Finnur bendir á að verðbólgan sé engum einum að kenna og enginn einn ráði við hana, þ.m.t. Seðlabankinn.
Finnur bendir á að verðbólgan sé engum einum að kenna og enginn einn ráði við hana, þ.m.t. Seðlabankinn. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
Matvara varð dýrari vegna þess að það varð dýrara að framleiða hana og það vandamál mun ekki hverfa með neinum töfrabrögðum.

Finnur Oddsson segir að þau þrjú ár sem hann hefur verið forstjóri Haga hafi verið einn viðburðaríkasti og mest ögrandi tími sem starfsfólk í verslun hefur upplifað. Afleiðingar Covid-19-faraldursins og stríð í Úkraínu hafi eins og víðar reynst töluverð áskorun.

Það sem upp úr standi rekstrarlega á tímabilinu séu miklar vöruverðshækkanir hjá framleiðendum og birgjum og tímabil hraðrar veikingar krónunnar hafi einnig haft áhrif. „Svona aðstæður eru almennt ögrandi í dagvöruverslun því þær fela m.a. í sér að framlegð hefur tilhneigingu til að dragast saman,“ segir Finnur.

Hann segir verslun í raun enn vera að fást við eftirstöðvar faraldursins. „Áhrif Covid-19 voru tvíþætt. Framleiðslu- og virðiskeðjur riðluðust og innfluttar vörur hækkuðu mikið. Fyrsta hugsun okkar var að tryggja vöruframboð því á tímabili var talin raunveruleg hætta á vöruskorti. Hitt stóra viðfangsefnið var ákveðið uppnám í rekstri verslananna í um tvö ár vegna alls kyns samkomutakmarkana.“

Hann segir að þegar horft sé um öxl sjáist að viðfangsefnin voru leyst af stakri prýði. „Þeir tveir hópar sem að mínu viti stóðu upp úr í faraldrinum voru heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk í verslunum, og reyndar framlínufólk almennt, sem ekki gat unnið að heiman eins og margir aðrir og þurftu að vera í stöðugu návígi við aðra með tilheyrandi smithættu.“

Hefðirðu viljað gera eitthvað öðruvísi þegar þú horfir til baka?

„Nei í sjálfu sér ekki. Mögulega vorum við óþarflega gætin á köflum en það er auðvelt að vera vitur eftir á og í stóru myndinni gekk íslenskt samfélag ótrúlega vel á þessum tíma.“

Þegar faraldrinum loks lauk réðust Rússar inn í Úkraínu í byrjun árs 2022. „Stríðið er harmleikur fyrir bæði löndin og hefur auk þess haft geigvænleg afleidd áhrif á alla heimsbyggðina, m.a. á verð á dagvöru og annarri neysluvöru. Það má segja að við berum herkostnað í formi hækkandi verðlags í okkar litla og friðsama landi.“

Vegferð umbreytinga

Í byrjun árs 2021 hófst vegferð ákveðinna umbreytinga hjá Högum sem hefur að sögn Finns miðað mjög vel. Markmiðið var að styrkja rekstur samstæðunnar með áherslu á hagræðingu annars vegar og fjölgun viðskiptavina og veltuaukningu hins vegar. Þetta raungerðist m.a. í einföldun á starfsemi Haga þannig að virðiskeðjur tengdar sölu á dagvöru og eldsneyti voru settar í skýrari forgrunn. Að auki var unnið sérstaklega að því að búa Olís betur undir óhjákvæmilegar breytingar sem fylgja orkuskiptum, með hagræðingu og breytingum á þjónustuframboði. Þá var horft til aðlögunar á ákveðnum þáttum í starfsemi Haga og dótturfélaga að nýjum og breyttum kröfum viðskiptavina.

„Við höfum uppskorið ágætis árangur af þessari vinnu, sem m.a. mælist í því að afkoma hefur styrkst og hagnaður á hvern hlut hlutafjár í Högum hefur aukist síðan um mitt ár 2021. Þar skiptir líklega mestu almenn hagræðing í okkar rekstri, sérstaklega hjá Olís, og umtalsverð veltuaukning í dagvöruverslun, m.a. vegna lengri afgreiðslutíma í Bónus. Við höfum auk þess lokað óarðbærum einingum, m.a. Stórkaup og Quiznos, og selt frá okkur einingar sem ekki voru hluti af kjarnastarfsemi, eins og Útilíf og Reykjavíkurapótek. Við komum vannýttum fasteignum í vinnu með útleigu og sölu og verðmætum þróunareignum í skilvirkari farveg í gegnum fasteignaþróunarfélagið Klasa.“

