Bára Jakobsdóttir Olsen fæddist á Akureyri 28. júní 1928. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð Akureyri 25. ágúst 2023.

Foreldrar Báru voru Jakob Valdemar Björnson Olsen málarameistari, f. 4. nóv. 1897, d. 14. feb. 1978, og Guðbjörg Pétursdóttir, f. 30. ágúst 1899, d. 31. ágúst 1988. Systkini Báru eru Ásta Sólveig, f. 10. sept. 1922, d. 17. ágúst 2007, Björn, f. 27. jan. 1930, og Petrína Ingibjörg, f. 6. júní 1933, d. 29. júlí 1933.

Eiginmaður Báru frá 30. ágúst 1949 var Hrafn Sveinbjörnsson bifvélavirkjameistari, f. 12. maí 1928, d. 21. sept. 1997. Foreldrar hans: Sveinbjörn Sigtryggsson bóndi í Saurbæ, f. 8. júní 1882, d. 17. okt. 1938, og Sigrún Þuríður Jónsdóttir, f. 28. nóv. 1882, d. 18. jan. 1945. Bára og Hrafn eiga samtals 81 afkomanda, 80 þeirra eru á lífi.

Börn þeirra: 1) Sigrún Sveinbjörg, f. 6. ágúst 1947, maki Gylfi M. Jónsson, f. 8. júní 1947, börn þeirra eru Jóhann, Hrafn Ómar og Dagmar Íris. Þau eiga átta barnabörn og þrjú barnabarnabörn. 2) Óskírð stúlka, f. 6. ágúst 1947, d. 8. ágúst 1947. 3) Guðbjörg Inga, f. 11. jan. 1949, fv. maki Vilhelm V. Steindórsson, f. 22. feb. 1948, d. 5. sept. 2018, börn þeirra: Vilhelm Úlfar, Laufey Dóra, Thelma Bára og Sveinn Þór. Þau eiga fimm barnabörn. 4) Rósa Hrönn, f. 3. des. 1951, maki Erlingur Óskarsson, f. 16. júní 1948, börn þeirra: Þorsteinn Óskar, Hrafnhildur Bára og Stefán Heiðar. Þau eiga sjö barnabörn og fimm barnabarnabörn. 5) Arna, f. 2. feb. 1957, fv. maki Ásgeir Arngrímsson, f. 5. okt. 1954, d. 8. des. 1998. Núv. sambýlismaður Sigfús Ólafur Helgason, f. 29. sept. 1963. Börn Örnu og Ásgeirs: Baldvin Hermann, Bjarni Hrafn og Brynjar Helgi. Þau eiga sjö barnabörn. 6) Edda, f. 18. okt. 1958, fv. maki Þorsteinn Ingvarsson, f. 8. júlí 1957, börn þeirra eru Ingvar Karl og Jakob Valdemar. Þau eiga fjögur barnabörn. 7) Harpa, f. 9. ágúst 1960, maki Ásbjörn Á. Valgeirsson, f. 19. mars 1958, börn þeirra: Valgeir Einar, Halldór Pétur, Logi, Petrea Aðalheiður og Bára Hrafnhildur. Þau eiga átta barnabörn. 8) Hrafn, f. 28. júní 1962, sambýliskona Áslaug Hildur Harðardóttir, f. 9. mars 1965, barn þeirra: Elísabet Þöll. 9) Þóra Jakobína, f. 4. ágúst 1965, fv. maki Jón Á. Þorvaldsson, f. 14. ágúst 1964, börn þeirra: Þorvaldur Heiðdal og Guðbjörn Ólsen. Þau eiga tvö barnabörn.

Afkomendurnir voru líf og yndi Báru, barnabarnabörnin voru jafn nátengd henni og börnin og hún fylgdist vel með þeim öllum.

Bára bjó allt sitt líf á Akureyri, hún gekk í Barnaskóla Akureyrar og lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar. Hún rak stórt heimili af rausnarskap, bakaði, saumaði og prjónaði fatnað á börnin og fórst vel úr hendi. Þrátt fyrir stórt heimili var hún líka lengst af útivinnandi á Gefjun, Dvalarheimilinu Hlíð, Matvörumarkaðnum og blómabúðinni Lilju þar sem hún naut sín innan um blóm og fallega gjafavöru. Bára var virkur félagi í Oddfellowreglunni, Kvenfélaginu Framtíðinni og Víðilundi. Siglufjörður og fólkið hennar þar var henni alltaf ofarlega í huga.

Jarðarför Báru verður í Akureyrarkirkju í dag, 6. september 2023, klukkan 13.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Hvíldu í friði elsku mamma.

Kveðja,

Edda.

Kær tengdamóðir mín Bára J. Ólsen er látin 95 ára að aldri. Andlát hennar bar brátt að, því þótt hún hefði farið í aðgerð í vikunni vegna lærbrots komst hún til meðvitundar eftir aðgerðina og virtist á góðum batavegi. En skyndilega var þrek hennar þrotið og lést Bára á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð að morgni 25. ágúst sl., umvafin sínum nánustu.

