Magnús segir að gjaldeyrismarkaðurinn sé ógagnsær og grunnur.
Magnús segir að gjaldeyrismarkaðurinn sé ógagnsær og grunnur. — Morgunblaðið/Kristinn
Ummæli Magnúsar Harðarsonar forstjóra Kauphallarinnar í Dagmálum Morgunblaðsins þess efnis að gjaldeyrismarkaðurinn hér á landi sé óþarflega ógagnsær og grunnur og að erlendir fjárfestar veigri sér við innkomu á markaðinn komu Arion banka á óvart og …

Ummæli Magnúsar Harðarsonar forstjóra Kauphallarinnar í Dagmálum Morgunblaðsins þess efnis að gjaldeyrismarkaðurinn hér á landi sé óþarflega ógagnsær og grunnur og að erlendir fjárfestar veigri sér við innkomu á markaðinn komu Arion banka á óvart og hyggst bankinn óska frekari skýringa frá Kauphöllinni. Þetta kemur fram í svari Arion banka við fyrirspurn ViðskiptaMoggans.

„Dýpt gjaldeyrismarkaðar hér á landi hefur aukist verulega eftir að afleiðuviðskipti voru heimiluð árið 2021 án þess að takmarkast við áhættuvarnir. Erlendir fjárfestar hafa notið góðs af því eins og t.d. má sjá af þeirri staðreynd að á 12 mánaða tímabili, til og með maí sl., var nýfjárfesting erlendra aðila í skráðum hlutabréfum 75 milljarðar króna. Það er ekki bara það mesta frá því að fjármagnshöft voru afnumin heldur meira en tvöfalt árlegt innflæði síðustu ár,“ segir í svarinu.

Þá segir að Arion banki starfi með hagsmuni viðskiptavina sinna að leiðarljósi og hafi unnið farsællega með erlendum fjárfestum.

„Á gjaldeyrismarkaði starfar bankinn eftir reglum Seðlabanka Íslands og innan Arion banka er virkt innra eftirlit þegar kemur að viðskiptum með fjármálaafurðir, þar á meðal gjaldeyri,“ segir í svari Arion.

Í svari Íslandsbanka við fyrirspurn ViðskiptaMogga kemur fram að bankanum beri að fara varlega með allar upplýsingar sem koma frá viðskiptavinum og kannast bankinn ekki við upplýsingaleka. „Gjaldeyrismarkaðurinn er smár í erlendum samanburði og tekur mið af því litla hagkerfi sem Ísland er. Til þess að auka skilvirkni eru Íslandsbanki, Arion banki og Landsbanki viðskiptavakar með gjaldeyri og skuldbinda sig til að halda stöðugt úti leiðbeinandi kaup- og sölutilboðum gagnvart hvor öðrum og Seðlabanka Íslands fyrir viðskipti með evru á móti íslensku krónunni,“ segir í svari Íslandsbanka.