Einnig var lagt í metnaðarfulla mörkunarvinnu með Bónus, Olís og Hagkaup, þar sem vöru- og þjónustuframboð þessara stærstu vörumerkja Haga var endurskoðað. „Okkur finnst hafa gengið vel að skerpa á útliti og aðbúnaði í verslunum okkar og þjónustustöðvum, sem skilar sér í betri upplifun viðskiptavina og endurspeglast kannski best í fjölgun heimsókna og aukinni veltu þvert á samstæðu Haga.“

Til að laga starfsemi Haga enn frekar að breyttri neysluhegðun keyptu Hagar Eldum rétt sem framleiðir matarpakka sem fólk eldar sjálft heima hjá sér. Félagið hefur haldið áfram að vaxa og dafna og Finnur segir að Eldum rétt sé með skemmtilegri fyrirtækjum sem hann hafi kynnst. „Það býður upp á þjónustu sem fellur vel að nútímakröfum um einfaldleika, tímasparnað og sjálfbærni, auk þess sem maturinn er hollur og ótrúlega góður.“

Samlokustaðurinn Lemon er einnig að hluta í eigu Haga og hefur verið settur í forgrunn í þjónustustöðvum Olís og verslunum Hagkaups. „Það er ákveðin litagleði sem fylgir Lemon, enda hollur og góður skyndibiti sem auðvelt er að grípa með sér, bæði af veitingastöðum okkar en einnig í verslunum okkar sem bjóða nú upp á safa og samlokur undir vörumerki Lemon.“

Stórkaupsnafnið lifir áfram, nú sem fyrirtæki sem sinnir þörfum ört vaxandi markaðar stórnotenda fyrir rekstrar-, hreinlætis- og matvöru. „Þar erum við einnig að bregðast við þróun atvinnulífs, auknum ferðamannastraumi og neysluhegðun almennt, m.a. því hvernig við nálgumst magafylli matar.“

Finnur segir að matvöruverslanir hafi á síðustu árum og áratugum fengið aukna samkeppni í að sjá fólki fyrir magafyllinni. „Við höfum skilgreint þetta sem mismunandi farvegi. Þú ferð í matvörubúð, kaupir mat og eldar heima en getur fengið sömu kaloríur í mötuneyti, á veitingastað eða með kaupum á tilbúnum pökkum til eldunar. Það eru ýmsar aðrar leiðir en að fara í búðina og þeim fjölgar, sem okkur í verslun finnst skemmtileg ögrun.“

Að sögn Finns geta rekstraraðilar matvöruverslana brugðist við þróuninni með því að gera verslanir meira aðlaðandi og tryggja að vöruval og lausnir í verslunum uppfylli breyttar þarfir viðskiptavina. „Þetta gerum við meðal annars með auknu úrvali tilbúinna, fljótlegra rétta í okkar verslunum á síðustu misserum. Þar má m.a. nefna frábæra línu einfaldra og hagkvæmra Bónusrétta sem hefur vaxið mikið eða línu Einstakra rétta frá Eldum rétt, sem nú fást í Hagkaup. Fram undan er áframhaldandi skemmtilegt ferli nýsköpunar og þróunar þar sem verslun lagar sig í enn meira mæli að kröfum nýrri kynslóða, m.a. um tímasparnað, einfaldleika, hollustu og sjálfbærni.“

Hagar hafa nýtt upplýsingatækni í auknum mæli til að efla þjónustu við viðskiptavini og koma til móts við þá á nýjan hátt. Þar má nefna nýja netverslun Hagkaups með snyrtivörur, leikföng og veislurétti og svo er Eldum rétt líklega stærsta netverslun landsins með matvöru að sögn Finns.

Sem annað umfangsmikið verkefni þar sem upplýsingatækni leikur stórt hlutverk nefnir Finnur nýja og þægilega sjálfsafgreiðslulausn í Bónus, Gripið & greitt. Þar skanna viðskiptavinir vörur sjálfir beint í poka með þar til gerðum skönnum. Viðtökur eru frábærar að sögn Finns enda þægindi og tímasparnaður mikill m.v. hefðbundna verslunarferð.

