Winning Time Sean Patrick Small og Quincy Isaiah leika ríginn eftir.
Winning Time Sean Patrick Small og Quincy Isaiah leika ríginn eftir.
Undirritaður er af þeirri kynslóð sem fékk fyrsta NBA-körfuboltaæðið beint í æð, um það leyti sem Michael Jordan gerði Chicago Bulls að NBA-meisturum í fyrsta sinn. Ég var sjálfur alltaf meira fyrir Boston Celtics og þá ekki síst stórstjörnu þeirra…

Stefán Gunnar Sveinsson

Undirritaður er af þeirri kynslóð sem fékk fyrsta NBA-körfuboltaæðið beint í æð, um það leyti sem Michael Jordan gerði Chicago Bulls að NBA-meisturum í fyrsta sinn. Ég var sjálfur alltaf meira fyrir Boston Celtics og þá ekki síst stórstjörnu þeirra Larry Bird sem var þá á síðasta snúningi vegna bakvandamála.

Síðustu vikur hef ég hins vegar sogast inn í þættina Winning Time: The Rise of the Lakers Dynasty, sem Sjónvarp Símans er með til sýningar. Þar er sagan sögð frá sjónarhóli Los Angeles Lakers og helstu stjörnu þeirra, Earvins „Magic“ Johnsons, en rígurinn á milli Magics og Birds knúði áfram vinsældir körfuboltans í Bandaríkjunum á 9. áratugnum.

Þó að þættirnir séu þannig skrifaðir með helsta „óvininn“ í aðalhlutverki hefur gamli Celtics-aðdáandinn í mér haft mjög gaman af þáttunum. Það er mikill „eitís“-blær yfir þeim og lítur oft út eins og maður sé að horfa á þáttinn af eldgömlu segulbandi. Þá á Sean Patrick Small stórleik sem Larry Bird, sem í þáttunum er „aðal-vondikallinn“ sem hangir eins og mara yfir Magic (leikinn af Quincy Isaiah). Þá er farið vel í árekstra Magic við þjálfara sinn Paul Westhead (Jason Segel) og verður úr nánast tragikómedía sem vel má mæla með.