Sigurður Oddsson
Sigurður Oddsson
Þó að moltuframleiðslan tækist vel þá er hin stoðin undir rekstrinum, metanframleiðsla, farin. Seinasti metanbíllinn hefur verið fluttur inn.

Fljótlega eftir að ég kom til Zürich haustið 1964 sá ég háan stromp án reyks. Ég spurði hvaða framleiðslu hann tengdist. Svarið var: sorpbrennslustöð sem brennir sorpi við svo hátt hitastig að brennslan er án mengunar. Þeir sögðu svona brennslu umhverfisvænstu eyðingu sorps. Plast er velkomið í sorpinu því að það brennur við hátt hitastig eins og olía. Við brennsluna fæst hitaorka, sem einfalt er að breyta í raforku. Askan fer í vegfyllingar líkt og aska sem verður til við framleiðslu sements.

Eftir að ég flutti heim 1970 var reglulega í fréttum urðun sorps. Margir undruðust að sorpi væri ekki brennt. Svar við því var að við værum of fámenn þjóð til að hafa efni á sorpbrennslustöð.

Svo komu þær fréttir að Sorpa ætlaði að byggja gas- og jarðgerðarstöð (GAJA), sem væri fyrsta stöð sinnar tegundar í heiminum. Ruslið átti að mygla inni í húsi, sem hvergi hafði verið gert áður. Illa gekk að láta ruslið mygla en burðarvirki hússins mygluðu. Moltan reyndist algjörlega ónothæf og var urðuð.

Samstöðin og Heimildin gera tilrauninni góð skil.

- Friðrik Hjálmarsson skrifaði í Samstöðuna: GAJA, gas- og jarðgerðarstöð Sorpu, hlýtur að teljast meðal stærstu klúðra opinberrar stjórnsýslu á Íslandi.

- Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson skrifaði í Heimildina: Starfsleyfi GAJA leyfir eingöngu lífrænan úrgang inn í stöðina. Í dag eru 70% af þeim úrgangi sem fer inn í GAJA lífrænn úrgangur, hin 30% eru blandaður úrgangur eins og plast, þungmálmar, kaffihylki og jafnvel raftæki. Úr þessu er Sorpa svo að reyna að búa til moltu.

Plast, mjólkurumbúðir og pappír var flutt út til endurvinnslu. Seinna komst upp að ekki var hægt að endurvinna mjólkurumbúðirnar og þær brenndar í útlöndum.

GAJA-tilraunin kostaði um sjö milljarða og maður átti von á að nú yrði byggð fullkomin sorpbrennslustöð.

Þá kom nýjasta útspilið: „Flokkum“, sem nú hefur verið og er í umræðunni. Hvort flokkum takist betur en fyrra klúðrið byggist á því að íbúarnir flokki ruslið eins og beðið var um. Er líklegt að svo verði?

Þó að moltuframleiðslan tækist vel þá er hin stoðin undir rekstrinum, metanframleiðsla, farin. Seinasti metanbíllinn hefur verið fluttur inn. Ástæða þess er að metanbílar standast ekki samkeppni við rafmagnsbíla.

Svo ég ráði væntanlegum nýjum borgarstjóra eina ferðina enn heilt, þá er, þótt seint sé, rétt að gera raunhæfan samanburð á flokkum og brennslu. Bæði samanburð á stofnkostnaði og árlegum rekstrarkostnaði.

Fyrri tilraun kostaði sjö milljarða og mikið á eftir að bætast við fjármagnið sem komið er í Flokkum.

Með tilliti til þess að nóg fjármagn er til fyrir borgarlínu, sem skal vera flottari og dýrari en margfalt stærri þjóðir hafa ekki efni á, er út í hött að segja að við séum of fámenn til að hafa efni á alvörusorpbrennslustöð.

Ég vissi ekki að í landinu væri svona mikil vöntun á moltu. Nýlega var í fréttum að seyra frá skólphreinsistöðvum væri mjög verðmæt. Spurning er hvort ekki sé hagstæðast að vinna moltu og seyru úr skolpi sem stærri bæjarfélög veita út í sjó og stundum ratar í fjörur. Það væri allavega mun umhverfisvænna en nú er. Það hefur líklegast verið gert hjá einhverjum og er ekki tilraunaverkefni með ófyrirsjáanlegan kostnað.

Höfundur er verkfræðingur og eldri borgari.