Upplýsingatækni orðin lykilþáttur

„Við höfum farið frá því á tiltölulega stuttum tíma að vera fyrirtæki sem nýtti upplýsingatækni ekki í miklum mæli til að þjónusta viðskiptavini í að gera hana að lykilþætti í okkar starfsemi. Við erum samt bara rétt að byrja.“

Talið berst nú að verðlagsþróun og áhrifum Úkraínustríðsins og Covid-19 þar á undan. Finnur segir að verðhækkanirnar frá birgjum hafi verið miklar í þrjú ár. Steininn hafi þó tekið úr síðasta sumar og á næstu mánuðum þar á eftir náðu hækkanir methæðum. „Við þessar aðstæður er rekstur dagvöruverslana í járnum. Framlegð dregst saman sem þýðir á mannamáli að verslanir skila verðhækkunum ekki jafn hratt út í verðlagið og þær berast.“

Finnur segir máli sínu til stuðnings að fyrir fimm árum hafi framlegð Haga verið 24%, næsta ár var hún 22%, svo 21% og stendur nú í rúmum 19%. „Þetta er afgerandi breyting í smásölu, en af þessu sjáum við að rekstrarbati síðustu ára liggur ekki í aukinni álagningu heldur fyrst og fremst í hagræðingu, stefnumótandi ákvörðunum sem hafa reynst vel og veltuaukningu í okkar stærstu einingum.“

Er framlegðarþróun í geiranum áhyggjuefni?

„Þegar framlegð dregst saman yfir lengri tímabil er það vissulega áhyggjuefni í smásölurekstri. Sérstaklega þegar það gerist á sama tíma og allur rekstrarkostnaður hækkar eins mikið og raun ber vitni,“ segir Finnur og vísar m.a. til launaþróunar hérlendis síðustu ár. „Framlegðarstig er í öllu falli komið niður fyrir langtímajafnvægi og er tæpast sjálfbært til lengdar, með rekstrarkostnað á uppleið og miðað við að okkur er ætlað að fjárfesta í þróun og viðhaldi rekstrar og skila arðsemi fyrir hluthafa. Þessi þróun síðustu mánuði og misseri kemur í sjálfu sér ekki á óvart þar sem verðhækkanir frá framleiðendum og birgjum hafa verið miklar og samkeppni á sama tíma kröftug. Einhvern tíma mun ára betur, verðhækkunum mun linna og rekstur leitar þá í betra jafnvægi.“

Hvernig gengur rekstur Haga í samanburði við sambærilegar keðjur erlendis?

„Það gengur auðvitað misjafnlega í löndunum í kringum okkur og líka innan hvers lands. Það sem einkennir sambærileg fyrirtæki er þessi óvenjulegi tekjuvöxtur sem skýrist af verðbólgunni. Það sem er mögulega aðeins frábrugðið hjá okkur síðustu misserin er að tekjuvöxtur í dagvöru er töluvert umfram verðbólgu og það sem við gætum ætlað út frá fólksfjölgun. Við lesum þannig í þessa þróun að viðskiptavinir séu ánægðir með okkar áherslur og treysti okkur vel.“

Hver ber ábyrgð á verðbólgunni?

„Það er von þú spyrjir. Mér finnst dálítið eins og við séum komin í einhvers konar samkvæmisleik þar sem enginn vill halda á Svarta-Pétri og allir benda á einhvern annan. Þetta er kannski mesti skaðinn af verðbólgunni; hún elur á tortryggni og traust í samfélaginu gufar upp. Traust er samfélagslegt lím og okkur gengur betur þegar það er fyrir hendi. Ég vona að við látum ekki þetta eyðileggingarafl verða til að rjúfa samstöðu um að halda aftur af þessum forna fjanda okkar.

Umræða um verð og verðþróun á dagvöru og öðrum nauðsynjum er bæði nauðsynleg og eðlileg í árferði eins og nú. Hækkanir hafa verið án fordæma og það er vel skiljanlegt að þá beinist sjónir að versluninni, því hún stendur næst neytendum í þeirri keðju sem sér okkur fyrir nauðsynjum. En það þarf að vera skilningur á því að verslunin er milliliður í þessari keðju, sem teygir sig frá framleiðendum, til flutningsaðila og heildsala og þaðan til smásala, sem aftur reka verslanir og koma vöru til neytenda.“

