Mótmæli Ómar Ragnarsson borinn af lögreglu úr Gálgahrauni þar sem hann mótmælti lagningu nýs Álftanesvegar ásamt fjölmörgum öðrum.
Mótmæli Ómar Ragnarsson borinn af lögreglu úr Gálgahrauni þar sem hann mótmælti lagningu nýs Álftanesvegar ásamt fjölmörgum öðrum. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er manninum eðlislægt að mótmæla þegar fólki misbýður eitthvað í samfélaginu. Sumir nota orð en aðrir grípa til aðgerða eins og hefur verið gert reglulega í gegnum tíðina á Íslandi. Tveir aðgerðasinnar sem hlekkjuðu sig fasta við möstur tveggja…

Baksvið

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Það er manninum eðlislægt að mótmæla þegar fólki misbýður eitthvað í samfélaginu. Sumir nota orð en aðrir grípa til aðgerða eins og hefur verið gert reglulega í gegnum tíðina á Íslandi. Tveir aðgerðasinnar sem hlekkjuðu sig fasta við möstur tveggja hvalveiðiskipa í Reykjavíkurhöfn hafa vakið minningar um mótmæli fyrri tíðar. Hvalveiðar, vegalagning og orkunýting kemur þar helst við sögu. Oftar en ekki hlekkjar fólk sig við atvinnutæki til að koma í veg fyrir fyrirhugaðar framkvæmdir eða tekur sér stöðu á vettvangi til að koma í veg fyrir framkvæmdir.

Hvalveiðar í skotmáli

Paul Watson, sem fer fyrir samtökunum Sea Shepherd, er Íslendingum kunnur, en að undirlagi hans var tveimur hvalveiðiskipum sökkt í Reykjavíkurhöfn eftir að tveir menn laumuðust um borð og losuðu um botnloka skipanna árið 1986. Mennirnir brutust einnig inn í Hvalstöðina í Hvalfirði og unnu skemmdir á tækjum og búnaði en hvalveiðar eru hitamál meðal náttúruverndarsinna. Watson sagðist ekki hafa minnsta samviskubit yfir að eyðileggja hvalbátana, sem hann kallaði hryðjuverkavélar sem sigldu um Norður-Atlantshafið og ógnuðu hvölunum með sprengiskutlum.

Í september árið 1987 fóru svo þrír menn úr svokölluðu hvalavinafélgi um borð í Hval 9 sem var í höfn í Hvalfirði og hlekkjuðu sig við hvalabyssu og mastrið í útsýnistunnu. Báturinn var nýkominn í land með fjórar sandreyðar. Sá sem festi sig við byssuna var Benedikt Erlingsson leikari.

Hvöttu til sniðgöngu

Watson kom til landsins árið 1988 og var hann umsvifalaust handtekinn. Honum var síðan vísað úr landi án þess að gefin væri út ákæra á hendur honum og fylgdu lögreglumenn honum til New York. Skip á vegum samtakanna elti á síðasta ári hvaleiðiskip án þess að grípa til nokkurra aðgerða.

Grænfriðungar beittu sér ötullega gegn hvalveiðum Íslendinga á sínum tíma og reyndu m.a. að hafa áhrif á sölu íslenskra sjávarafurða í Bandaríkjunum. Samtökin hvöttu almenning í nærri hundrað borgum til að kaupa ekki íslenskar vörur á meðan hvalir væru veiddir.

Heitar deilur urðu vegna lagningar nýs Álftanesvegar. Árið 2013 handtók lögreglan á höfuðborgarsvæðinu 25 mótmælendur sem óhlýðnuðust fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa framkvæmdasvæði verktaka vegarins um Garðahraun í Garðabæ. Níu voru handteknir öðru sinni þegar þeir mættu aftur á svæðið.

Mesta athygli vakti handtaka Ómars Ragnarssonar, þjóðargersemi Íslands, sem tók sér stöðu gegn vinnuvélum verktakans. Ómar var borinn af vettvangi og fékk fyrir vikið að dúsa í fangaklefa um stund. Aðgerðasinnar vöktuðu svæðið og hugðust stöðva framkvæmdir. Þegar stór jarðýta mætti á staðinn kom hópur fólks í veg fyrir að hún gæti athafnað sig. Lögreglan var kölluð til. Hún gaf fólki ítrekað fyrirmæli um að fara út fyrir framkvæmdasvæðið og þeir sem ekki sinntu því voru bornir í burtu og handteknir. Jarðýtan vann eftir það undir lögregluvernd.

Málið kom m.a. til kasta dómstóla þar sem deilt var um hvort Hraunavinir og þrenn önnur náttúruverndarsamtök ættu lögvarinna hagsmuna að gæta vegna lagningar vegarins. Hæstiréttur staðfesti að svo væri ekki.

Deilt um orkunýtingu

Í seinni tíð hafa fáar deilur verið jafn hatrammar í íslensku samfélagi og um byggingu Kárahnjúkavirkjunar sem reist var til að framleiða ál á Reyðarfirði hjá Alcoa-Fjarðaáli. Meðal þeirra sem beittu sér var m.a. Jónsi í Sigurrós, sem var vísað út úr Ráðhúsi Reykjavíkur í lögreglufylgd eftir að hafa mótmælt virkjunaráformunum. Aðgerðasinnar tóku sér stöðu um þriggja ára skeið nálægt framkvæmdasvæðinu. Hluti þeirra hlekkjaði sig m.a. við vinnuvélar, úðaði slagorð á bíla og tafði stíflugerð auk þess að fara í óleyfi inn á virkjunarsvæðið með tilheyrandi handtökum. Lögreglan var sökuð um harðræði við þær. Flestir voru af erlendu bergi brotnir.

Þá tók bóndi einn á svæðinu sér gönguferð um framkvæmdasvæði Alcoa þar til lögregla vísaði honum burt. Erlendir mótmælendur úr hópi virkjunar- og stóriðjuandstæðinga fóru í kjölfarið inn í starfsstöð verkfræðistofunnar Hönnunar á Reyðarfirði og vörnuðu sjö starfsmönnum þar útgöngu. Starfsmennirnir kærðu atburðinn til lögreglu, sem þeir töldu alvarlega frelsissviptingu.

Dæmin eru fleiri, t.a.m. varðandi áform um byggingu álvers í Helguvík þar sem hlekkir komu við sögu og einnig við nýtingu jarðhita í Skarðsmýrarfjalli nálægt Hellisheiðarvirkjun sem Saving Iceland stóð fyrir.

Höf.: Hörður Vilberg