Carlsson Bölvunin er saga um „áhrif misalvarlegra gjörða, jafnt skipulagðra glæpa sem hugsunarlausra atvika, sem draga illan dilk á eftir sér“.
Carlsson Bölvunin er saga um „áhrif misalvarlegra gjörða, jafnt skipulagðra glæpa sem hugsunarlausra atvika, sem draga illan dilk á eftir sér“. — Ljósmynd/Emelie Asplund
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Glæpasaga Bölvunin ★★★½· Eftir Christoffer Carlsson. Páll Valsson þýddi. Bjartur, 2023. Kilja, 423 bls.

BÆKUR

Steinþór Guðbjartsson

Sár eftir stríð gróa aldrei, náttúruhamfarir hafa tekið sinn toll og í Tolarp, þar sem hús og bæir eru á dreif skammt frá smábænum Marbäck, nokkrum kílómetrum austan við Halmstad í Svíþjóð, fer veröldin á hvolf eftir að kona finnst látin í húsbruna. Christoffer Carlsson rekur gang mála í spennusögunni Bölvuninni og eftir lesturinn kemur fyrst upp í hugann hvað lífið getur í raun verið óréttlátt og hvernig veröldin væri ef dómstóll götunnar réði ríkjum.

Viðar Jörgensson lögreglumaður og Ísak Nyqvist geta ekki á heilum sér tekið eftir að Lovísa Markström finnst látin í brunarústunum og Edvard Christensson, móðurbróðir Ísaks og kærasti Lovísu, er grunaður um að hafa drepið hana og kveikt síðan í. Líf lögreglumannsins og barnsins var í föstum skorðum en það breytist á einni nóttu.

Sagan er í þremur hlutum. Sá fyrsti snýst um brunann í nóvember 1994, fyrstu viðbrögð, rannsóknina, niðurstöður og dóminn. Níu árum seinna er þráðurinn tekinn upp á ný og lokakaflinn er frá árinu 2017.

Frásögnin snýst fyrst og fremst um fyrrnefnda tvímenninga, viðbrögð þeirra og hvernig líf þeirra tekur stakkaskiptum og umturnast eftir verknaðinn. Umræðan í fámenninu er slík að Viðar og Ísak fyllast sektarkennd. Þeim finnst að þeir hafi brugðist og sökin sé þeirra. Ekkert gengur upp hjá þeim, þeir missa tökin og svo virðist sem líf þeirra sé einskis virði. Þessi hugsun bitnar ekki aðeins á þeim sjálfum heldur ekki síst þeim sem standa þeim næst.

Góða fólkið gerir aldrei neitt rangt, er oft viðkvæðið, og skuldinni skellt á þá sem stimplaðir eru, vonda fólkið. Samt sem áður eru heimsins bestu menn ekki allir eins og þeir eru séðir og svörtu englarnir eru gjarnan hafðir fyrir rangri sök.

Börn fæðast saklaus en erfðir og umhverfi hafa síðan áhrif á gang mála. Allir gera mistök, misjafnlega alvarleg, og sennilega hafa allir einhvern tíma rangt við á lífsleiðinni. Sumir reyna að lifa með þjáningunum sem misgjörðunum fylgja en öðrum reynist það þrautin þyngri. Sannleikurinn gerir þá frjálsa, eins og kemur fram í bókinni.

Bölvunin er ekki harðsvíruð glæpasaga heldur frekar óþarflega löng saga um áhrif misalvarlegra gjörða, jafnt skipulagðra glæpa sem hugsunarlausra atvika, sem draga illan dilk á eftir sér.