Verðmyndun skiptist í þrennt

Verðmyndun út úr verslun skiptist í grófum dráttum í þrennt eins og Finnur útskýrir. Framleiðendur og flutningsaðilar standa á bak við um 50%, heildsalar um 30% og verslunin um 20%. „Þetta þýðir í raun og veru að svigrúm verslunar eftir að búið er að gera upp rekstrarkostnað er lítið. Heilt yfir, þá ræður verslun 20 krónum af verði vöru sem kostar 100 krónur út úr búð. Þetta þýðir í raun að þegar búið er að gera upp rekstrarkostnað, þar sem laun eru stærsti liðurinn, þá er svigrúm verslunar í kringum þrjár krónur, a.m.k. miðað við rekstur Haga í fyrra. Í framhjáhlaupi má nefna að hlutur okkar stærstu matvöruverslunar, Bónuss, er umtalsvert undir 20%, enda hefur þar verið hægt að treysta á hagkvæmustu matvörukörfu landsins í meira en 30 ár.

Þannig að helsti vandi okkar í dag felst ekki í aukinni álagningu verslunar eða annarra hlekkja í keðjunni sem sér okkur fyrir nauðsynjum, heldur snýst hann um það einfaldlega að framleiðslukostnaður á nánast allri vöru hefur hækkað mjög mikið, vegna vandræða í aðfangakeðjunni, í framleiðslu t.d. vegna farsóttar og nú frá byrjun árs 2022 vegna stríðs í Úkraínu. Matvara varð dýrari vegna þess að það varð dýrara að framleiða hana og það vandamál mun ekki hverfa með neinum töfrabrögðum.

Ef einhverjum er um að kenna verðbólga í matvöru, þá er aðalsökudólginn ekki að finna á Íslandi. Það er hins vegar verkefni okkar sem starfa í verslun, sem starfa í heildverslun, framleiðslu og flutningum á vörum að draga eins og hægt er úr áhrifum mikilla kostnaðarhækkana, með því að nálgast viðfangsefnið af ábyrgð, sem felur í sér hófsemd, verðbreytingar í samræmi við kostnaðarbreytingar og umfram allt aðhald í öllum rekstri. Það er verkefnið okkar í dag!

Gengið vel á Íslandi

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að þetta hafi gengið vel á Íslandi, því hækkun á verði matvöru hefur verið minni hér en annars staðar í Evrópu. Í byrjun árs 2022, áður en stríðið hófst, var verðbólga matvæla svipuð á Íslandi og í ESB eða í kringum 5%. Í júní 2022 var verðbólgan orðin 7% hjá okkur en 12% í ESB. Verðbólgan nær hæstu hæðum í Evrópu um síðustu áramót í 19% en fer hæst hjá okkur í 12% fjórum mánuðum seinna.“

Finnur nefnir sem dæmi að í Svíþjóð og Þýskalandi hafi þessi verðbólga mest orðið 21% og um 15% í Danmörku, Noregi og Finnlandi.

„Matarverðbólga í nágrannalöndunum hefur farið lækkandi að undanförnu og er nú á svipuðu róli og hjá okkur, eða heldur lægri. En af þessu má sjá að þróun verðlags í samanburði við nágrannalöndin hefur verið hagfelld hérlendis.“

Af hverju er matvara dýr á Íslandi?

„Er matur raunverulega dýr á Íslandi?“ spyr Finnur á móti. „Það er reyndar skiljanlegt að við fáum þessa tilfinningu þegar við förum með okkar íslenska kaupmátt og verslum erlendis, einkum í suðurhluta Evrópu. En samanburðurinn er aðeins villandi, því réttara væri að skoða verðlag í hverju landi í samhengi við heildarútgjöld heimila, ráðstöfunartekjur eða rekstrarkostnað á viðkomandi stað. Þannig mælt, þá telur matarkarfa heimila á Íslandi um 13% útgjalda, sem er lægra hlutfall af útgjöldum en meðaltal um 30 Evrópulanda, allt frá Noregi til Portúgals, sem er tæplega 16% (m.v. árið 2021). Á síðustu tíu árum hefur þetta hlutfall lækkað á Íslandi en hækkað í nágrannalöndunum. Það má því færa rök fyrir því að það sé í einhverjum skilningi ódýrara fyrir heimafólk að kaupa í matinn hérlendis en á velflestum stöðum í Evrópu, a.m.k. hlutfallslega m.v. útgjöld eða laun.“

Er Seðlabankinn á réttri leið í baráttu sinni gegn verðbólgunni?

