Kristín Elísabet Hólm fæddist 16. júní 1940. Hún lést 1. ágúst 2023.

Útför fór fram 18. ágúst 2023.

Elsku amma mín. Það er sárt að kveðja þig en að sama tíma er ég þakklát fyrir þann langa tíma sem við áttum saman. Heimili þitt og afa í Hörgslundi var mitt annað heimili og þaðan á ég margar af mínum bestu minningum úr barnæsku. Þar héldum við hátíðleg jól, skáluðum fyrir nýju ári og borðuðum fisk á mánudögum. Það er nefnilega sá tími sem stendur upp úr, hversdagsleikinn.

Þú minntist þess oft þegar ég sagði við þig sem lítil stúlka: „Það er svo gaman að koma til ömmu, því hún tekur alltaf á móti mér.“ En það gerðir þú alltaf, þegar von var á heimsókn varst þú tilbúin í dyrunum og tókst á móti mér. Þú varst einstaklega hlý og góð en á sama tíma hreinskilin og sagðir hlutina eins og þeir voru. Ekkert var þér óviðkomandi. Þú spurðir spurninga og vissir alltaf hvað var í gangi hjá þínum nánustu. Þú áttir það jafnvel til að vita það á undan mér sjálfri hvað gekk á en oft liðu ekki nema nokkrar mínútur frá því að ég hugsaði til þín þangað til þú hringdir í mig. Þannig vorum við tengdar.

Þar sem við systkinin fengum aldrei að kynnast móðurömmu okkar áttum við bara eina ömmu. Þú sinntir hlutverki tveggja með því að vera alltaf til staðar, kenna okkur að lesa, taka þátt í uppeldinu, fara með bænir, sauma á okkur föt og passa okkur þegar við vorum veik. Þannig gekkst þú í öll verkefni óumbeðin.

Ef eitthvað stóð til vildir þú vita hvert einasta smáatriði. Alveg frá því hvaða fatnaði langömmubörnin ætluðu að klæðast yfir í hvernig servíettur yrðu á borðunum. Ef börnin mín klæddust flíkum úr heimi hraðtískunnar fussaðir þú yfir ómerkilegum saumaskap og þú hafðir svo sannarlega rétt fyrir þér.

Þú varst mikill fagurkeri og hafðir mikinn áhuga á heimilinu, hvort sem það var þitt eigið eða annarra. Þú fylgdist vel með þegar við Gunnar vorum að koma okkur fyrir á okkar fyrsta heimili og hafðir skoðun á hverju smáatriði. Því miður hafðir þú ekki heilsu til þess að heimsækja okkur oft á Gunnarsbraut en ég man eftir tveimur skiptum. Í annað skipti til þess að aðstoða mig við að stytta gardínur og hitt skiptið í skírnarveislu Hörpu Sigríðar. Ólík tilefni en í þínum huga bæði jafn mikilvæg.

Þú varst einstaklega flink í höndunum, kenndir mér á saumavél, straujárnið, hvernig væri best að brjóta saman handklæði og að það færi betur með sængurnar ef búið er um rúmið strax á morgnana. Þú kenndir mér svo margt en fyrst og fremst sýndir þú mér ást og vinskap sem ég verð ævinlega þakklát fyrir.

Langömmubörnunum þínum sinntir þú af miklum áhuga og ég er þakklát fyrir að þú hafir fengið að kynnast Hörpu Sigríði og Bergsteini.

Þangað til þú tekur á móti mér næst,

Birna Erlingsdóttir.