Tobacolor er í senn aðgengilegur og margslunginn ilmur sem loðir lengi við húðina. Það er verst hvað ilmirnir frá Dior eru orðnir afskaplega dýrir.
Tobacolor er í senn aðgengilegur og margslunginn ilmur sem loðir lengi við húðina. Það er verst hvað ilmirnir frá Dior eru orðnir afskaplega dýrir. — Ljósmynd/Ásgeir Ingvarsson
Ég er afskaplega varkár þegar kemur að því að kaupa ilmi og gef mér góðan tíma til að spá og spekúlera. Reynslan hefur kennt mér að það má ekki alltaf treysta fyrsta hnusi og ilmur sem virkar hrífandi í dag getur þótt óspennandi á morgun

Hið ljúfa líf

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Ég er afskaplega varkár þegar kemur að því að kaupa ilmi og gef mér góðan tíma til að spá og spekúlera. Reynslan hefur kennt mér að það má ekki alltaf treysta fyrsta hnusi og ilmur sem virkar hrífandi í dag getur þótt óspennandi á morgun. Þá er nefið viðkvæmt skynfæri og getur þefskynið fljótt orðið bjagað þegar þefað er af öllu úrvali ilmvatnsbúðanna.

Þefað af handarbakinu

Ég hef áður sagt lesendum að gott fyrsta skref við ilmvatnskaup sé að biðja sölumann um leiðsögn: segja honum hvers konar ilmir hitta alla jafna í mark, eða biðja hann um að benda á eitthvað nýtt og spennandi. Því næst má úða smá sýnishorni á pappírsstrimil, eða ofan í litla keramíkskál líkt og tíðkast víða, en strimillinn dregur fram háu tónana og keramíkskálin þá lágu og finnst mér ágætt að nota strimil og skál saman. Eftir að hafa þrengt hringinn má láta á það reyna að biðja um sýnishorn, en annars fá að úða á handarbak eða framhandlegg til að finna hvernig ilmurinn þróast á húðinni og einnig til að fá góða hugmynd um hve lengi hann endist.

Finnst mér það ágætis vísbending um að ég hafi fundið áhugaverðan ilm þegar ég stend mig að því að þefa trekk í trekk af eigin handarbaki eftir að hafa kvatt ilmverslunina.

Sé frekari rannsókna þörf er vefurinn Fragrantica mjög gott hjálpartæki en þar má finna samfélag fólks með mikla ástríðu fyrir hágæðailmum og þar eiga nær allir ilmir sérstaka síðu þar sem búið er að greina í þaula hvern minnsta tón og mikilvæga þætti á borð við hversu sterkan ilmhjúp (e. sillage) ilmurinn framkallar og hve lengi ilmurinn lifir á húðinni.

Vindlar, hunang og ávextir

Seint í ágúst átti ég erindi til Saígon og lagði ég mig fram við að skoða hvaða ilmir væru í boði. Það er merkilegt hvað Saígon býr að metnaðarfullum ilmverslunum, sérstaklega þegar haft er í huga að margar ilmvatnsflöskurnar kosta á við mánaðarlaun meðallaunþegans. Er skýringin væntanlega sú að víetnamska hagkerfinu er svo misskipt að ef fólk á einhvern pening yfir höfuð, þá á það glás og heilan helling. Um leið gerir misskiptingin það að verkum að þeim sem hafa fé á milli handanna liggur þeim mun meira á að fjárfesta í stöðutáknum á borð við dýra lúxusilmi.

Því miður rakst ég ekki á neina spennandi víetnamska ilmi en tókst að ramba inn á bás hjá Christian Dior og endurnýjaði kynnin við Tobacolor sem hefur verið á markaðinum frá árinu 2021.

Ég hef prófað þennan ilm áður og var ekkert sérstaklega hrifinn en í þetta skiptið var ég alveg heillaður. Kannski var það loftslagið eða töfrar Víetnam, eða kannski var ég ekki nógu vel upplagður þegar ég prófaði ilminn síðast. Svona geta ótrúlegustu þættir haft áhrif á upplifun okkar af ilmum.

Líkt og nafnið gefur til kynna eru tóbaks-tónar ráðandi í Tobacolor og minnir anganin sumpart á sætt danskt píputóbak eða nýopnaða öskju af vindlum. Sem mótvægi við tóbaks- og reykjartónana hefur blandan að geyma lauflétta angan af hunangi, súkkulaði og ávöxtum – mér finnst ég líka greina agnarögn af kantalópu. Kryddtónar gefa ilminum síðan meiri dýpt og blæbrigði.

Langlífur og viðloðandi

Ég tók eftir því að Tobacolor virkar sætari ef honum er úðað á bera húð en verður dekkri og kröftugri ef úðað er á kafloðinn framhandlegg. Er það svo sem ekki skrítið enda skapa hárin meira yfirborð og þar með hraðari uppgufun. Er þar kannski komin skýringin á að sumum þykir ilmurinn of sætur á meðan aðrir halda ekki vatni og gefa Tobacolor fullt hús stiga. Tobacolor endist lengi – þvæst ekki heldur svo auðveldlega af – og þegar ilmurinn dofnar situr eftir þægileg duftkennd angan.

Er Tobacolor karlmannlegur og hlýlegur ilmur sem er alveg kjörinn fyrir vetrarmánuðina fram undan – en um leið svo kröftugur og afgerandi að það ætti að nota hann af varkárni í lokuðum rýmum á borð við skrifstofur og skólastofur.

Stærri flaskan ekki endilega besti kosturinn

Eftir að hafa hugsað mig um í sólarhring lét ég verða af því að kaupa minnstu flöskuna af Tobacolor, 40 ml, bæði vegna þess að ilmirnir frá Dior eru orðnir agalega dýrir í seinni tíð og eins vegna þess að litlu flöskurnar eru heppilegar fyrir þá sem hafa gaman af fjölbreytni og fikti.

Tæknilega séð er hægt að gera betri kaup í stærri flöskunum en það getur tekið mörg ár að tæma þær og er það ekki endilega sniðugt því að hágæðailmir hafa takmarkaðan endingartíma og geta skemmst og rýrnað smám saman, sérstaklega ef flöskunni er ekki haldið frá sólarljósi og hitasveiflum. Litlu flöskurnar eru líka heppilegri til að ferðast með en hinar tvær stærðirnar, 125 ml og 200 ml, komast t.d. ekki í handfarangur út af 100 ml reglunni.

Þá eru 40 ml hæfileg stærð til að kynnast ilminum vel, án of mikillar skuldbindingar. Í 40 ml flösku eru að lágmarki 400 úðar og í tilviki Tobacolor ætti einn úði að vera nóg til að endast út daginn. Minnsta flaskan ætti því að duga í heilt ár miðað við daglega notkun.