Útgerð Skinney-Þinganes hf. er líklega stærsti einstaki vinnuveitandinn á Hornafirði og því í lykilhlutverki í atvinnulífi svæðisins.
Útgerð Skinney-Þinganes hf. er líklega stærsti einstaki vinnuveitandinn á Hornafirði og því í lykilhlutverki í atvinnulífi svæðisins. — Morgunblaðið/Gunnlaugur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekki er útlit fyrir að togarinn Þórir SF, sem Skinney-Þinganes hf. hefur gert út frá Höfn, verði tekinn í rekstur á ný. Skipinu var lagt í kjölfar umfangsmikilla…

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Ekki er útlit fyrir að togarinn Þórir SF, sem Skinney-Þinganes hf. hefur gert út frá Höfn, verði tekinn í rekstur á ný. Skipinu var lagt í kjölfar umfangsmikilla skerðinga í þorskkvótanum undanfarin ár og banns við humarveiðum vegna nýliðunarbrests. Skipið hefur verið til sölu um nokkurt skeið.

„Sérstaklega er það humarbresturinn sem gerir þetta að verkum og eins niðurskurður í þorskinum. Við vorum með tvö skip á humri í sex til átta mánuði á meðan stofninn var sem stærstur. Þetta er búið að vera gífurlegt högg fyrir okkur en við vinnum bara úr því. Við verðum bara að nýta skipakostinn betur sem við höfum,“ segir Ásgeir Gunnarsson, framkvæmdastjóri veiða hjá Skinney-Þinganesi.

Þorskkvóti fiskveiðiársins, sem hófst 1. september síðastliðinn, er aðeins um 1% meiri en árið á undan og er nú tæplega fimmtungi minni en hann var fiskveiðiárið 2019/2020. Samdrátturinn er um 50 þúsund tonn á þessu tímabili, það er um það bil jafn mikið og tíu aflahæstu togararnir lönduðu af þorski allt fiskveiðiárið 2019/2020.

Spurður hvort skipverjar á Þóri SF hafi misst störf sín þegar togaranum var lagt svarar Ásgeir: „Við fundum störf fyrir flesta og smám saman hafa menn komist um borð hjá okkur [á öðrum skipum]. Þetta er það leiðinlegasta sem við gerum, að draga saman, en kerfið er bara þannig uppbyggt að það þarf að hagræða í rekstri. Það er engum greiði gerður með að vera með fleiri skip en aflaheimildir gefa tilefni til.“

Náttúran óútreiknanleg

Í desember 2021 tilkynnti Hafrannsóknastofnun að stofnunin hefði ráðlagt stjórnvöldum að banna humarveiðar árin 2022 og 2023. Samhliða því var ákveðið að loka fyrir botnvörpuveiðar í Breiðamerkurdjúpi, Hornafjarðardjúpi og Lónsdjúpi til að vernda humarstofninn, en viðvarndi nýliðunarbrestur hefur verið í stofninum.

Tilkynnti stofnunin síðastliðið sumar að sterkar vísbendingar væru um að humarstofninn væri að taka við sér, en þó er ekki víst að það leiði til þess að veiðar verði heimilaðar á ný á næstunni.

„Það mun líklega taka nokkuð mörg ár að sjá umskipti og fá þau inn í veiðina. Það er kannski í síðasta leiðangri sem við sjáum smá ljós í myrkrinu, en ég held að næstu áru muni sýna hvort humarinn sé að snúa aftur eða hvort við þurfum að vera þolinmóð í lengri tíma,“ segir Ásgeir.

Inntur álits á kenningum um að veiðarfærin sem notuð eru við humarveiðar hér á landi séu meðal ástæðna þess að humarstofninn er nú í erfiðleikum svarar hann því neitandi. „Við erum búin að veiða humar síðan á sjöunda áratugnum og alltaf veitt hann í troll. Sama gera þjóðir sem nýta sömu tegund og við, Skotar og Danir. Það er ekkert sem bendir til þess að þær veiðar orsaki þennan nýliðunarbrest sem við erum að kljást við núna. Aðrir hafa ekki lent í þessu og við ekki fyrr en í kringum 2010 til 2012.

Við erum ekki hrædd um að veiðarfærin séu ástæðan heldur er það eitthvað í náttúrunni sem gerir að verkum að hann nær ekki að vaxa. Breyttir hafstraumar eða eitthvað annað. Mér hefur fundist að það sé frekar það sem fiskifræðingar telja ástæðuna. Miðað við mælingar Hafró er nóg til af [humar]holum og nóg til af humri, en ungi humarinn nær sér ekki á strik. Nýliðunin er engin.“

Fullur bjartsýni

Þrátt fyrir þessar breyttu aðstæður er ekki ástæða til að vera með barlóm segir Ásgeir. Bendir hann á vel heppnaða makrílvertíð sem er að baki og veglega loðnuvertíð. Þá séu nokkrar væntingar til komandi loðnuvertíðar. „Þeir hafa gefið okkur undir fótinn með að það gæti kannski orðið meðalvertíð og við bíðum bara og vonum. Síðustu vertíðir hafa verið góðar og fengist hefur gott verð. Við erum bjartsýn á að það verði þokkaleg loðnuvertíð.“

Miklar sveiflur hafa verið í útgefinni ráðgjöf um hámarksafla í loðnu milli ára. Það er því vert að spyrja hvort það sé blíðan á Höfn sem gerir Ásgeir svona bjartsýnan. „Já. Það er ekkert gaman að þessu nema maður sé bjartsýnn. Við höfum ekkert gaman af svartsýni hér enda hjálpar hún okkur ekki neitt,“ svarar hann og hlær.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson