Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason
Fyrir okkur sem höfum barist fyrir auknu frelsi launafólks til að ávaxta lífeyrissparnað sinn er ástæða til að fagna áformum fjármálaráðherra.

Óli Björn Kárason

Það er ekki alltaf sem ég gleðst þegar ég renni yfir samráðsgátt stjórnvalda, þar sem áform um lagasetningar, reglugerðir eða drög að frumvörpum og þingsályktunum eru kynnt. Almenningi og hagaðilum gefst þar tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum um hvað geti betur farið. Að þessu leyti er samráðsgáttin til fyrirmyndar.

Margt af því sem birtist í samráðsgáttinni vekur lítinn áhuga minn, annað veldur mér áhyggjum og sumt vonbrigðum. Á stundum er illa hægt að verjast þeirri tilfinningu að stjórnvöld telji það sérstakan gæðastimpil að hámarka fjölda lagafrumvarpa og -breytinga, þingsályktana og reglugerða, að ógleymdum stefnum um hitt og þetta. En það kemur fyrir að ástæða er til að gleðjast – sjá að unnið sé að mikilvægum framfaramálum. Fátt er gleðilegra en þegar hafist er handa við að auka frelsi einstaklinga.

Á fyrsta degi september kynnti Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra áform um lagasetningu er miðar að því að auka valfrelsi launafólks í ávöxtun séreignarsparnaðar. Væntanlegt frumvarp á að „fela í sér tillögur um aukið valfrelsi einstaklinga í viðbótarlífeyrissparnaði á þá leið að einstaklingar geti sjálfir ákveðið fjárfestingarstefnu sparnaðarins og breytingar á henni í samráði við vörsluaðila“. Í svokölluðu áformaskjali sem birt hefur verið í samráðsgáttinni segir að til að ná markmiðinu þurfi „að auka heimildir vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar til að bjóða viðskiptavinum sínum að hafa persónulegt val um fjárfestingarstefnu viðbótarlífeyrissparnaðar á þann veg að eigandi slíks lífeyrissparnaðar geti sjálfur ákveðið fjárfestingar og ávöxtun sparnaðarins“.

Stefnt er að því að leggja frumvarpið fyrir Alþingi áður en árið er úti. Gangi allt eftir getur íslenskt launafólk því fagnað áfangasigri – auknu valfrelsi – á nýju ári.

Ástæða til að fagna

Aukið valfrelsi í lífeyrismálum er hluti af stjórnarsáttmála þeirra þriggja flokka sem standa að ríkisstjórninni. „Stefnt verður að því að finna leiðir til auka valfrelsi í viðbótarlífeyrissparnaði með fjölgun fjárfestingakosta,“ segir í stefnuyfirlýsingu flokkanna frá 2021. Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar hefur þegar verið lögfest 15,5% lágmarksiðgjald í lífeyrissjóði samhliða tilgreindri séreign. Þá er vinna hafin við gerð grænbókar um lífeyriskerfið í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóði. Markmiðið er að skapa „grundvöll fyrir umræðu, stefnumörkun og ákvarðanir um lífeyriskerfið og framtíðarþróun þess með heildstæðum hætti“. Horfa á til þess að einfalda kerfið og greina „grundvallarforsendur varðandi hlutverk, uppbyggingu, sjálfbærni og umfang sjóðanna í efnahagslífinu, uppbyggingu réttinda og samspil milli ólíkra stoða lífeyriskerfisins, nauðsynlega hækkun lífeyrisaldurs og sveigjanleika til töku lífeyris í samhengi við hækkandi lífaldur, tryggingafræðilegar forsendur, fjárfestingarheimildir, starfsumhverfi og eftirlit“.

Fyrir okkur sem höfum barist fyrir auknu frelsi launafólks til að ávaxta lífeyrissparnað sinn er ástæða til að fagna áformum fjármálaráðherra. Með þeim er ekki aðeins stuðlað að aukinni samkeppni milli lífeyrissjóða heldur einnig (sem skiptir ekki minna máli) byggt undir áhuga og aukna vitund almennings um fjárhagslegt sjálfstæði.

Mikilvægur áfangi

Nái áformin um lagasetninguna fram að ganga er áfanga náð í baráttunni fyrir fjárhagslegu sjálfstæði launafólks. Ég hef alla tíð litið svo á að ein helsta skylda Sjálfstæðisflokksins sé að vinna að því að gera launafólki kleift að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði. Fátt tryggir betur frelsi einstaklingsins – fjölgar tækifærunum og styrkir valfrelsi hans á vinnumarkaði, í húsnæðismálum og á öðrum sviðum. Einn af hornsteinum jafnréttis er fjárhagslegt sjálfstæði.

Þrátt fyrir ýmsa galla er lífeyrissjóðakerfið dýrmætt fjöregg okkar Íslendinga. Ég hef gengið svo langt að fullyrða að styrkleiki lífeyrissjóðanna sé ein burðarstoð efnahagslegrar velgengni þjóðarinnar. Íslenska lífeyriskerfið á sér fáar hliðstæður í öðrum löndum. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að breytingar á kerfinu séu vel ígrundaðar. Þótt svokallaðar grænbækur hafi verið misjafnar að gæðum og ekki alltaf staðið undir væntingum, er ástæða til að vænta mikils af þeim einstaklingum sem hafa tekið að sér að greina stöðu og framtíð lífeyrissjóðakerfisins með heildstæðum hætti.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að innan starfshópsins sem vinnur að grænbókinni eru skiptar skoðanir um hvað megi betur fara. Annað væri óeðlilegt – jafnvel óheilbrigt. Markmiðið er að styrkja lífeyriskerfið enn frekar og auka hagkvæmni þess. Hópurinn kemst því illa hjá því að fjalla um með hvaða hætti hægt er að auka aðhald að lífeyrissjóðunum og auka samkeppni á milli þeirra. Það verður best gert með því að veita launafólki frelsi til að velja sér lífeyrissjóð vegna samtryggingarhluta iðgjalda, óháð kjarasamningum og stéttarfélögum. Slík breyting er í takt við vilja landsmanna og í samræmi við ákvæði stjórnarskrár um félagafrelsi.

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.