Kristjana Sigríður Vagnsdóttir birtir á Boðnarmiði: Í nausti aldrei nær að syngja nöpur bára. Klappar stundum kaldur kári köldum skára. Guðmundur Arnfinnsson yrkir: Það haustar: Ylur dvínar, foldin frýs, fönnum skarta tindar, brött á sjónum bára rís, byrstir gjalla vindar

Kristjana Sigríður Vagnsdóttir birtir á Boðnarmiði:

Í nausti aldrei nær að syngja

nöpur bára.

Klappar stundum kaldur kári

köldum skára.

Guðmundur Arnfinnsson yrkir: Það haustar:

Ylur dvínar, foldin frýs,

fönnum skarta tindar,

brött á sjónum bára rís,

byrstir gjalla vindar.

Kólnar blóð og gránar geð,

greind ei slóð á hjarni,

dapran óð um kvöld ég kveð,

kviknar glóð á arni.

Í haust eftir Þorgeir Magnússon:

Í maí var korni sáð í svörð

er sólin kyssti móður jörð

svo moldin hún varð heit og rök

og hiklaus vorsins fótatök.

Og síðan gerði sumaryl

og sérhver jurt þá bjó sig til

að blómgast eins og best hún gat

og bera ávöxt, safna mat.

Því haustið kemur sérhvert sinn

svo sölnar jurtagarðurinn

og uppskeran, ef að er gáð,

er alveg eins og til var sáð.

Tímaþjófurinn eftir Pál Jónasson í Hlíð:

Þeir segja það margir um símann

hann sé til að spara tímann,

en oftast nær fer

allur hjá mér

tími í að tala í símann.

Ólína Andrésdóttir kvað þegar lát síra Matthíasar skálds Jochumssonar fréttist:

Gleðin smækkar, hryggðin hækkar,

hróður brást um andans völl,

skáldum fækkar, landið lækkar

loksins sjást hér engin fjöll.

Mælt af munni fram – Ólínu var boðið að hlýða á Guðmund skáld Friðjónsson flytja kvæði eftir sig:

Eigirðu kost á ilmgresi

úr andans nægta hlöðu

illt er að blanda útheyi

innanum slíka töðu.

Tófufeldir

Hér má þekkja þessar stærri,

þær bera tignar ljósan vott.

Eftir því er hefðin hærri

sem hafa þær fleiri klær og skott.

Hér yrkir Ólína um haustið:

Senn má varma sumarbáls

síðsta bjarma líta;

hlíðar barminn faðmar frjáls

fönnin armahvíta.
Þegar margt vill móti ganga,
mæða treinist flest,
til að stytta stundir langar
stakan reynist best.


Þó að stundum heima í hljóði
hugann þreyti margt
finni ég yl af ljúfu ljóði
lífið verður bjart.
Lausavísur eftir Herdísi:
Oftast svellin örlaga
illum skellum valda,
fyrir brellum freistinga
fáir velli halda.


Fæst hér nóg af frosti og snjó
og flestu er ró vill bifa.
En þegar glóey gyllir mó
gaman er þó að lifa.


Sorgir lífs í margri mynd
mæddar sálir beygja;
en væri hér hvorki vín né synd
vildi ég aldrei deyja.


Hjarta og sinni harmar þjá
heims af kynningunni.
Og ekki finn ég ylinn frá
æskuminningunni.
Fallvaltleiki eftir Bjarna frá Gröf:
Eikur falla, eyðist vín,
ung vill spjallast meyja fín,
maður hallast, máttur dvín,
moldin kallar allt til sín.
Halldór Blöndal