Meistaradeildin Íslands- og bikarmeistarar Vals mæta Fomget Genclik í undanúrslitum í 1. umferð Meistaradeildarinnar í Shköder í Albaníu í dag.
Meistaradeildin Íslands- og bikarmeistarar Vals mæta Fomget Genclik í undanúrslitum í 1. umferð Meistaradeildarinnar í Shköder í Albaníu í dag. — Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslandsmeistarar Vals hefja leik í undanúrslitum 1. umferðar Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu í dag þegar liðið mætir tyrknesku meisturunum í Fomget Genclik í Shköder í Albaníu. Fomget Genclik hafnaði í öðru sæti B-riðils efstu deildar Tyrklands …

Meistaradeildin

Bjarni Helgason

bjarni@mbl.is

Íslandsmeistarar Vals hefja leik í undanúrslitum 1. umferðar Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu í dag þegar liðið mætir tyrknesku meisturunum í Fomget Genclik í Shköder í Albaníu.

Fomget Genclik hafnaði í öðru sæti B-riðils efstu deildar Tyrklands á síðustu leiktíð með 49 stig, tveimur stigum minna en topplið Galatasaray.

Á síðustu leiktíð var úrslitakeppnisfyrirkomulag í efstu deild Tyrklands en Fomget Genclik vann öruggan sigur gegn Hakkarigücu, sem hafnaði í 8. sæti A-riðils, í 16-liða úrslitum, samanlagt 6:2. Í 8-liða úrslitunum vann Fomget Genclik svo samanlagðan 4:0-sigur gegn Fatih Vatanspor sem hafnaði í þriðja sæti A-riðils.

Fomget Genclik lagði svo ALG Spor að velli í undanúrslitunum, 3:2, en ALG Spor endaði í efsta sæti A-riðils. Í úrslitaleiknum um tyrkneska meistaratitilinn hafði Fomget Genclik svo betur gegn Fenerbahce, 4:2, en Fenerbache hafnaði í þriðja sæti B-riðils í deildarkeppninni.

Þetta er í fyrsta sinn sem tyrkneska liðið tekur þátt í Meistaradeildinni en þær Selda Akgöz, Ümran Özev og Birgül Sadikoglu, leikmenn Fomget Genclik, voru allar í síðasta landsliðshóp Tyrklands sem mætti Eistlandi í tveimur vináttulandsleikjum í sumar.

Takist Valskonum að leggja Fomget Genclik að velli mæta þær annaðhvort Vlazniu frá Albaníu eða Hajvalia frá Kósovó í úrslitaleik 1. umferðarinnar um sæti í 2. umferð Meistaradeildarinnar.

Verðugt verkefni Stjörnunnar

Stjarnan, sem endaði í öðru sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð, mætir svo spænska liðinu Levante í Enschede í Hollandi í undanúrslitum 1. umferðarinnar.

Levante hafnaði í þriðja sæti spænsku 1. deildarinnar á síðustu leiktíð með 66 stig, 19 stigum minna en Spánarmeistarar Barcelona og 9 stigum minna en Real Madrid sem endaði í öðru sætinu.

Levante tapaði einungis sex leikjum af 30 á síðustu leiktíð, gegn Barcelona, Valencia, Madrid, Atlético Madrid og Real Madrid.

Levante hefur hafnað í þriðja sæti spænsku 1. deildarinnar í fjórgang á síðustu fimm árum en liðið hafnaði í sjötta sæti deildarinnar tímabilið 2021-22.

Alba Redondo, leikmaður Levante, var eini leikmaður liðsins sem var í lokahóp Spánar á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi þegar liðið varð heimsmeistari í fyrsta sinn.

Takist Stjörnunni að leggja Levante að velli mætir liðið annaðhvort Twente frá Hollandi eða Sturm Graz frá Austurríki í úrslitum 1. umferðarinnar.