— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Það þarf að skipuleggja umferðina á háskólasvæðinu betur til þess að hún gangi betur fyrir sig. Við höfum reynt að komast að því hvernig hægt er að bæta úr ástandinu en því miður án árangurs. Það benda allir hver á annan

„Það þarf að skipuleggja umferðina á háskólasvæðinu betur til þess að hún gangi betur fyrir sig. Við höfum reynt að komast að því hvernig hægt er að bæta úr ástandinu en því miður án árangurs. Það benda allir hver á annan. Þetta er alla vega alls ekki eins og það á að vera,“ segir Vera Antonsdóttir framkvæmdastjóri Grósku.

Mikil umferð hefur verið í Vatnsmýrinni síðustu vikur eftir að háskólastarfið fór aftur af stað. Við Sturlugötu, á milli Grósku og Öskju, er bílum nú lagt beggja vegna götunnar þó aðeins séu merkt bílastæði öðrum megin. Fyrir vikið hefur gatan þrengst til muna og erfitt er fyrir bíla að mætast. Engar merkingar banna fólki að leggja við götuna og Bílastæðasjóður hefur ekki sinnt því að sekta á svæðinu, segir Vera.

„Af ástandinu getur skapast hætta eins og það er í dag. Við höfum sjálf verið að reyna að setja upp merkingar ásamt Vísindagörðum til þess að bæta úr ástandinu í kringum Grósku. Á sama tíma er nóg af stæðum í bílakjallaranum hjá okkur,“ segir Vera. Bæta þurfi samgöngur í Vatnsmýrinni. Ofan á bílastæðamál sé tíðni strætóferða ekki í samræmi við þann fjölda fólks sem þangað sækir vinnu. „Við viljum bara að fólk komist til og frá án þess að verða fyrir miklum óþægindum.“