Ása Skúladóttir
Ása Skúladóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ása Skúladóttir stjarneðlisfræðingur hefur fengið styrk frá Evrópska rannsóknaráðinu upp á 1,5 milljónir evra, eða um 215 milljónir króna, til að vinna að verkefni sínu „TREASURES: Digging into dwarf galaxies“

Ása Skúladóttir stjarneðlisfræðingur hefur fengið styrk frá Evrópska rannsóknaráðinu upp á 1,5 milljónir evra, eða um 215 milljónir króna, til að vinna að verkefni sínu „TREASURES: Digging into dwarf galaxies“. Ása útskrifaðist með doktorsgráðu í stjarneðlisfræði frá háskólanum í Groningen í Hollandi árið 2016, og vinnur núna sem vísindakona við háskólann í Flórens á Ítalíu.

Í tilkynningu kemur fram að með verkefni sínu stefni Ása á að nota ný gögn um nálægar dvergvetrarbrautir til að reyna að svara grundvallarspurningum eins og: Hvernig voru fyrstu stjörnurnar í alheiminum? Hvernig urðu frumefni eins og kolefni, járn og gull til?

Þá hefur Anton Karl Ingason, dósent í íslenskri málfræði og máltækni við Háskóla Íslands, sömuleiðis fengið 215 milljóna króna styrk frá Evrópska rannsóknaráðinu til verkefnis sem miðar að því að skýra hvernig málnotkun fólks breytist á lífsleiðinni.

Í rannsókninni er notuð svokölluð háskerpuaðferð til að fá fram nákvæmari mynd af slíkum breytingum en áður hefur verið gert. Þetta er stærsti styrkur sem fengist hefur til rannsókna í íslenskum málvísindum, segir í tilkynningu frá Háskóla Íslands.