Mér líður seint úr minni sú stund er ég kynntist þeim hjónum Báru og Hrafni fyrsta sinni. Það var haustið 1963 að ég þá sextán ára gamall kom í heimsókn í Grænumýri 18 til að hitta elstu dótturina Sigrúnu sem var heima að passa yngri börnin.

Planið var að láta sig hverfa áður en foreldrarnir kæmu heim, en þar sem mér dvaldist lengur en ráðgert var mætti ég þessum glæsilegu hjónum, Báru og Hrafni, í forstofunni.

Mér fannst Hrafn frekar óárennilegur við þessar aðstæður, svo ég snéri mér að Báru sem heilsaði með hlýju brosi og bauð mig velkominn. Ótti minn við Hrafn var þó ástæðulaus, því hann heilsaði mér með þéttu handtaki sveitamannsins, bauð mig velkominn og spurði síðan hvort ég væri ekki svangur og vildi líta aðeins með sér í eldhúsið.

Það er skemmst frá því að segja að upp frá þessu varð Grænamýri 18 mitt annað heimili. Ég hafði skömmu áður misst föður minn og vantaði því aðhald og stuðning. Þau Bára og Hrafn studdu mig á allan hátt og með okkur tókst vinátta sem aldrei hefur borið skugga á.

Heimili Báru og og Hrafns var nokkuð ólíkt því sem ég hafði áður kynnst, þar var stór fjölskylda, alltaf fullt hús af fólki og mikill léttleiki yfir öllu og mikið spilað og sungið. Þetta andrúmsloft og hlýja og gestrisni þeirra hjónanna einkenndi allt þeirra líf og er því ekki að undra að heimili þeirra hafi verið miðpunktur alls fjölskyldulífsins gegnum árin og barnabörnin og barnabarnabörnin sótt þangað öruggt og hlýtt skjól eftir að börnin fóru.

Eftir að Hrafn féll frá árið 1997 gerði Bára allt sem hún gat til þess að viðhalda þessu góða andrúmslofti og halda góðum tengslum við alla í stórfjölskyldunni. Í dag er því mikið skarð fyrir skildi og sár söknuður í hjarta okkar allra.

Ef lýsa ætti Báru tengdamóður minni í fáum orðum kemur mér í hug óbilandi viljastyrkur, hreinskilni, umhyggjusemi og lífsgleði. Þessir mannkostir hennar vörðu alla tíð.

Hún veiktist nokkrum sinnum mjög alvarlega á seinni árum en náði sér alltaf ótrúlega vel aftur. Má ætla að hennar mikli viljastyrkur og lífsvilji hafi hjálpað þar til.

Hún naut því lífsins til hinstu stundar. Hún fylgdist vel með, hafði áhuga á öllu og naut þess að vera til.

Nú þegar komið er að leiðarlokum kveð ég kæra tengdamóður. Ég vil biðja almættið að styrkja börn hennar og bróður, og ekki síst aðra afkomendur, sem sakna ömmunnar sem alltaf var til í gott spjall um lífið og tilveruna eða að grípa í spil til að stytta þeim stundir.

Við Sigrún, börnin okkar, tengdabörn og barnabörn kveðjum ömmu Báru með þakklæti og söknuði.

Blessuð sé minning Báru J Ólsen.

Gylfi Már Jónsson.

Elsku amma mín.

Nú á hugann leita minningar ljúfar

af hlaupum, köllum og gleðilátum

börnum að leik og hamingju hlátrum

sussum, sveii og knúsi inn á milli

svo mikið að gerast í Beikó-inni.

Kleinur að baka, blómum að sinna

við börnin hjálpuðum eitthvað minna

en fengum samt kleinur og ískalda mjólk

slátur í súr, saltkjöt og baunir

þreytt og glöð heim með pabba og mömmu

eftir leik og hlaup hjá afa og ömmu.

Tíminn leið og eldri við urðum

fluttum í burt og sjaldnar því sáumst

en hjartað mitt hlýnaði er kom ég til
þín

og þú heilsaðir ljúflega „elsku Daddý
mín“

þú kreistir mig fast og augu þín ljómuðu

þessi orð þín alltaf svo fallega
hljómuðu.

Nú er víst komið að leiðarlokum

til landsins fagra er farinn þinn kraftur

það er svo sárt að fá ekki að sjá þig

fá frá þér knús og heyra þig segja

„elsku Daddý mín“ einu sinni aftur.

En minningin lifir í huga og hjarta

um sterka konu, fallega og bjarta

eftir situr fjölskyldan stóra

sem saman syrgir og saknar þín

elsku besta amma mín.

Þín

Dagmar Íris (Daddý).

hinsta kveðja

Elsku amma Bára

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig

og lýstu mér um ævistig.

(Pétur Þórarinsson)

Ég kyssi þig góða nótt.

Sigurbjörg María Bjarnadóttir.