Jórunn Anna Sigurjónsdóttir fæddist 18. júlí 1934. Hún lést 1. ágúst 2023.

Útför Jórunnar Önnu fór fram 16. ágúst 2023.

Ég minnist ömmusystur minnar, Önnu frænku, með kærleika í hjarta. Anna frænka var ein sú skilningsríkasta, nýtnasta og fjölskylduræknasta kona sem ég hef hitt.

Anna var alltaf til staðar fyrir fólkið sitt, gaf góð ráð og var tilbúin að hlusta. Hún hélt sterkum fjölskyldutengslum og lét sig ekki vanta í veislur og viðburði. Þegar móðir mín varð ráðskona í sveit bjuggum við fjölskyldan á Ystaskála og Anna var dugleg að heimsækja okkur. Ég á ótal margar fallegar minningar frá þeim heimsóknum. Þá var oft elduð kjötsúpa sem öllum þótti herrans matur. Þegar Fríða litla, dóttir Önnu, kom með fékk ég að vera besta stóra frænka og undi mér vel í hlutverkinu.

Anna frænka var myndarleg handavinnukona og húsmóðir. Hún kenndi mér að nýta vel allan mat, kaupa í frystinn og taka slátur. Hún gat gert það besta úr öllu hráefni. Hún gat meira að segja gert dýrindis máltíð úr lambahjörtum og eplum. Þau voru ófá símtölin okkar á milli þegar ég byrjaði að búa og var að fóta mig í eldamennsku.

Ég minnist góðra stunda frá jólunum eftir að við fluttum í borgina úr sveitinni. Allar góðu kökurnar sem Anna frænka bakaði og stundirnar okkar saman þegar við skiptumst á jólapökkum. Græna kakan úr bústaðarferðinni í Ölfusborgum er ógleyman-
leg.

Elsku Anna frænka. Ég bið að heilsa í sumarlandið. Takk fyrir samveruna og stuðninginn í gegnum tíðina. Minningin um þig lifir í hjarta mínu og þau fallegu gildi sem þú lagðir svo ríka áherslu á.

Guðrún Kristín
Ívarsdóttir.