„Það sem setur verðbólguskotið af stað eru alþjóðlegar kringumstæður sem mynda verðbólguþrýsting innanlands. Þann þrýsting er erfitt að hemja með aðgerðum SÍ. Að auki kynda svo aðstæður á húsnæðismarkaði og miklar launahækkanir enn frekar undir verðbólgunni.“

Finnur bendir á að verðbólgan sé engum einum að kenna og enginn einn ráði við hana, þ.m.t. Seðlabankinn. Það þurfi allir að sýna ábyrgð, fyrirtæki með hófsemi og hagkvæmum rekstri og stjórnvöld og sveitarfélög með því að sýna gott fordæmi í útgjöldum og launaþróun. Í framhaldi þurfi aðilar á vinnumarkaði að gera slíkt hið sama í næstu kjarasamningum. „Að öðrum kosti verður ágætis fóður fyrir áframhaldandi verðbólguþrýsting.“

Hver er þín skoðun á hlut landbúnaðar í verðlagsþróun – er umræðan á villigötum?

„Ríflega 40% af matvöru í Bónus og Hagkaup eru landbúnaðarvörur. Það þarf að huga að uppbyggingu íslenska landbúnaðarkerfisins þannig að það þjóni neytendum og bændum betur en það gerir í dag. Hjá Högum erum við stolt af því að eiga í mjög góðu samstarfi við bændur, enda erum við líklega stærsti söluaðili landsins á frábærum íslenskum landbúnaðarafurðum, mjólkurvörum, kjöti og grænmeti. Það dylst engum að í hækkandi matvöruverði að undanförnu hafa landbúnaðarvörur hækkað talsvert umfram meðaltal. Sú hækkun er tilkomin vegna þess að verð til bænda og afurðastöðva hefur hækkað mikið. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, enda hafa öll aðföng til landbúnaðar hækkað mikið frá upphafi stríðs, svo sem áburður og fóður, auk þess sem vextir hafa hækkað mikið. Aðstæður í hefðbundnum greinum landbúnaðar, einkum framleiðslu lamba- og nautakjöts, eru í dag þannig að þrátt fyrir hærra skilaverð er rekstur ekki nægilega burðugur. Það er svo áhugavert, ofan á þetta, að af öllum vöruflokkum í verslunum okkar þá bera landbúnaðarvörur einna minnstu framlegðina. Til að draga saman, þá er staðan eftirfarandi: verslunin hefur lítið upp úr að selja þessar frábæru vörur, afkoma bænda í hefðbundnum greinum er ekki nægileg og verð til neytenda hækkar mikið, þannig að mörgum finnst nóg um. Þessi pattstaða, sem er sjálfu sér ekki ný, ætti að vera okkur vísbending um að við þurfum að breyta í grundvallaratriðum því kerfi sem við höfum byggt upp í kringum framleiðslu á landbúnaðarvörum hérlendis. Sú breyting þarf að fela í sér aukna möguleika til hagræðingar í framleiðslu fyrir okkar litla markað en um leið endurskoðun á þeirri ríflegu tollvernd sem íslensk framleiðsla býr við. Markmiðið hlýtur að vera að tryggja bændum lifibrauð, verslunum viðunandi afkomu og neytendum góða vöru á hagkvæmu verði, þar sem það fyrsta og síðasta skiptir auðvitað mestu.“

Sérðu fyrir þér áframhaldandi verðhækkanir að utan?

„Við sjáum sem betur fer ekki lengur þessar miklu verðhækkanir á innfluttri vöru frá heildsölum sem einkennt hafa síðustu 12 mánuði. Því miður erum við samt ekki enn farin að sjá verð frá innlendum birgjum lækka, en við vonumst að sjálfsögðu eftir því að sjá verðbólgu í matvöru lækka með haustinu. Hvort það verður mun helst ráðast af þróun ófriðarins í Evrópu, gengisþróun ISK og svo þróun á verði innlendrar framleiðslu á breiðum grunni.“

Er almenningur með ykkur í liði eða finnst honum þið hugsa of mikið um að græða?

„Í hlutfalli af veltu er afkoma Haga hófleg og töluvert undir meðaltalsafkomu síðustu ára,“ segir Finnur.

Í fyrra var velta Haga 162 ma.kr. Vörur voru keyptar fyrir 131 ma.kr., laun voru 14,5 ma.kr. og rekstrarkostnaður til viðbótar því 6,5 ma.kr. Afskriftir voru 4,5 ma.kr., vextir 2 ma.kr. og tekjuskattur 1 ma.kr. Þá standa eftir í hagnað fimm milljarðar, eða 3% tekna, eins og Finnur útskýrir.

