám í Kambdal í Færeyjum, Verzlunarskóla Íslands í Reykjavík og loks við GUX-framhaldsskólann í Sisimut í Grænlandi.

Svava segir upplifunina hafa verið einstaka þrátt fyrir að auðvitað fylgi því margar áskoranir að flytja ungur að heiman og til útlanda. „Fyrst var erfitt að kunna ekki tungumálið, að flytja ein að heiman og þurfa að sjá um sig sjálf. En svo eignaðist ég fljótt mína bestu vini í náminu og allt það sem við fengum að upplifa á skólagöngunni gerði þetta svo sannarlega þess virði.“

Meðan á náminu stóð fékk Svava að kynnast ólíkum menningarheimum landanna. Þá fékk hún meðal annars að fara á hundasleða, vélsleða og á gönguskíði á Grænlandi. „Þarna er svo rík menning og gestrisið fólk sem tók á móti okkur,“ segir Svava, sem kveðst afar þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að taka þátt í verkefninu sem leitt hafi til vinskapar sem muni fylgja henni út lífið. Hún segist mæla eindregið með náminu og hvetur alla þá sem eiga þess kost til að fræðast um nágrannalönd Íslands með þessum hætti.

„Færeyjar og Grænland eru við hliðina á okkur og við vitum flest lítið um þessi lönd. Ég vildi óska þess að við vissum meira og ég held að þetta sé góð leið til þess að ungt fólk fái tækifæri til að kynnast þessum löndum betur. Þau eru frábær og hafa svo sannarlega upp á margt að bjóða.“