Kauphöllin Magnús Harðarson, forstjóri NASDAQ Iceland, er gestur Dagmála sem sýnd verða á mbl.is í dag.
Kauphöllin Magnús Harðarson, forstjóri NASDAQ Iceland, er gestur Dagmála sem sýnd verða á mbl.is í dag. — Morgunblaðið/Hallur Már
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ýmislegt hefur orðið til þess að íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur ekki náð sér á það strik sem sést hefur á mörgum mörkuðum erlendis það sem af er ári. Þetta segir Magnús Harðarson forstjóri Kauphallarinnar en hann er gestur í nýjasta þætti Dagmála

Dagmál

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Dagmál

Stefán Einar Stefánsson

ses@mbl.is

Ýmislegt hefur orðið til þess að íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur ekki náð sér á það strik sem sést hefur á mörgum mörkuðum erlendis það sem af er ári. Þetta segir Magnús Harðarson forstjóri Kauphallarinnar en hann er gestur í nýjasta þætti Dagmála.

„Það hafa komið fréttir af tveimur stærstu félögunum á markaðnum sem fjárfestar hafa metið sem neikvæðar, annars vegar Alvotec og Marel hins vegar, og það hefur einhver smitáhrif inn á markaðinn. En ég held að það komi fleira til. Vextir eru náttúrlega að kýlast upp og það er náttúruleg samkeppni við fjárfestingar á hlutabréfamarkaði,“ segir Magnús.

Hann bendir á að óvissa í efnahagslífi landsins kunni einnig að hafa sitt að segja.

Kjarasamningar hafa áhrif

„Fram undan eru kjarasamningar og það er ekki ofsögum sagt að enginn veit hvernig því verður lent. Þannig að það eru óvissuþættir í umhverfinu. En svo eru aðrir þættir, m.a. mikill uppgangur í ferðaþjónsutu og þar eru tækifæri og við værum sjálfsagt að sjá einhverja meiri uppferð hjá fleiri félögum á markaðnum ef fleiri ferðaþjónustufyrirtæki væru skráð. Það eru horfur á því að það verði fleiri félög í greininni skráð en þau vega ekki þungt í dag,“ segir hann.

Vísar Magnús þar m.a. í fyrirætlanir eigenda Bláa lónsins um skráningu félagsins á markað. Sömu sögu er að segja af Arctic Adventures og þá hefur einnig verið upplýst að eigendur Íslandshótela hafi skoðað möguleika á skráningu.

Segist forstjórinn bjartsýnn fyrir hönd greinarinnar og hann tekur undir að samþjöppun á þeim markaði væri æskileg til þess að ná fram aukinni hagræðingu.

„Ég held að markaðurinn geti leikið þarna mikilvægt hlutverk. Það er þekkt að það er ávinningur í því fyrir skráð fyrirtæki að geta notað bréfin sín sem gjaldmiðil í yfirtökum og maður er oftar en ekki að sjá skráð félög taka óskráð yfir frekar en öfugt.“

Landsvirkjun góður kostur

Magnús bendir á að orkugeirinn, sem sé stór í íslensku efnahagslífi, sé því miður ekki hluti af hinum skipulega hlutabréfamarkaði. Viðskipti með þau fyrirtæki séu vissulega umdeild en að margir kostir fælust í því ef t.d. Landsvirkjun yrði skráð á markað. Ríkissjóður gæti t.d. losað 20% hlut í fyrirtækinu með yfirlýsingu um að eftirstæður hlutur yrði um alla framtíð áfram í fyrri eigu.

„Það myndi hafa margs konar jákvæðar afleiðingar. Þarna væri komið eitt stærsta fyrirtækið á markað, og í heildina jafnvel það stærsta. Slík fyrirtæki myndu laða að erlenda fjárfesta, fyrst í stað vegna stærðar því erlendir fjárfestar leita fyrst í stærri fyrirtæki og fara svo í þau smærri. Í öðru lagi er orkan á Íslandi atvinnugrein sem er dálítið sérstök fyrir Ísland. Þetta er eitt af séreinkennum Íslands og ástæða til að koma til Íslands er ekki að fjárfesta í nákvæmlega því sama og þú gerir á erlendum mörkuðum heldur viltu koma hingað af einhverri sértækri ástæðu.“

Segir Magnús að þessi eina skráning gæti farið langt með að koma íslenska markaðnum upp um flokk í MSCI-vísitölufyrirtækinu og það myndi aftur framkalla jákvæð áhrif í gegnum fjármagnsinnflæði.

„Það má ekki gleyma því að ef við styrkjum efsta lagið á fjármagnsmarkaðnum þá styrkir það alla keðjuna […]“ segir Magnús.