Sigrún Jóhannsdóttir fæddist 4. mars 1928. Hún lést 16. ágúst 2023.

Útför Sigrúnar fór fram 28. ágúst 2023.

Þegar við systkinin hugsum til ömmu hugsum við um spil, servíettur, ketti, Æskuna, þrjósku og silfurskeiðar. Það var þó ekki þannig að amma hafi fæðst með silfurskeið í munni. Amma þurfti á köflum á allri sinni þrjósku og dugnaði að halda, enda vann hún oft erfiðisvinnu þrátt fyrir að líkaminn leyfði lítið. En hún passaði að barnabörn fengju silfurskeiðar við fæðingu og tengdadæturnar í jólagjafir. Amma safnaði ýmsum gersemum, servíettum, spilum, pennum og fleiru og aðstoðaði okkur systur við söfnun. Hún safnaði líka krónum inn á bók fyrir öll barnabörnin, leyfði sér lítið en sparaði fyrir okkur. Hún kenndi okkur að spila á spil og að passa að skrifa í allar gestabækur sem á vegi okkar urðu. Hún keypti fyrir okkur öll tölublöð Æskunnar, en við þurftum alltaf að skila þeim eftir lestur, svo hún gæti látið binda þau inn í stórar bækur.

Þegar við fórum í heimsókn til ömmu var endalaust hægt að dunda sér við að skoða glingur á hillunum, sem hún leyfði okkur fúslega að skoða. Amma átti alla vega tvo ketti, sem hétu bara Kisa, misgeðgóða, og þeir áttu til að vera annaðhvort of uppáþrengjandi eða reyna að veiða tærnar á okkur þegar við gistum á gólfinu í svefnpokum. Eftir að við fluttum suður hjálpaði amma okkur systkinum að halda uppi okkar eigin spilasafni með fallegum gömlum óopnuðum spilastokkum sem við fengum í jólagjafir þegar hún kom og eyddi með okkur jólunum.

Þrjóska hefur einkennt ömmu allt hennar líf. Í febrúar í ár var amma orðin mjög veik, útlitið slæmt og fjölskyldan var kölluð til að kveðja. En amma þrjóskaðist við og hafði miklar áhyggjur af því að fjölskyldan fengi ekki bollur, þar sem veikindin bar upp á bolludaginn sjálfan. Eitt barnabarnið fór því í skyndi að sækja bollur fyrir viðstadda. Amma drakk kaffi og hresstist öll og hélt upp á 95 ára afmælið með stórfjölskyldunni í mars.

Við systur fengum að sitja hjá ömmu kvöldið áður en hún lést. Þegar við fórum bauð hún okkur góða nótt. Góða nótt elsku amma.

Sigrún Ósk, Katrín Rún
og Ingvar Haukur.