Í ráðhúsinu Var þetta fyrsti fundur í borgarstjórn eftir sumarfrí.
Í ráðhúsinu Var þetta fyrsti fundur í borgarstjórn eftir sumarfrí. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Klara Ósk Kristinsdóttir klaraosk@mbl.is Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir mikinn ágreining milli meirihlutans og minnihlutans í borgarstjórn vegna kostnaðaráætlunar samgöngusáttmálans. Um mikilvægi sáttmálans séu þó allir sammála.

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir mikinn ágreining milli meirihlutans og minnihlutans í borgarstjórn vegna kostnaðaráætlunar samgöngusáttmálans. Um mikilvægi sáttmálans séu þó allir sammála.

Sáttmálinn var á meðal þess sem rætt var fundi borgarstjórnar í gær. Umræðan var tekin að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar.

Hildur sagði að sér fyndist sem meiri- og minnihluti væru fremur ósammála um mikilvægi þess að endurskoða áætlanir og tryggja að þær væru raunhæfar og ábyrgar. Hún sagði fulltrúa meirihlutans hafa stigið fram og sagt að þetta væru svo stórkostlegar samgönguframkvæmdir sem samið hefði verið um að engu máli skipti hvað þær myndu kosta.

Hún segir sjálfstæðismenn bera meiri virðingu fyrir skattfé en svo að hlutirnir megi kosta hvað sem er. Þó er hún þeirrar skoðunar að framkvæmdirnar séu mjög mikilvægar og að eftir þeim hafi verið beðið lengi. Hildur segir samt sem áður að þær komist ekki til framkvæmda ef ekki sé unnið eftir áreiðanlegum áætlunum sem standist, bæði hvað varðar tíma og kostnað.

„Menn eru að vakna upp við vondan draum núna, að upphaflega áætlunin var svolítið froðukennd og gloppótt og stóðst enga skoðun. Þess vegna hefur lítið gerst af því sem samið var um í þessum sáttmála,“ segir Hildur.

Á fundi borgarstjórnar var einnig rætt um kynnisferð borgarráðs til Portland og Seattle, sem farin var dagana 20.-24. ágúst. Borgarfulltrúar voru ósammála um mikilvægi þess að ræða ferðina á fundi borgarstjórnar, sérstaklega þar sem um var að ræða fyrsta mál á dagskrá.

Á fundinum kvaðst Hildur hissa á því að eftir langt og tíðindamikið sumarfrí, þar sem mörg mál hafa brunnið á borgarbúum, væri fyrsta mál á dagskrá „hópeflisferð borgarráðs til Bandaríkjanna“.

Sagðist hún heldur hefðu viljað fá kynningu á ferðinni í formi skýrslu enda væri fundum borgarstjórnar settur þröngur tímarammi.

Ekki voru allir sammála Hildi og sagði Alexandra Briem borgarfulltrúi Pírata athugasemdina koma á óvart, enda teldi hún eðlilegt að farið yrði yfir ferðina á meðan hún væri enn í fersku minni þeirra sem í hana fóru.

Ferðin var því rædd og mátti greina mikla ánægju með hana meðal þeirra sem héldu til Portland og Seattle. Það vakti athygli Dags að Reykjavíkurborg hefði náð meiri árangri og hraðar en þessar „fræknustu“ borgir Bandaríkjanna í samgöngumálum. Hann sagði þó að ýmislegt mætti læra af þeirra reynslu. Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Pírata lagði meðal annars áherslu á að tryggja þyrfti gott aðgengi allra að samgöngukerfinu, sérstaklega með tilliti til hreyfihamlaðra.

Höf.: Klara Ósk Kristinsdóttir