Á vígstöðvunum Selenskí Úkraínuforseti heimsótti vígstöðvarnar í nágrenni Bakhmút í gær og fór yfir stöðuna ásamt hershöfðingjum sínum.
Á vígstöðvunum Selenskí Úkraínuforseti heimsótti vígstöðvarnar í nágrenni Bakhmút í gær og fór yfir stöðuna ásamt hershöfðingjum sínum. — AFP/Forsetaembætti Úkraínu
Úkraínumenn reyna nú enn að stækka það svæði sem þeir hafa náð að frelsa í Saporísja-héraði síðustu daga og vikur og var fótgöngulið þeirra sagt vera komið að þriðja og síðasta hlutanum af „Súróvíkin-varnarlínunni“ svonefndu í þorpinu Verbove

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Úkraínumenn reyna nú enn að stækka það svæði sem þeir hafa náð að frelsa í Saporísja-héraði síðustu daga og vikur og var fótgöngulið þeirra sagt vera komið að þriðja og síðasta hlutanum af „Súróvíkin-varnarlínunni“ svonefndu í þorpinu Verbove.

Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War, ISW, sagði í stöðumati sínu í gær að ekki væri þó hægt að fullyrða að Úkraínumenn hefðu eða væru að ná að brjótast í gegnum varnarlínuna þar sem enn hefði ekki sést til þungavopna þeirra við þriðju varnarlínuna í neinum mæli. Úkraínuher er þó að mati ISW farinn að þrýsta vel á varnarlínu Rússa á milli þorpanna Verbove og Robotíne.

Rússar sögðust í gær hafa náð að granda einum af þeim fjórtán Challenger 2-skriðdrekum sem Bretar sendu til Úkraínumanna og birtu myndband sem sýndi brennandi flak hans. Er þetta í fyrsta sinn sem slíkur skriðdreki tapast í orrustu. Skriðdrekarnir hafa verið settir undir 82. fallhlífahersveit Úkraínumanna, sem leiðir nú tilraunir þeirra til að brjótast í gegnum varnarlínu Rússa.

Hamish de Bretton-Gordon, fyrrverandi skriðdrekaforingi í breska hernum, sagði við breska dagblaðið Daily Telegraph að miðað við skemmdirnar á skriðdrekanum sem sæjust á myndbandinu mætti gera ráð fyrir að áhöfnin hefði lifað af, auk þess sem líklega væri mögulegt að gera við skriðdrekann og senda aftur til orrustu. Heimildarmaður breska ríkisútvarpsins BBC staðfesti svo síðar um daginn að áhöfnin hefði sloppið heil á húfi.

Halda áfram drónaárásum

Rússnesk stjórnvöld sögðust í gær hafa skotið niður árásardróna Úkraínumanna sem hefðu stefnt að skotmörkum í Moskvu og á Krímskaga. Sergei Sobjanín borgarstjóri Moskvu sagði í gærmorgun að loftvarnir borgarinnar hefðu skotið niður þrjá dróna sem hefðu verið sendir til árása á höfuðborgina.

Féll enginn í árásunum, að sögn Sobjaníns, en brakið úr einum drónanum olli skemmdum í Zavídovo í Tver-héraði sem kallaði á viðbrögð slökkviliðs. Vladimír Pútín Rússlandsforseti var á samfélagsmiðlum sagður eiga hús í nágrenninu þar sem dróninn féll til jarðar. Sobjanín sagði fyrir helgi að höfuðborgin og nágrenni hennar yrði nú nær daglega fyrir drónaárásum Úkraínumanna.

Rússneska varnarmálaráðuneytið lýsti því svo yfir síðar um daginn að herinn hefði skotið niður dróna yfir Krímskaga. Úkraínumenn hafa lagt á það allt kapp að endurheimta skagann, sem Rússar innlimuðu ólöglega eftir innrás sína árið 2014, og hafa drónaárásir því verið tíðar þar frá upphafi innrásarinnar.

Kim og Pútín ætla að funda

Bandaríkjastjórn greindi frá því á mánudagskvöldið að Kim Jong-un einræðisherra Norður-Kóreu hefði uppi áform um að funda með Pútín Rússlandsforseta í Vladivostok í næstu viku, en þá verður haldin þar ráðstefna um austræn efnahagsmál.

Fregnirnar af hinum fyrirhugaða fundi koma í kjölfar þess að Bandaríkjastjórn sagði að viðræður á milli Norður-Kóreumanna og Rússa um sölu á norðurkóreskum vopnum og skotfærum til Rússlands væru langt komnar. Eru Rússar sérstaklega sagðir sækjast eftir skotfærum fyrir stórskotalið og skriðdrekabönum frá Norður-Kóreumönnum sem vilja líklega á móti fá aðstoð við eldflaugatilraunir sínar.

Dmitrí Peskov talsmaður Rússlandsforseta sagðist í gær ekki geta staðfest að Pútín og Kim ætluðu að funda. Ben Wallace, sem nýverið sagði af sér sem varnarmálaráðherra Bretlands, sagði hins vegar að fregnirnar af hinum fyrirhugaða fundi sýndu að Rússar væru nú farnir að „betla vopn frá sjöunda áratugnum af Norður-Kóreu“.

Vilja uppræta mansalshring

Stjórnvöld á Kúbu, sem lengi vel hafa talið Rússa til sinna helstu vina, lýstu því yfir í gær að þau hefðu borið kennsl á mansalshring sem hefði það markmið að narra kúbverska þegna til að taka þátt í innrás Rússa í Úkraínu.

Sagði utanríkisráðuneyti Kúbu í yfirlýsingu sinni að stjórnvöld væru nú að vinna að því að leysa upp hringinn sem hefði reynt að fá Kúbumenn búsetta í Rússlandi til að skrá sig í herinn. Hefði hringurinn einnig reynt að fá einhverja sem búsettir eru á Kúbu til þess að fara til Úkraínu.

„Kúba er ekki aðili að Úkraínustríðinu,“ sagði ráðuneytið á Twitter-aðgangi sínum og hét því að stjórnvöld á Kúbu myndu beita sér gegn hverjum þeim sem reyndi að fá kúbverska þegna til þess að skrá sig sem málaliða í hernaði gegn nokkurri annarri þjóð.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson