Haukur Bjarnason fæddist í Neskaupstað 4. maí 1934. Hann lést 9. ágúst 2023 á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík.

Foreldrar hans voru Bjarni Lúðvíksson, f. 20. mars 1907, d. 30. júní 1982, málarameistari, og Laufey Arnórsdóttir, f. 21. febrúar 1910, d. 15. júní 1996, húsmóðir. Systkini Hauks eru Ingibjörg, f. 8. nóvember 1941, Lúðvík, f. 14. mars 1943, d. 27. maí 1945, og Lúðvík Bjarni, f. 7. júlí 1949.

Haukur kvæntist árið 1966 Jóhönnu Borgþórsdóttur, f. 1. ágúst 1940. Foreldrar hennar voru Borgþór Björnsson, f. 5. apríl 1910, d. 4. júlí 1996, og Inga Erlendsdóttir, f. 29. október 1910, d. 15. júlí 1999.

Börn Hauks og Jóhönnu eru:

1) Bjarni, f. 5. september 1969, hæstaréttarlögmaður. Maki Helga Dögg Björgvinsdóttir, f. 9. apríl 1974, rekstrarstjóri. Börn: Björgvin Haukur, f. 21. janúar 2002, Inga Sif, f. 18. febrúar 2005 og Stefán Gauti, f. 3. mars 2011.

2) Þór, f. 19. mars 1972, framkvæmdastjóri. Maki Lilja Aðalsteinsdóttir, f. 7. júní 1973, lögfræðingur. Börn: Borgþór Örn, f. 28. nóvember 2002, Hulda Kristín, f. 13. október 2005, og Jóhanna Melkorka, f. 13. október 2005.

3) Arnór Gauti, f. 5. ágúst 1982, sérfræðingur í Landsbankanum. Maki Ásthildur Gunnarsdóttir, f. 10. nóvember 1984, markaðsstjóri. Börn: Ólafur Aron, f. 13. júní 2017 og Gunnar Haukur, f. 18. apríl 2020.

Haukur ólst upp í Neskaupstað. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1955 og lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1963. Hann starfaði fyrst um sinn eftir útskrift sem fulltrúi á lögmannsstofu, vann síðan hjá Verðlagsskrifstofunni en starfaði lengst af sjálfstætt við lögfræðistörf og fasteignasölu. Haukur var lengi með skrifstofu í Bankastræti í Reykjavík.

Útför Hauks hefur farið fram í kyrrþey.

Það er ekki auðvelt að setjast niður og skrifa minningarorð um föður sinn. Elskulegur faðir minn ólst upp í Neskaupstað á Norðfirði. Fluttist úr foreldrahúsum til Reykjavíkur í nám ungur að árum. Stóð ungur á eigin fótum í höfuðborginni. Hann var elstur fjögurra systkina, varð stúdent frá MR og síðan lögfræðingur frá Háskóla Íslands. Ættgarður föður míns var stór og hann einkar stoltur af ættingjum sínum og frændgarði. Hann gat rakið ættartengsl langt aftur. Þótti vænt um foreldra sína, systkini og aðra ættingja. Reglulega rifjaði hann upp minningar eða sögur tengdar foreldrum og systkinum sínum. Það var alltaf ævintýraglampi í augum hans þegar hann talaði um barnæsku sína á Norðfirði.

Faðir minn tjáði sjaldan tilfinningar sínar og var ekkert sérstaklega góður í að sýna þær. Dálítill einfari og hleypti ekki mörgum að sér. Hann tjáði tilfinningar sínar á annan hátt en mér var alltaf alveg sama um það og þótti alltaf afar vænt um hann. Fjölskyldan átti hug hans allan. Hann var lögmaður og mikill fræðimaður, með sterkar gáfur, hlýr en dulur. Hann hélt sig mest heima við. Eflaust spilaði slæm sjón í áratugi inn í hlédrægnina.

Faðir minn sýndi væntumþykju sína við okkur bræðurna með samtölum um fréttir líðandi stundar, íþróttir eða stjórnmál. Við rökræddum aldrei því hans stíll var að segja frá í stað þess að rökræða. Faðir minn elskaði íþróttir og stjórnmál. Hann var sjálfur liðtækur sundmaður á sínum yngri árum. Hann þekkti öll heims- og ólympíumet í frjálsum íþróttum upp á sekúndu og sentímetra. Fylgdist vel með enska boltanum. Hátíðarstundir hans voru þegar alþjóðleg mót voru haldin en þá var lítið um annað talað á heimilinu.

Horft til baka á lífshlaup föður míns þá var lífið líklega enginn dans á rósum. Lífið fer upp og niður hjá okkur öllum. Í áratugi gerði slæm sjón honum erfitt um vik. Það var lán hans í lífinu að hafa fundið móður okkar sem skildi hann svo vel. Hjartahlýja mömmu hefur aldrei átt sér takmörk. Það sýndi sig í veikindum föður okkar sem fyrst veiktist fyrir rúmum 20 árum. Erfiðust voru síðustu fimm árin þar sem föður okkar hrakaði mikið. Einangrunin jókst en á þessum síðustu árum vék móðir okkar aldrei frá honum og vildi annast hann sjálf. Elsku mamma, hvað þú hefur alltaf verið óendanlega sterk og góð við okkur. Þinn missir er mestur.

Síðustu fjórir mánuðir voru erfiðir með tíðum heimsóknum á spítalann. Móðir okkar vék ekki frá honum frekar en áður og við bræðurnir reyndum að heimsækja hann daglega, sýna honum alla þá umhyggju sem hægt var. Hann hefði aldrei beðið um það sjálfur. Talaði aldrei um veikindi sín og spurði frekar frétta af fjölskyldunni. Tók því af æðruleysi þegar sólarlagið var skammt undan. Sjálfur fylgdi ég honum síðustu andartökin, þakkaði honum fyrir allt, fyrirgaf allt og óskaði honum góðrar ferðar í sumarlandið. Veit að hann gerði slíkt hið sama með þögninni. Barnabörnin syrgja afa sinn sárt enda dáðist hann að þeim. Bið himnaföðurinn um að taka vel á móti föður okkar Hauki Bjarnasyni.

Þór Hauksson.

Með þessum örfáu orðum viljum við kveðja afa okkar, Hauk Bjarnason.

Afi var sælkeri sem kunni að meta gott súkkulaði og góðar kökur en var svo skyndilega kominn í megrun þegar honum var boðið salat. Þetta þótti okkur fyndið og munum þetta og annað í fari afa þegar við hugsum til baka. Hann var mikill áhugamaður um sjónvarpsíþróttir og var hann mjög fær í að skipta ört á milli rása á sjónvarpinu. Þannig tókst honum að horfa á fjölmargar sjónvarpsrásir í einu.

Þótt afi Haukur hafi yfirleitt verið fámáll og ekki borið tilfinningar sínar á torg þá vitum við að honum þótti vænt um okkur barnabörnin og fylgdist vel með því sem við tókum okkur fyrir hendur. Væntumþykjuna sýndi hann með því að bjóða okkur súkkulaði eða hvetja okkur til að smakka nýjan djús sem hann hafði keypt. Það var hans leið til að láta okkur vita að við skiptum hann máli.

Hvíl í friði, elsku afi.

Björgvin Haukur, Inga Sif og Stefán Gauti.