„Ef við setjum þetta í samhengi við smærri rekstur, hjá kaupmanni á horninu sem veltir 40 milljónum á ári. Þá er þessi niðurstaða sambærileg því og hann skilaði hagnaði upp á rétt rúmlega eina milljón, sem flestum þætti hóflegt.“

Finnur segir að sér sýnist flestir skilja að reka þurfi fyrirtæki með hagnaði svo þau geti fjárfest í innviðum og þróun og tryggt áframhaldandi starfsemi, auk þess að tryggja fjármagnseigendum viðunandi ávöxtun. „Það sem gleymist svo oft í tilviki Haga er að góður rekstur skilar sér í einhverjum skilningi beint aftur til almennings í gegnum arðgreiðslur til lífeyrissjóða, sem eiga um 75% í Högum.

En svo ég svari spurningunni þinni hér að ofan beint, þá er svarið augljóst. Við sjáum það best á því hve mikil eftirspurnin er í raun og hve mikið hún hefur aukist síðustu misseri. Viðskiptavinir okkar eru með okkur í liði og okkar fyrirtæki eru augljóslega með þeim í liði. Með þér í liði … er raunar slagorð Bónuss, og á það einstaklega vel við þessa dagana,“ segir Finnur.

Við vendum að lokum kvæði okkar í kross og ræðum um fasteignaþróunarverkefni Haga sem nú eru komin á forræði fasteignaþróunarfélagsins Klasa, sem Hagar eiga þriðjungshlut í. Blaðamaður spyr Finn af hverju félagið sé í slíkri starfsemi.

„Fyrir tveimur árum lá fyrir að í eignasafni Haga var töluvert af þróunareignum. Þetta voru verðmætar eignir sem ekki höfðu skýran farveg til nýtingar og verðmætasköpunar. Í grófum dráttum höfðum við þrjá kosti: Að selja eignirnar, að þróa þær sjálf eða þróa í samstarfi við aðra. Við töldum síðasta kostinn ákjósanlegastan þar sem hann skapar virði fyrir okkar hluthafa hraðar og meira en við gætum náð fram með eigin þróun eða sölu. Samstarf okkar um Klasa fer mjög vel af stað og ég tel tækifæri til verðmætaaukningar þar vanmetin,“ segir Finnur og bendir á að heildarbyggingarmagn á vegum Klasa telji um 300 þúsund fermetra, sem sé að meirihluta til íbúðarhúsnæði sem fyrirsjáanlegur skortur er á næstu árin.“

Tíu verkefni úr uppsprettunni í búðum

Þriðja árið í röð standa Hagar fyrir nýsköpunarverkefninu Uppsprettunni en umsóknarfrestur rennur út 27. þessa mánaðar.

Finnur segir að hlutverk Uppsprettunnar sé að styðja frumkvöðla til nýsköpunar og þróunar í íslenskri matvælaframleiðslu. „Við viljum stuðla að sjálfbærri innlendri framleiðslu sem eykur fjölbreytni og gerir verslun áhugaverðari og skemmtilegri fyrir vikið. Hér býr ótrúlega mikið af kraftmiklu fólki með ástríðu fyrir framleiðslu á spennandi vörum. Við vildum með Uppsprettunni búa til farveg fyrir þetta fólk hjá okkur, veita aðgang að fjármagni til stuðnings, ráðgjöf frá sérfræðingum í verslun og hilluplássi, sem á endanum kannski skiptir frumkvöðla í matvöruframleiðslu mestu máli.

Síðustu tvö ár höfum við styrkt 21 verkefni. Af þeim hafa tíu skilað vörum í verslanir og þrjú bætast við á haustmánuðum. Sagan á bak við margar af þessum vörum er hreint frábær þar sem innlend framleiðsla og sjálfbærni tvinnast saman til að uppfylla þarfir viðskiptavina á hugmyndaríkan hátt. Þar mætti nefna sápur frá Baða sem eru unnar úr íslenskri repjuolíu og afgangsávöxtum frá Banönum eða sælkerasveppi frá Svepparíkinu, sem ræktaðir eru í lífrænum úrgangi sem fellur til við matvælaiðnað. Uppsprettan er með því skemmtilegra sem við fáumst við núna árlega. Það er mikið varið í það fyrir okkur að fá tækifæri til að hitta frumkvöðla sem hafa sömu ástríðu og við fyrir mat- og dagvöru fyrir verslanir.“