Flóðasvæði Hús og bílar fóru á kaf í Volos vegna flóðanna sem skullu á í Magnesíuhéraði Grikklands í gær.
Flóðasvæði Hús og bílar fóru á kaf í Volos vegna flóðanna sem skullu á í Magnesíuhéraði Grikklands í gær. — AFP/Eurokinissi
Að minnsta kosti einn lést í Grikklandi af völdum gríðarlegra flóða sem skullu á í kjölfar regnstorms í austurhluta landsins í gær. Landið hefur mátt glíma við óblíða náttúru að undanförnu þar sem miklir gróðureldar hafa geisað í Grikklandi undanfarnar vikur

Að minnsta kosti einn lést í Grikklandi af völdum gríðarlegra flóða sem skullu á í kjölfar regnstorms í austurhluta landsins í gær. Landið hefur mátt glíma við óblíða náttúru að undanförnu þar sem miklir gróðureldar hafa geisað í Grikklandi undanfarnar vikur.

Yannis Artopios, talsmaður grísku ríkisstjórnarinnar, sagði að hinn látni, sem var í Magnesíuhéraði Grikklands, hefði drukknað í flóðinu, en að einnig væri vitað um einn fjárhirði sem væri týndur.

Úrkoman mældist um 200 mm í Volos, helstu borg Magnesíuhéraðs, en í nágrannaþorpinu Zagora var úrkoman um 516 mm að mati veðurstofu Grikklands. Flæddi vatn víða um kjallara og götur og þurftu slökkviliðsmenn að dæla vatni úr kjallara sjúkrahússins í Volos.

Veðurstofa Grikklands hefur varað við því að illviðrið gæti haft mikil áhrif í landinu fram á fimmtudag og eru stjórnvöld á hæsta viðbúnaðarstigi vegna þessa. Stormurinn olli aurskriðu á eyjunni Evia á mánudaginn, og uppskera skemmdist við Elis á Pelópsskaga.

Fylgjast með svæðinu

Veðurfarið hefur ekki leikið við Grikki í sumar, þar sem miklir gróðureldar geisuðu víða um landið meðan hlýjast var í veðri. Dadia-þjóðgarðurinn í Evros-héraði varð einna verst úti í eldunum og varð stór hluti þjóðgarðsins þeim að bráð undanfarnar tvær vikur.

Artopios sagði við fjölmiðla í gær að slökkviliðsmenn hefðu nú náð öllum völdum á eldunum í Dadia og ekkert svæði væri lengur virkt eldsvæði. Slökkviliðsmenn væru þó enn á staðnum til þess að fylgjast með og grípa inn í ef eldurinn kviknaði á ný.

Gróðureldastofnun Evrópusambandsins sagði fyrr í sumar að eldarnir í Grikklandi væru þeir stærstu sem stofnunin hefði séð frá því að hún var sett á laggirnar árið 2000, en áætlað er að rúmlega 81.000 hektarar af skóglendi hafi brunnið í Dadia-þjóðgarðinum.

Er það rúmlega helmingur alls þess svæðis sem brann í Grikklandi í sumar, sem nam að minnsta kosti 150.000 hekturum. Að auki fórust 26 manns í eldunum í Grikklandi fyrr í sumar.